blog... the modern person's cry for attention

sunnudagur, september 02, 2007

Vistaskipti - frá Rónabæ til Gazasvæðisins ...eða þannig

Þá er ég flutt frá Amager í hverfi það sem kallast Norðurbrú, eða Nörrebro. Ykkur að segja eru það þvílík viðbrigði að búa í íbúð. Það er alveg frábært. T.d. sé ég ekki uppvaskið þegar ég sit inni í stofu, og er þarafleiðandi ekki að stressa mig eins mikið yfir því. Það er líka stórkostlegt að vakna inni í svefnherbergi og geta bara farið fram í eldhús og inn í stofu á náttfötunum, og þurfa ekki að draga frá inni í svefnherbergi fyrr en ég er búin að klæða mig. Þegar maður býr í einu herbergi þarf maður nefnilega að vera endalaust að draga frá og fyrir til að geta skipt um föt og svoleiðis.

Ég er strax búin að búa nokkuð vel í haginn fyrir okkur skötuhjúin, reyndar einhverjir pappakassar húkandi hér úti í horni og þeir verða að bíða þar um sinn, þar sem að það er smá vesen með geymslupláss. Armen kemur eftir 16 daga og þá göngum við endanlega frá, hengjum upp myndir og kaupum nýjan standlampa, þar sem að standlampinn minn virðist hafa eyðilagst í flutningunum.

Jæja, Annemette kom svo í heimsókn í gær og við ákváðum að kanna knæpur þessa bæjarhluta. Fyrst brugðum við okkur á Jolene, sem er hér rétt hjá og er í eigu tveggja íslenskra stelpna. Þar var alveg fínt, en ekkert svo mikið stuð, þannig að við ákváðum að halda áfram. En neinei, þegar við komum aftur út á Nörrebrogade mæta okkur blikkandi blá ljós og fyrirskipanir úr gjallarhorni. Þá voru blessaðir fjörkálfarnir úr Ungdomshúsinu heitna að halda upp á hálfs árs afmæli óeirðanna í mars. Nörrebrogade lokuð, víða bál á götunni og múgur og margmenni sem veittist að brynklæddum lögreglumönnum. Við tókum því á okkur krók til að komast á áfangastað, og almáttugur minn hvað það er óskemmtilegt að þramma svona á háum hælum. Á endanum komumst við þó framhjá óeirðunum, með því að fara í gegnum hliðargötur og garða, og enduðum á Barcelona í misjöfnum félagsskap. Um fjögurleytið fannst mér vera nóg komið og við ákváðum að halda heim á leið, og auðvitað voru lætin langt frá því búin. Okkur var varnað vegar af frekar dónalegum löggumanni, og þegar sprengingar tóku að hrista húsin í kringum okkur var okkur nóg boðið og við tókum til fótanna niður Stengade til að komast burt. Eftir að hafa vaðið bál og brand (án gríns) enduðum við því enn á ný að labba langa krókaleið til að komast heim, og litlu fótagreyin voru alveg búin í eftir þessa meðferð á háum hælum og támjóum skóm. Ég er semsagt flutt frá Rónabæ á Amager til svæðis sem í gær minnti mest á Gazasvæðið.

1 Comments:

  • ja hérna anna! Er þetta hægt? Vonum að látum fari að linna þarna á norðurbrú. En hvað? Á ekki að skella inn mynd af nýju íbúðinni?

    By Anonymous Nafnlaus, at 12:39 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home