Flugþreyta
Vaknaði klukkan hálfþrjú í nótt eftir þriggja og hálfs tíma svefn við ólæti í nágrönnunum. Þar sem ég hef sjálf ekki látið mitt eftir liggja í partílátum, tel ég mig ekki í neinum rétti til að segja öðrum að lækka, og mátti því liggja svefnlaus frameftir nóttu. Þegar gauragangurinn hætti loksins, gat ég hvort sem er ekkert sofnað og fór því á fætur um fimmleytið í morgun. Reyndar er það ekki bara nágrönnunum að kenna, líka blessaðri flugþreytunni sem gerir mann alveg kolruglaðan.
Það er bara ágætt að vera komin hingað aftur. Íbúðin mín er talsvert hreinni og fallegri en sú ungsveinakytra sem Armen og vinir hans bjuggu í (þeir voru fluttir út þegar ég kom en húsið var engu að síður viðbjóður), og allt dótið mitt er svo marglitt og fínt og stelpulegt. Á mánudaginn fer ég að sjá "nýju" íbúðina og hlakka mikið til þess. Íbúð! Ég hef bara búið í herbergjum síðan haustið 2003, svo það verður gaman að hafa smá meira pláss og geta gengið milli herbergja.
Annars er ég að lesa Íslenska þjóðhætti eftir Jónas frá Hrafnagili, svona í bland við Bræðurna Karamazov. Það er nú hollur lestur hverjum sem er, sérstaklega dekurbörnum eins og ungu kynslóðinni í dag (sem ég tilheyri líka). Ég hef alltaf haldið því fram að hefði ég fæðst í gamla daga hefði ég ekki lifað nema í mesta lagi til fimm ára aldurs. Efni þessarar bókar staðfestir þessa fullyrðingu mína, enda get ég ekki séð hvernig hálfblint, smágert barn með eilífa kvef- og ælupest hefði getað lifað af í reykfylltri og morkinni baðstofu , í kulda og myrkri og án efa alltaf blautt í fæturna. Ef foreldrar mínir hefðu lifað við sömu kjör þá og þau gerðu á níunda áratugnum, svona hlutfallslega séð, hefðum við sjálfsagt ekki haft annað en fiskbein og tægjur, soðnar saman við mjólkurbland til átu, og kannski skyrhræring á tyllidögum.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home