blog... the modern person's cry for attention

miðvikudagur, ágúst 08, 2007

Úff. Ég var búin að gleyma hvað maður er alltaf sveittur og klístraður þegar sumarhitinn lætur loksins sjá sig hérna í Danmörku. Sumarið er semsagt á endanum komið, eftir mikið hryllingsveður og flóð allan júlí, sem ég slapp til allrar hamingju við.

Í gær fór ég að skoða íbúðina sem ég og Armen flytjum bráðum inn í. Hún er lítil, tveggja herbergja með pínu,pínulitlu klósetti og litlu eldhúsi og engri sturtu. Sturturnar eru niðri í kjallara, en þar sem að þessi íbúð kostar nærri ekki neitt erum við ekki að setja staðsetningu sturtanna fyrir okkur. Niðri í húsagarðinum er hægt að hengja upp þvott (jibbí, ég elska að þurrka þvott úti) og grillaðstaða og allskonar danskt hyggedót. Ég hlakka mikið til að flytja þangað, enda finnst mér stundum að líf mitt hafi staðið í stað í vetur á meðan ég var að bíða og bíða eftir einhverri óvissri framtíð sem fæli í sér að við Armen gætum búið einhvers staðar saman.

Undanfarið hef ég því verið að henda og sortera út úr dótinu mínu, gaf Joe og Nönnu fullan poka af geisladisku og henti öðrum fullum poka. Einhverju henti ég líka af bókum og er að reyna að troða sumum bókum upp á annað fólk. T.d. gaf ég Ninu í nr 238 Sushi for beginners, enda finnst mér sú bók vera bók af því tagi sem maður á bara að senda áfram til næstu konu að lestri loknum. Mest allt af húsgögnunum mínum ætla ég að selja, henda eða gefa, þar sem að öll húsgögn verða í íbúðinni. Mér finnst hvort sem er best vera ekki að sanka að mér drasli í lífinu, það er alltaf léttir að því að sortera og henda.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home