blog... the modern person's cry for attention

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Á föstudaginn fór ég út að djamma í fyrsta sinn síðan julefrokostinn í byrjun desember, og tókst það nokkuð vel. Ég kom ekki heim fyrr en um sjö á laugardagsmorgun, á útjöskuðum hælum og útklínd í tómatsósu (babybites eru óhjákvæmilegur hluti af næturlífi mínu) og fór að sofa eftir að hafa talað við Armen, sem var orðinn fremur áhyggjufullur yfir skeytingarleysi mínu um að svara farsímanum. Hann hafði alveg gleymt því að ég ætlaði út og skildi ekkert í því að ég svaraði ekki. Svo lá í ég í bælinu þar til klukkan var farin að ganga fimm. Þá reis ég úr rekkju og fékk mér að borða, fór í sturtu og hlúði að sjálfri mér. Sumir hefðu nú haldið að ég myndi svo eiga erfitt með að sofna um kvöldið, en nei, ég sofnaði yfir Almost Famous upp úr níu og hraut í sófanum í tvo tíma áður en ég hafði mig inn í rúm. Ég svaf svo til rúmlega átta í morgun! Þetta getur maður kallað alvarleg eftirköst.

Í dag er ég hinsvegar búin að vera afar iðjusöm. Ég fór í ræktina og hamaðist þar á tækjum og lóðum, keypti svo inn og fór heim og bakaði brauð og bollur og þreif íbúðina mína. Svo kom Lena í kaffi og núna er dagurinn líka bráðum búinn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home