blog... the modern person's cry for attention

þriðjudagur, maí 01, 2007

Síðan að ég eignaðist fartölvu og fékk nettengingu hér í koti mínu, hefur gríðarlegur partur minns frítíma (og tíma sem átti að verja í vinnu eða nám) farið í að halda sambandi við vini og fjölskyldu á öldum ljósvakans. Það líður vart dagur án þess að ég eyði ekki amk einum eða tveimur klukkustundum í að tala við fólk á netinu. Oft er það til að ræða nauðsynlega hluti eða fyrirliggjandi plön, og ég get engan veginn komist af án þess að tala við kærastann í a.m.k. tuttugu mínútur á dag. Þar að auki koma til regluleg samtöl við mömmu, Ingibjörgu og svo af og til við pabba og Steffi. Þessi samtöl eru nauðsynleg og af hinu góða. Svo tala ég oft við vini mína á msn. Það er í sjálfu sér heldur ekki slæmt, frekar gott. Það skrýtna er að samskipti mín við suma af þessum vinum fara nærri einungis fram á msn, þó að þeir búi hér í Kaupmannahöfn eða jafnvel á Amager. Af og til tala ég m.a.s. við Joe og Thomas á msn, og þeir búa á sömu hæð í sama húsi og ég.
Til hvers mun þetta leiða, ég bara spyr? Í kvöld leiddist mér til dæmis. Ég hefði getað farið fram í eldhús og athugað hvort að þar væri selskap að fá. Þá hefði ég þurft að þvo tannkremið af hökunni á mér og setja linsurnar í augun. Ég hefði getað hringt í einhvern af vinum mínum, og spurt hvort hann/hún vildi hittast. Það er alltof mikið vesen, og hér í landi er ekki siður að vera að þvælast út eftir að maður er kominn heim til sín og kominn í ró. Hvað þá á einhvern óforvarandis þvæling. Því greip ég á það ráð, eftir að hafa lesið grein um samanburð á ritstíl og veraldarsýn Tékhovs og Dovlatovs, að kveikja á sjónvarpinu og skrá mig inn á msn. Og blaðra um stund við mann og annan. Þannig leið seinni hluti kveldsins og nú er að koma háttatími. Mikið er hægt að koma tíma sínum í lóg á stórkostlega einfaldan hátt, algerlega án þess að það leiði til nokkurs af neinni þýðingu. Ég stefni á að gerast betri manneskja sem fyrst.

1 Comments:

  • hæ elskan mín!

    já, ég veit, það er stórkostlegt að geta spjallað við mann og annan á netinu og alls ekki þýðingarlaust. Í rauninni er ekki til neitt sem heitir að sóa tíma sínum, þetta er bara hugmynd sem gerir ekkert annað en stressa okkur og missa af lífinu hér og nú.
    Loggaðu þig bara inn og enjoy!

    kramikram,
    bönga.

    By Anonymous Nafnlaus, at 3:45 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home