Það eru rosa læti fyrir utan. Það eru nefnilega mótmæli, sjáiði til. Sextíu og níu mótmælagöngur hafa nú lagt af stað frá sextíu og níu mismunandi stöðum í borginni, allar frá húsum sem eru númer sextíu og níu. Ég fór út áðan til að kanna málið og sá svartklædda unglinga, löggur, plötusnúð að spila háa tónlist af vörubíl, venjulegt fólk og svo þrammaði þarna hjá minni ganga með Kommúnistafánann! Veit nú ekki alveg hvað það var. Ég vatt mér að miðaldra konu og spurði hvar mót-mótmælin væru. Fólkið á Nörrebro hefur nefnilega tekið sig saman og stofnað samtök á móti þessu Ungdomshússdæmi, þar sem að það kostar dýrt í brotnum rúðum, brunnum bílum og sprengdum ruslatunnum í hvert sinn sem unga fólkið kemur saman til að tjá reiði sína yfir hinu fallna húsi. Konan snéri sér að mér með glampa í augum og sagðist ekkert vita um það, en hinsvegar væru 69 mótmælagöngur á 69 mismunandi stöðum í borginni. Greinilega gamall góðkunningi Hússins heitna, og kannski löggunnar líka.
Mér gæti eiginlega ekki verið meira sama um þetta hús eins og komið er, og málstað þessa fólks. Ég held að því miður sé kominn tími til að horfast í augu við það að dönsk stjórnvöld eru ekki sömu góðhjörtuðu hipparnir sem gáfu æskunni þetta hús fyrir 26 árum, og að slík gullöld allsnægta og endalauss stuðnings frá kerfinu sé hreinlega liðinn hjá. Fyrir utan það að mér finnst vera hægt að nota peninga í margt þarfara en þetta hús, og hversu fáránlegt er það að mölva hálfa borgina yfir slíkum lúxus, þegar fólk í öðrum löndum er pyntað og drepið fyrir það eitt að gjóta augunum á ská en ekki niður í gólf. Það sem er allra fáránlegast í þessu máli er að unga fólkinu hefur tvisvar verið boðið nýtt hús, fyrst af einhverjum listasjóði, svo af eigendum verslanna á Nörrebro. Í bæði skiptin afþökkuðu grislingarnir af því að "það samræmdist ekki hugmyndafræði þeirra að einhver annar borgaði fyrir húsið en ríkið". Halló. Stjórnvöld hafa þvertekið fyrir að gefa þeim hús og nú eru nærri allir orðið á móti þeim. Hversu erfitt getur verið að skilja að málstaðurinn er tapaður?
Nú halda lesendur sjálfsagt að ég sé orðin forhert smáborgaralufsa. Svo er ekki. Ég er sossum ekki lengur það blóðheita unglamb sem ég var í den, og sjálfsagt leiðinlegri fyrir vikið. Mér finnst rangt að húsið hafi verið tekið af þeim til að byrja með, og mér finnst ekki að stjórnmálamenn eigi að reyna að breyta lífinu á Kristjaníu. Það er engin lífsnauðsyn að allir séu steyptir í sama mót. En ofbeldi og skemmdarverk af þessu tagi, þar sem heilum bæjarhlutum er nærri haldið í gíslingu yfir félagsmiðstöð...það er eiginlega einum of.
1 Comments:
Alveg eins og talað útúr mínu hjarta!
Ég held að danir séu soldið þyrstir í e-r átök? Eg meina það. Eru þeir komnir með nóg af þessu ligna lífi og vilja fá e-ð fútt í þetta? Það er einhvernveginn allt í svo miklu himnalagi að fólk virðist bara komið með ógeð af því :-)
By Nafnlaus, at 8:47 e.h.
Skrifa ummæli
<< Home