Ég var ekki ein um það að fá mannaskít á skótau mitt á þessari Hróarskelduhátíð. Auðvitað kom það ekki í ljós fyrr en að stígvélin höfðu staðið inni í tjaldi í nokkra klukkutíma og anganin því slík að við sannfærðumst um að fávitarnir við hliðina á hefðu skitið í tjaldið okkar (af því að ég öskraði á þá að þegja og kastaði bjórflösku í áttina að þeim kvöldið áður) í hefndarskyni. Vissulega sá ég eftir að hafa kastað flöskunni og þakkaði Guði fyrir að hún skyldi ekki hafa hitt neitt eða neinn, en að kúka í tjaldið þótti okkur heldur grimmdarleg hefnd. Hið rétta kom svo fljótlega á daginn eftir að við höfðum leitað með vasaljósi að hlöllanum í smástund.
Hróarskelda gekk vel fyrir sig fyrir utan að snyrtitöskunni minni og sólgleraugunum var stolið, annars var veðrið gott og allir í góðu skapi. Morrisey var sætur og hálfber að ofan á sviðinu, heilsað var upp á gamla og nýja vini og kunningja og ég lærði að baka franskar pönnsur með svona T-pinna. Einnig var tekinn sundsprettur í þar til gerðri tjörn við tjaldsvæðið, eldað með prímus og drukkið fernuvín og allt var eins og vera bar. Hallgerður systir mín var þarna einnig í fríðu föruneyti. Hún og Sigga vinkona hennar minntu helst á ungkvígur á björtum vordegi, svo gaman þótti þeim að vera á Hróarskeldu. Myndir verða settar inn við fyrsta tækifæri.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home