Namm. Ég er að borða kruður með smjöri og osti...eða var að því rétt áðan. Kruður minnir mig á bernsku mína í Álfatúninu, og í morgun var birtan fyrir utan svo skær og köld að mér fannst vera kominn vetur og jólin á næsta leyti. Því er þó eigi að heilsa, en ég hlakka samt sem áður til að sitja við eldhúsborðið heima, lesa Moggann og raða í mig ristuðu brauði. Heima eru skáparnir líka alltaf fullir af mat sem ég kaupi aldrei sjálf og meira spennandi fyrir vikið.
En já, ég sendi Krútta af stað með Gråhundbussen til Malmö þar sem hann tekur flugið til London, og þaðan til Spánar. Unnustinn grét sem endranær við aðskilnaðinn, en ég sannaði mig enn og aftur sem harðbrjósta valkyrja og felldi ekki eitt einasta tár. Ég vona eiginlega að það verði ég sem fer að gráta þegar ég kveð hann á Spáni, svo hann haldi ekki að ég sé algerlega tilfinningasneydd. En hann heldur það svosem ekki neitt, held ég. Næsti hittingur verður í nóvember, eftir að ég kem heim frá tveggja vikna Rússlandstúr sem ég er farin að hlakka talsvert til. Hitt er annað mál að ég hef ekki farið í vinnuna í tíu daga (sem er búið að vera æði to say the least) og varla litið í bók, en á því verður ráðin bót í dag.
Í gær komst ég að því að Lada er kvenmannsnafn, og bílheitið því dregið þaðan af. Vissuði þetta?
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home