Það er eiginlega bara gott veður hérna. Ég átti von á að koma heim í haustdrunga, kulda og rigningu, og svo er bara hiti og sólskin.
Vaknaði snemma í morgun og tók minn tíma í það að lesa Politiken og borða múslí og drekka te. Eftir tíu tíma svefn, nótabene. Í gær ætlaði ég nefnilega að horfa á Elling (elska, elska, elska þessa mynd) en ég held að ég hafi séð í mesta lagi tíu mínútur af henni áður en ég lognaðist út af. Eftir morgunmat dúllaði ég mér við hitt og þetta og fór svo í ræktina, þar sem var múgur og margmenni að hamast á hlaupabrettum og maskínum af ýmsu tagi.
Það er nú svolítið spes stemning í þessari rækt. Í bland við sauðalitann og skvapaðann almúga ganga þar um gólf vöðvafjöll í netbolum með gullkeðjur um háls og einstaka dökk-appelsínugulbrúnar aflitaðar gellur í magabolum og allir einhvern veginn alltaf að tékka á öllum. Mér finnst a.m.k. alltaf vera þvílík glápt og einhver furðuleg höslstemning í gangi. Svo eru margir með farsímann með sér milli tækjanna. Hvað er það eiginlega? Fyrir mér er sá tími sem ég eyði í ræktinni minn einkatími og ég nenni ekkert að fólk sé að hringja og trufla mig.
Svo fór ég að hitta Alexöndru. Við drukkum kaffi á kaffihúsi á móti Kristjaníu, röltum svo inn á Christianshavns Plads og borðuðum þar pulsur og sátum við hafnarbakkann og veifuðum þeim sem sigldu hjá. Vinkona mín nýtti einnig tækifærið til að sýna túristunum sem voru á "kanaltur" nýju tútturnar, þeim til mikillar ánægju. Svo fórum við á Sofiekælderen og sátum úti og drukkum belgískan bjór. Eftir að hafa kynnst því frábæra úrvali af bjór sem er að finna í Kaliforníu, er ég eiginlega orðin hálfkresin á bjór. Bestur finnst mér hveitibjór eða bjór með sætum keim, helst ávaxta og blómakeim, eða jafnvel með ávaxtabragði. Því miður er úrvalið á börunum hér yfirleitt frekar slappt, en hinsvegar er orðið hægt að fá ýmis konar góða bjóra í Netto og í öðrum verslunum.
2 Comments:
Hefurðu smakkað belgískan kirsuberjabjór? Mér finnst hann ógeð en þú myndir líklega fíla hann. Mér finnst hann eins og pilsner og danskt hindberjagos blandað saman.
By Unknown, at 6:05 e.h.
Sko, hann má ekki vera of sætur eða eins og eitthvað límonaði. Það er best ef að það er bara léttur keimur sem rýkur upp í nefið á manni þegar maður fær sér sopa, eftirbragðið á að vera bjór/ávaxta/sítruskennt.
By Jon Kyst, at 6:51 e.h.
Skrifa ummæli
<< Home