blog... the modern person's cry for attention

sunnudagur, maí 15, 2005

Mikill æsingur átti sér stað í Kaupmannahöfn hér á föstudagskvöldinu. Þrjár dauðadrukknar konur á þrítugsaldri herjuðu á miðborgina og létu öllum illum látum, vitað er að þær beittu íslenskum vögguljóðum, rassahristingum og hernaðarlega mikilvægri staðsetningu gullsandala á barborði til að trylla lýðinn. Ekki fara neinar sögur af tryllingi lýðs, en almennt mál manna að konukindunum hefði betur sæmt að sitja heima á kollegíbarnum í stað þess að bera slíka hegðun á almenn torg.

Allt byrjaði þetta þó vel og siðsamlega heima hjá einni kvensanna, borið var fram rækjuspagettí og hvítvín og hlýtt á ljúfa tóna og malað um jafnrétti kynjanna, kærasta og barneignir. Skyndilega rann æði á konurnar þrjár og ekki vissu þær fyrr en þær voru komnar heim til annarrar í hópnum og teknar að máta föt þar af miklum móð, og popptónlist spiluð á hæsta styrk. Rósavin var þambað og glimmeri smurt á sig. Síðan var lestin tekin inn í bæ og öðrum farþegum skemmt með vísum Vatnsenda-Rósu. Leiðin lá á helstu öldurhús bæjarins, meðal annars þótti konunum vel fara um sig á glæsibúllunni Aura, en er það mál manna að þær hafi almennt gert sig að fífli þar inni með ofsafengnum danssporum, bak og afturenda-hnykkjum, sem og blikkljósasýningu með hjólaluktum.

Þaðan lá leiðin á ungbarnaskemmtistaðinn Australian Bar, þegar hér var komið sögu hafði sú þriðja í hópnum gefist upp og drattast heim til manns og barns. Hinar tvær héldu þó ótrauðar áfram þrátt fyrir svívirðingar dyravarða sem heimtuðu skilríki og ásökuðu konurnar um að vera átján ára. Inn komust þær þó og héldu áfram berfættum regndönsum sínum, og settust þar á milli á barinn og drukku ókeypis drykki með gullskóna uppi á barborðinu. Um fjögurleytið voru iljar kvennanna svo gatslitnar að þær sáu sér ekki annað fært en frá að hverfa, og gengu þær sem leið lá inn á Makkdónalds á strikinu, enn með gullskó í hönd og kyrjandi poppslagarann Dimmar Rósir, öðrum vegfarendum til hryllings og skelfingar. Eftir slafr og slurp á Makkdónalds hélt önnur kvennanna heim til sín en hin tók leigubíl til Vanlöse og vakti þar heitmann sinn með höggum á dyr og köllum. Samkvæmt vitnum mun miðborgin sjaldan hafa verið í álíka ástandi, og ekki laust við að aðrir vegfarendur hafi átt í hættu að verða fyrir sjónmengum og skaða á sómakennd.

5 Comments:

  • Ó en upplífgandi og skemmtilegar fréttir! Næst á dagskrá hjá mér er að kaupa sér a) hlaupaskó b) hjól og fara í mikla stælingu! Viltu hitta mig í Stokkhólmi í júní?

    By Blogger Tinnuli, at 1:03 f.h.  

  • Fátt vildi ég frekar, en því miður efast ég um að ég eigi eftir að hafa tíma eða ráð til að skella mér til St. í júní...geturðu ekki bara komið við hérna á leiðinni heim?

    By Blogger Jon Kyst, at 2:49 e.h.  

  • Því miður tel ég það ólíklegt, þar sem ég verð í mikilli hópferð....

    By Blogger Tinnuli, at 2:54 e.h.  

  • VÁ, það liggur við að það sé fyndnara að lesa um þetta heldur en að upplifa þetta:) Enda var maður að taka sig voða hátíðlega...hvað er það? Ein spurnig Anna ertu búin að kanna nýtt meil sem þér var sent?

    By Anonymous Nafnlaus, at 7:26 e.h.  

  • Já, og hafðu í huga að ég sleppti að nefna ýmsan ósóma sem átti sér stað... þetta var helvíti gaman en spurning um að hemja sig aðeins í múvunum næst eða...tja, taka sig enn minna hátíðlega? Veit ekki alveg hvort við vorum að taka okkur hátíðlega eða ekkii...

    By Blogger Jon Kyst, at 11:19 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home