blog... the modern person's cry for attention

þriðjudagur, september 12, 2006

" Og það gekk allt svo vel", eins og Hilmir Snær frændi minn tjáði sig um frammistöðu sína í þýskri bíómynd um árið. Mér finnst líka að mér hafi gengið vel að kenna rússnesku í dag, alltaf var ég að skrifa á töfluna, taka framburðaræfingar og koma með ný orðasambönd og reyna að hafa þetta í þokkalegu samhengi svona. Nemandinn er ung stúlka af amerísku bergi brotin og virðist hún vera vænsta skinn. Ég var að vísu með fitugt hár, síþambandi vatn, sjúgandi upp í nefið og tvístígandi af pissiþörf mest allan tímann, en mér finnst samt að þetta hafi gengið sæmilega fyrir sig. Bráðum verð ég orðin jafnklár og hún Júlía dökkeyga og sæta, sem kenndi mér rússnesku á Spetsfak í Pétursborg. Þeirri konu á ég sko mikið að þakka.

En nú er klukkan svei mér orðin tíu og ef ég á að ná að lufsast í gegnum Karamzin, lesa um horf rússneskra sagna og undirbúa mig fyrir næsta kennslutíma á fimmtudaginn, ásamt því að sinna annarri vinnu, heimili mínu, sjálfri mér og ýmsum öðrum, er ekki til setunnar boðið. Og hananú.

1 Comments:

  • Ji hvað mamma er örugglega stolt af stelpunum sínum núna. Við bara allar farnar að kenna...

    ;)

    By Blogger Unknown, at 12:38 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home