blog... the modern person's cry for attention

mánudagur, apríl 26, 2004

Líf mitt er skipulagt, heilsusamlegt og einkennist af ánægju í starfi og leik. Þetta getur maður kallað að hafa stjórn á sjálfum sér, hinn illræmdi kontrol sem þerapistar hér á Norðurlöndum leggja hart að sjúklingum sínum að losa sig við. Á hinn bóginn mætti kalla þetta að fara vel að ráði sínu, a.m.k. get ég ekki annað en verið ánægð með mig þegar ég kem hingað út í skóla og sit að skriftum við ritgerðina miklu og sendi svo afrakstur dagsins til lærimeistarans, og bíð spennt svars, eins og barn sem hefur sent jólasveininum bréf.
Einnig hef ég tekið mig á í mataræði og er ekki frá því að mér líði betur í maganum en ella...var í vinnunni alla helgina eins og góðri stúlku sæmir og dundaði mér þess á milli við tiltektir, saumaskap og lestur fræðibóka um Jesú Krist. Þetta er ekki djók. Hinsvegar vil ég taka það fram að eftir svona spartanska hegðun (kannski ekki alveg spartanska, en hátt í það...) ætla ég að djamma ærlega næstu helgi, byrja á fimmtudeginum með kjötsúpuveislu fyrir skjaldmeyjarnar Anne og Nönnu og fyllibyttunni Ivani Poulsen (þann kauða sá ég í sviphendingu í gær, en var fljót að láta mig hverfa þar sem hann var hálfdauður eftir tveggja daga sumbl og ekki nokkur leið að ná sambandi við hann). Á laugardaginn er svo 1.maí, þeim degi fagna Kaupmannahafnarbúar með samkundu mikilli í Fælledparken, og ætla ég mér að kneyfa þar ölið, ligesom en rigtig dansk pige, eins og einn af gamlingjunum á elló sagði við mig, þegar 1.maí bar á góma um helgina.
En auðvitað verður einungis dugnaður og iðjusemi fram að því....

Annars fór ég í bíó í gær og sá þar Monster með henni Charlize og Christinu. Christina Ricci er svo hrikalega sæt og mikið krútt, mig langaði bara að éta hana... Góð mynd um sorglega og ótrúlega atburði sem eiga sér stað vegna vonsku heimsins. Það merkilega er að fólk fárast þvílíkt yfir þvi hvað Charlize Theron sé nú HRIKALEGA ljót í þessari mynd, halló, við hverju býst það? Og lika svoldið skrýtið að leggja svona geypilega áherslu á útlitsdæmið allt saman, þegar aðalmálið er annars vegar sjálfur leiksigurinn (hef alltaf verið hálfskeptísk á þessa gellu) og hins vegar sagan á bak við, sem er hræðileg. Þriðja hliðin er svo ástarsagan milli Lee og Selby, sem er falleg og sorgleg í senn. Mæli með þessari mynd.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home