Heimur smár og undarlegur
Jæja, Ofþornun Jónsdóttir búin að vera hér í heimsókn eftir ótæpilegt magn rauðvíns í gær. Fór í fyrsta sinn í langan tíma í fælles spisning í eldhúsinu og komst að því að þetta blessaða fólk hér á ganginum er bara bestu skinn, og þeim er hreint ekkert illa við mig. Ég og Micha í nr eitthvað vorum meira að segja orðnir bestu vinir undir lok kvöldsins og tjáði hann mér að ég væri "et virkeligt godt menneske".
Allavegana, ég komst að því að það voru greinilega örlögin að ég og Lise ættum að vera vinkonur. Þannig er málum háttað að hún er skiptinemi frá Kanada og við kynntumst þegar við fórum saman í hina örlagaríku ferð til Moskvu í haust, fyrir utan að hún er í bókmenntafaginu sem ég vinn við. Hún á vin sem heitir Mark og stóribróðir Marks, Joe, býr beint á móti mér hér á ganginum. Ég komst svo að því að þau þekktust stuttu eftir að við urðum vinkonur. Svo kom í ljós í gær að Thomas í nr241, sem ég hef þekkt í nokkur ár, og það áður en að ég flutti hingað inn, var í skiptinámi í Victoria á seinasta ári og þau kynntust þar, og voru m.a.s. nágrannar!! Fáránlegt ef ég má segja skoðun mína.
Partíið í gær var svo mjög skemmtilegt og dagurinn í dag fór í leti og siðleysi, eins og venjulega. Svo fórum við Anna Hera á Laszlo og drukkum kaffi og borðuðum samlokur og horfðum á þrjú ungmenni á næsta borði sem líktust helst farsímaauglýsingu, öll með svona sætt úfið lúkk og stór augu og á fullu að taka myndir af hvoru öðru með fínu gemsunum sínum. Þegar samlokan mín kom á borðið (maggi af kaffihúsasamloku að vera) var hún auðvitað full af laufum og grasi af ýmsu tagi, ekkert út á það að setja, nema það að þegar ég var að reyna að troða einu stærðarinnar laufblaðinu upp í mig í einum bit og líktist helst gíraffa á beit, varð mér litið yfir á farsímaborðið. Og auðvitað voru krakkagerpin að horfa á mig á þessu mjög ókúl augnabliki og þar með mitt persónulega kúl farið norður og niður í augum æskunnar. Mér fannst ég vera gömul á því augnabliki.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home