blog... the modern person's cry for attention

þriðjudagur, maí 04, 2004

Í gær lenti ég í furðulegri uppákomu! Ég var í Palladium bíóinu að bíða eftir Anne, þar sem við ætluðum að skella okkur á Ondskaben, byggða á ævisögu Jan Guillou. Þar sem ég sit við borð og hugsa hvar hún Anne sé eiginlega stödd í veröldinni, koma tveir menn um fimmtugt aðvífandi og ávarpa mig á rússnesku, og ég svara í algeru hugsunarleysi. Þeir voru ekki seinir að setjast við borð mitt og spyrja mig spjörunum úr (það hefðu þeir amk gjarnan viljað) um líf mitt og hagi, hvaðan rússneskukunnátta mín sé sprottin og svo framvegis. Og allt í einu var ég búin að röfla upp úr mér að ég væri að fara í bíó og þeir farnir að tala um það sín á milli að kannski ættu þeir bara að skella sér með! Mennirnir voru frá Armeníu og mér leist ekkert a blikuna, sérstaklega þar sem þeir létu augnaráðið reika um sokkabuxnaklædd læri mín og mér fannst þeir bera svipmót af saurugum hugsunarhætti. Mér tókst nú reyndar að stinga þá af án nokkurra óþæginda - en í fyrsta lagi, þá skil ég ekki hvernig þeir gátu séð það á mér að ég kann rússnesku! Í öðru lagi verð ég alltaf jafn hissa þegar gömlum ógeðslegum köllum finnst það einhvern veginn bara alveg mjög sennilegt að ungum og myndarlegum stúlkum langi til að hafa einhver samskipti við þá! Oj bara!!

Anne hafði svo verið að bíða eftir mér fyrir utan bíóið og við gengum hröðum skrefum inn í bæ þar sem talsverður tími var þar til sýningin byrjaði, og mig langaði i McD kakó. Á Ráðhústorginu stöðvaði okkur ungur maður með starandi augnaráð og spurði mig hvort ég læsi bækur, og vildi óður pranga upp á mig einhverri skræðu um ...eitthvað sálarrannsóknadæmi, .þessi bók átti víst að innihalda leynilausnina á öllum sálrænum vandamálum fólks, og ekki í fyrsta sinn sem fólk reynir að troða þessari bók upp á mig. Stundum vildi ég að ég gæti slökkt á fávitasegulnum í mér.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home