Merkilegt hvað mér tekst aldrei að skríða á lappir fyrr en níu hálftíu þegar ég stilli úrið á átta. Yfirleitt er ég með þéttpakkað prógram fyrir frímorgnana mína, en einhvern veginn tekst aldrei að framkvæma nema mesta lagi tvö eða þrjú atriði á listanum. En það er heldur ekki við þvi að búast að maður geti risið eldhress úr rekkju við sólarupprás (reyndar ekki gott að segja hvenær það er á þessum árstíma) þegar maður liggur og byltir sér og veltir vöngum yfir ævarandi blankheitum. Ég skil hreinlega ekki hvernig ég get alltaf verið blönk. Og ég er EKKI að eyða öllum peningunum mínum í vitleysu. Auðvitað kemur það fyrir, en það er alls ekki alltaf að gerast, og þá erum við heldur ekki að tala um stórar upphæðir. Ég fór að telja þetta saman í gærkveldi og það rann upp fyrir mér að það hafa farið umtalsverðar fjárhæðir í greiðslur af ýmsu tagi síðan um áramót, og mjög litlar upphæðir í skemmtilega hluti eins og föt.
Svo rann það upp fyrir mér að ég væri lent í baslinu, sem fullorðna fólkið er/var alltaf að tala um, gjarnan í samhenginu "eilífðar basl alltaf hreint" eða eitthvað álíka. Lent og lent, ætli ég sé ekki búin að vera þar í nokkurn tíma nú þegar. Eníveis, ég sé ekki fram á að komast út úr baslinu næstu árin. Ekki nema ég drífi mig geeeeeeeeeðveikt að klára skólann og hoppi svo beint inn í óhemju vel launaða vinnu. Ég spekúleraði í þessu dágóða stund þar til að ég fattaði að með þessu áframhaldi myndi ég fá angistarkast og vaka alla nóttina, og greip því til þess ráðs að lesa í The Secret Dreamworld Of A Shopaholic. Alltaf róandi að lesa um fólk sem er í enn meira rugli en maður sjálfur. Svo sór ég þess dýran eið að kaupa innbústryggingu sem bráðast og fór svo að sofa.
Í dag ætla ég hinsvegar að spandera smáaurum í sjálfa mig, er að fara í klippingu og vax. Klippingin er eingöngu ánægjulegur prósess, hægt að lesa dömublað á meðan og ímynda sér alls konar skemmtilega hluti. Vaxið er hinsvegar óskemmtilegra. Það lá við að ég táraðist af tilhugsuninni einni áðan. Fyrir þá/þær sem ekki hafa lagt út í þetta enn, get ég sagt að þetta er allt annað en gott, en svo sannarlega þess virði eftir á.
2 Comments:
Ekki þykir mér baslið mikið fyrst þú spanderar hármeðferð á allan kroppinn! Gott ráð við eyðslusemi er að spara. Leggja inn á læsta bók, eða alla vega með háum vöxtum það allra minnsta mögulega á mánuði. Svo kemst maður að því að græddur er geymdur eyrir :) Takk fyrir mig.
By Tinnuli, at 3:22 e.h.
hæ... hvað kostar vaxið hjá þér?? hér er hægt að velja um venjulegt vax og sársaukalaust! það sársaukalausa kostar 5500 og hitt 3300... hvað finnst þér? ég vil frekar þola sársaukann...
By Halla, at 3:26 e.h.
Skrifa ummæli
<< Home