blog... the modern person's cry for attention

föstudagur, mars 02, 2007

Allt að verða vitlaust

Þið hafið kannski áhyggjur af mér, að vera stödd einsömul í voðabýnum Kaupmannahöfn, þar sem æstur lýðurinn fer mikinn og mölvar rúður og bíla með götusteinum, reiðhjólum og tómum bjórflöskum. En ég er heil á húfi og varð ekki vör við þessi læti á annan hátt en í fjölmiðlum, og svo sá ég að það var búið að hálfrústa Christianshavn og Nörrebro, þegar ég átti leið þar um í dag. Hálfbráðnar ruslatunnur, spýtnabrak, glerbrot og leifar af varnarvirkjum uppreisnarseggja lágu eins og hráviði um allt og heilmikið af lögreglubílum á götunum. Einstaka tötraklæddan ungling mátti sjá á stangli, þá ýmist að sulla í sig bjór til að ná sér eftir gærdaginn, eða þá í samræðum við löggumenn. Ég veit sossum ekki hvað mér á að finnast um þetta. Ég hef hvorki mikinn áhuga eða samúð með þessu Ungdómshúsi, læt mig það eiginlega litlu varða þar sem að ég þekki lítið sem ekkert til þess. Á hinn bóginn finnst mér upplífgandi að sjá að pólítískur vilji sé fyrir hendi hjá einhverjum í landinu, en allri þessari orku hefði betur verið varið í mótmæli gegn því hvernig danska ríkisstjórnin fer með flóttamenn og útlendinga.

1 Comments:

  • Hér á Fjóni eru engir mótmælendur. Bara ferðatöskuþjófar. Mig auma!

    By Blogger Hildigunnur, at 5:48 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home