blog... the modern person's cry for attention

sunnudagur, febrúar 26, 2006

Veit ekki alveg hvað kom yfir mig áðan. Það greip mig þvílík löngun í fastelavnsbollur að ég tók til við að smsa mínum bestu og nánustu og reyna að hóa í bolluleiðangur. Alexander var enn að reyna að losna við hjásvæfil gærkveldsins, Anne og Nanna voru að vanda staddar í sjöundu víddinni og því svars eigi að vænta fyrr en á miðvikudaginn, en Anna Hera var til í bollur. Við stöllur röltum því út á Christianshavn og snæddum þar bollur og drukkum kaffi innan um herskáa Dani, sem ætluðu sko aldeilis ekki að missa af fastelavnsdýrðinni. Í bakaríinu var múgur og margmenni sem á útsölu í Harrods, eða hvað veit maður, fólk tróðst um hvert annað þvert og æpti :"Fire med chokolade! Et Veronabrød, to jordbærkager og en grovbolle!" Já, Danir eru sérkennileg kvikindi og því lengur sem ég bý hér, því deginum ljósara verður það mér hversu afskaplega ódönsk ég er.

Fastelavnsbollurnar reyndust ágætar á meðan á snæðingi stóð, u.þ.b. fimm sekúndum seinna störðum við Anna á hvora aðra í undrun, svima og léttum bumbulleika, þegar rjóminn og kremið tók að hreiðra um sig í möllunum. Ég ætlaði reyndar að fara í megrun bráðlega (eða þannig sko) þar sem að ég hef bætt á mig af dularfullum ástæðum, en þau plön hafa að vanda farið í vaskinn sökum þess hve súkkulaði og bjór er afskaplega gott á bragðið, sérstaklega saman. Annars er sól úti. Hún glennir sig og lætur mann halda að vorið verði bráðum komið. En í dag mundi ég af hverju það er ekki komið. Það er nefnilega 27.febrúar, fastelavn.

1 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home