blog... the modern person's cry for attention

sunnudagur, maí 06, 2007

Var að koma heim frá Álaborg og sit nú við skjáinn og bíð þess að unnustinn birtist onlæn, eins og sagt er. Hvað var ég að gera í Álaborg, spyrjið þið kannski, en ég átti erindi þangað ásamt Önnu Heru og vinkonum hennar að hlusta á hana Beyoncé Knowles, ofurdívu og fegurstu konu í heimi. Við tókum lestina til Álaborgar og var það í fyrsta sinn sem ég hef komið þangað, síðan ég fór í frí til Danmerkur með mömmu og Óskari sumarið 1988 eða 1989, og við heimsóttum Kollu vinkonu mömmu þar. Helstu minningar mínar frá þeirri ferð er að hafa leikið við maura sem skriðu um á malbikinu, borið einhvern fimm ára gamlan Emil um á hestbaki og svo að hafa skvett kakói á vegginn hjá Kollu.

Í þetta sinn var hins vegar annað uppi á teningnum, enda ég orðin nærri tuttugu árum eldri síðan seinast. Álaborg reyndist vera fallegur bær með gömlum húsum og fleiri kirkjum en gengur og gerist í dönskum smábæjum. Mér fannst bærinn almennt vera meira spennandi og betur skipulagður en flestir danskir bæjir af svipaðri stærð, sem eru yfirleitt frekar keimlíkir. Mér kom líka á óvart hvað náttúran á Jótlandi var falleg, og naut góðs af útsýninu bæði á útleið og heimleið. Á föstudeginum kíktum við á Svallvallagötu, öðru nafni Jomfru Ane Gade, sem er helsta djammgatan í Álaborg. Þetta var nú aðeins öðruvísi en Köben, get ég sagt ykkur. Strákarnir (sem virtust vera í yfirgnæfandi meirihluta og þar með glápt og hújað og hæað hvar sem við fórum) voru allir annað hvort tsjokkógaurar með aflitað gelhár og gulbrúnir á litinn, eða skuggalegar týpur með hálf austurevrópsku yfirbragði. Ég hafði orð á því að það væri nú eins gott að maður var ekki að fara á veiðar þarna, því í fyrsta lagi var úrvalið ekki neitt til að hrópa húrra fyrir, og í öðru lagi virtist þetta vera svo lítill staður að líklega myndi maður rekast á bráðina daginn eftir í Nettó. Þessu til staðfestingar tókum við eftir að ungur maður í rauðri peysu, sem var dauðadrukkinn inni á einum barnum sem við komum við á, mætti fremur niðurlútur í morgunmatinn á hótelinu daginn eftir, en við vorum vissar um að hann væri heimamaður.
Jæja, hvað um það, aðalástæða þessa ferðalags var nú hún Bonsa okkar og laugardagurinn fór að mestu í ráf um miðbæjinn í leit að glingri til að fullkomna lúkkið um kvöldið. Ég hafði keypt mér svarthvítan kjól fyrr í vikunni og var í honum og rauðum háhæluðum skóm við með liðað hár og rauðar varir eins og sönn filmstjarna. Svo skáluðum við í freyðivíni og drifum okkur af stað. Eftir að hafa biðið góða stund í röð komumst við inn, og á meðan mannfjöldinn beið eftir að frúin stigi á stokk, vildi svo skemmtilega til að TV2 News kom auga á okkur (og okkar stjernepotentiale, vil ég meina), og tók viðtal við okkur. Ég veit ekki hvort að það kom svo í sjónvarpinu en ég vona það og bíð nú eftir að stjórnendur sjónvarpsstöðva fari að hringja og bjóða mér einhverja skemmtilega vinnu. Það myndi eiga svo vel við mig að vera í sjónvarpi, það get ég sagt ykkur!
Svo kom loksins að því sem við höfðum beðið eftir í meira en hálft ár. Stúlkan með gullröddina og hnetulitaða álfakroppinn birtist á sviðinu íklædd silfurlituðum kjól og í fylgd hljómsveitar sem einungis var skipuð konum. Girlpower segi ég nú bara, svona á þetta að vera! Í tvo og hálfan tíma tryllti hún svo lýðinn og undirritaða með ólýsanlegri sýningu. Oft hefur maður t.d. hugsað "nei, þetta fólk er ekkert svona fallegt í alvörunni, það er bara búið að fótósjoppa það", en það virtist enginn endir vera á því velskapaða, fríða og kynþokkafulla fólki sem söng þarna og dansaði eins og heimsendir væri í nánd. Beyoncé sjálf var eins og draumur, og ég tek undir orð Ingibjargar systur, hún er svo falleg að mann langar bara til að giftast henni. Og þvílíkur performer, þvílíkt úthald, þvílíkir hæfileikar! Það besta var að hún gaf sig alla í þetta, það skapaðist nánd milli hennar og áhorfenda sem maður á ekkert endilega von á þegar Hollywoodstjarna á í hlut. Margfalt húrra fyrir henni segi ég nú bara. Ef ég var aðdáandi áður en ég fór á þessa tónleika, þá er ég núna auðmjúkur þræll.

7 Comments:

  • Oh, en ógeðslega gaman!

    By Blogger Tinnuli, at 5:03 f.h.  

  • Vá, hljómar unaðslega! Ég verð þó að segja að ef ég ætti að velja á milli Beyoncé og Shakiru minnar, þá myndi Shakira með sínar ólygnu mjaðmir vinna...

    By Blogger Hildigunnur, at 12:42 e.h.  

  • Já, ég veit ei hvað skal segja.....yfirlýst draumaprinsessa mín semsagt stödd á norðurslóðum og ekki nóg með að hún hafi tryllt danskan bændalýð heldur var hún hérna í stykkishólmi, alltso hjá mér bara fyrir nokkrum dögum síðan og lagði að velli kreðsinn og krítískan publik hér í borg sem hafa uppfrá því einnig gengið glaðir í þrælaþjóðflokk þinn anna og vart um annað skrifað hér í blöðum.
    Og hvar var ég stödd þetta sama kvöld?
    Í vinnunni.
    En svona er þetta þegar fjárfest er í nýju koti, bara að "tacka o ta emot"......

    By Anonymous Nafnlaus, at 1:28 f.h.  

  • þú myndir taka þig vel út í kastljósinu, kippi í spotta.
    dísa

    By Blogger disadisus, at 2:43 f.h.  

  • hreinn unaður

    By Blogger Unknown, at 1:47 e.h.  

  • Vá hvað hlýtur að hafa verið gaman!
    Er að fylgjast með þér eins og perri í leynum Anna mín og verið að skemmta mér vel við það.

    Held að það hafi verið bróðir þinn sem ég heilsaði ekki í sundi um daginn af því ég þekkti hann ekki. Samt heilsaði ég Hauki Þ. sem var við hliðiná honum sem ég þekki ekki neitt. Ég vona að hann fyrirgefi mér þennan annars arga dónaskap.

    Hafðu það gott

    Lovehild

    By Anonymous Nafnlaus, at 5:54 e.h.  

  • Dásamlegt í allastaði Anna mín. Takk fyrir wonderful time. Þetta var náttúrlega hátindur gelluskapsins.

    By Anonymous Nafnlaus, at 3:46 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home