blog... the modern person's cry for attention

mánudagur, nóvember 07, 2005

Þá er ég komin aftur heim...eftir tvær annasamar vikur, svo ekki sé meira sagt. Hafði talið mér trú um að deginum í dag mætti eyða í rólegheitum við að þvo þvott, stunda teygjuæfingar niðri í leikfimisal og óheyrilega neyslu á sveskjusafa til að hreinsa skrokkgreyið af þeim óþverra sem hann hefur mátt þola seinustu fjórtán daga. Þá á ég ekki einungis við bjór og vodka, heldur einnig hið gríðarlega magn af majonesi, matarolíu og smjörlíki (sem og öðrum mettuðum fitutegundum), sem maður kemst ekki undan að láta ofan í sig í Rússlandi. Ég held eiginlega að ég sé með ofnæmi fyrir rússneskum mat.

Jon Kyst hefur þó lagt önnur plön fyrir mig þessa vikuna og hefur kauða tekist að leggja stíft prógram fyrir mig á fimmtudagskvöldið og svo á ég að standa fyrir Reunion-partíi á þriðjudaginn í næstu viku!! Sem er í sjálfu sér ekkert leiðinlegt, nema það að einni ritgerðartuðru skal troðið inn um helgina, sem og nokkrum vöktum yfir vikuna og svo skal flogið til Spánar miðvikudaginn í næstu viku. Sussubía.

Jæja, en allt gekk þetta vel og skemmtilega fyrir sig, fyrsta ferðin var snælduvitlaus og ekki lítið sem gekk á, mér lá við tárum þegar ég kvaddi krakkana á sunnudagsmorgninum og þurfti allan daginn til að jafna mig.
Ameríkanarnir í næstu ferð reyndust vera hin ágætustu grey, heldur djammfíknari en ég hafði búist við, t.d. hvarf einn strákurinn yfir nótt og birtist daginn eftir í hádegismatnum, útsofinn og fullnægður eftir að hafa eytt nóttinni hjá rússneskri dömu á hans aldri. Ég verð að segja það að aldrei hefði ég þorað að fara heim með neinum í Rússlandi, hvað þá ef ég hefði verið þar á einhverju skólaferðalagi og ekki kunnað orð í málinu. En hann var ekki mikið að kippa sér upp við hættur heimsins og lét lítið af þessu öllu saman.

Svo var auðvitað þeyst um hæðir og hóla til að skoða alls konar gamalt drasl, byggingar og kirkjur, mjög áhugavert allt saman. Í St.Pétursborg vorum við með gæd frá Intourist sem var gjörsamlega óþolandi, alltaf að pota einhverjum túristabúðum inn í prógrammið, og áður en við vissum af var hún búin að plata nærri alla í hópnum á "cosack-show" (hún fékk náttúrulega borgað fyrir þetta fra hendi ýmissa utanaðkomandi aðila).

Hahaha. Ég var að fatta að klukkan er bara hálfníu. ég hélt að hún væri hálfellefu. Það þýðir það að ég hef farið á fætur klukkan korter yfir sjö!!!

Jæja, en við losnuðum auðvitað við hana þegar við fórum til Moskvu, en ekki án þess að henni tækist að móðga Lísu greyið (hin ferðastýran) með "i'm much older than you, so who do you think is right" tali. Í Moskvu tók svo við eldri kona, sem talaði eins og vélmenni í hátalarann í rútunni, og svo lágt að enginn heyrði hvað hún var að segja. Svo var hún alltaf að koma upp að mér (og þá meina ég alveg upp að mér með andlitið) og spyrja mig á ensku hvort mér þætti maturinn góður og senda mér lítil Lost Highway bros, þar til að mér var algerlega hætt að lítast á blikuna. Annars var hún hið besta skinn, um leið og við vorum bara tvær að tala saman á rússnesku var hún eiginlega frekar eðlileg og vildi allt fyrir mann gera.

Jæja, svo held ég að ég hafi glatað danska simkortinu mínu. Þarf að reyna að finna það, annars kaupi ég nýtt í dag.

1 Comments:

  • Er líka komin med nýtt númer 27 45 21 04, thar sem einhver ræfladjøfull stal af mér símanum um daginn:=( Call me!

    By Anonymous Nafnlaus, at 3:37 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home