Hrafnhildur klukkaði mig með orðunum "Þú kannt þetta elskan". Mér skilst að þetta klukkdæmi gangi út á að maður skrifi svo og svo mörg atriði um sjálfa sig, en ekki er ég viss hvers eðlis þau eiga að vera. Svo þau verða bara svona frístæl.
1. Þegar ég var lítil var ég hrædd við allt mögulegt: jólasveininn, myrkrið, drauga, götin á bryggjunni þar sem skipið hans pabba lá í slipp (held að svona eigi að orða þetta), unglinga, vindinn fyrir utan gluggann, feitt fólk, gamalt fólk, þroskaheft fólk (ég veit, mjög politically uncorrect, en svona var ég), kóngulær, flugur og alls kyns aðra hluti. Í dag er ég fyrst og fremst hrædd við bílslys og brjóstakrabbamein.
2. Ég er búin að vera með nokkurn veginn sömu klippinguna í mismunandi lengdum í sex ár. Á miðvikudaginn klippti ég mig stutt, svona klippingu sem hallar fram frá hnakkanum niður með vanganum. Það er geðveikt flott, finnst mér.
3. Ég er frekar mikil dellutýpa en þó engan veginn eins klikk og mamma og Óskar.
4. Ég hef búið í þremur borgum í Rússlandi, fjórum stöðum í Kaupmannahöfn, Holbæk og að ég tel þremur mismunandi stöðum í Kópavogi. Í haust flyt ég út á Nörrebro og 18.september flytur Armen til Danmerkur til að búa með mér.
5. Tja. Ég á vini útum allt. Oft hef ég verið því mjög fegin.
Aðrar fréttir: Við skötuhjúin vorum að koma heim í gær frá vikulöngu bílferðalagi um Kaliforníu, þar sem við heimsóttum Brandon og Jose í Los Angeles, Sam í Apple Valley í eyðimörkinni (ég passaði ekki alveg inn þar), foreldra Armen í Fresno og svo frænda hans og fjölskyldu í Danville hjá San Fransisco. Allt var þetta mjög skemmtilegt og áhugavert en almáttugur hvað það er þreytandi að svara sömu spurningunum um sjálfa sig á hverjum einasta degi.
Í dag komu svo strákarnir sem Armen bjó með í vetur og tóku mest allt af húsgögnunum úr húsinu, þannig að hér er frekar mínímalískt um að litast. En ég fer heim eftir viku og Armen fer til Fresno um svipað leyti þannig að við lifum það af. Aðalatriðið, sjónvarp, dvdspilari og einn sófi urðu eftir. Þá erum við í góðum málum.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home