blog... the modern person's cry for attention

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Í morgun upplifði ég í fyrsta sinn, eftir fimm ára búsetu hér í borg, að sjá aðra hinna tveggja stóru brúa, sem tengja Amager við meginlandið, ljúkast upp. Ég var á leiðinni í gufubaðið á Nörrebro og kom hjólandi út Torvegade og upp þá brú sem ég er nokkuð viss um að heiti Börsbroen (ég ætti náttúrulega að vita það eftir að hafa búið hér þetta lengi), og sá þá að brúin stóð upp á endann og skip að sigla undir hana. Akandi vegfarendur og hjólreiðafólk safnaðist saman í biðröð eftir brúnni og beið þess að hún lykist saman á ný. Ég hafði aldrei séð þetta áður í Kaupmannahöfn og starði opinmynnt á undrið, og þar sem mér varð litið í kringum mig á fjöldann, tók ég eftir að það ríkti alger þögn. Dauðaþögn. Og það er nú svolítið sérstakt, því Danir eru vanir að röfla og kvarta hástöfum við sjálfa sig eða næsta mann, ef eitthvað verður til þess að hindra ferðir þeirra, eins og t.d. löng röð í Nettó. En mannfjöldinn þagði, í lotningu liggur mér við að segja. Ég held að ég hafi aldrei séð jafn marga Dani samankomna í jafn djúpri þögn.

1 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home