blog... the modern person's cry for attention

laugardagur, september 11, 2004

Þrjú ár liðin síðan hin örlagaríka árás á Tvíburaturnana í New York átti sér stað, á þeim degi var ég alls óvitandi og ómálga í Shevtsjenkó kollegíinu i St.Pétursborg. Það tók mig tvo daga að fá að vita hvað hefði nákvæmlega gerst...

Í dag er ég þó stödd í Arkhangelsk við Hvíta Hafið að ég tel (landafræði sem áður fyrr ekki mín sterkasta hlið), nánara sagt á skrifstofu Norðurlandaráðs hér í bæ. Nú er ég búin að vera hér í ...þrjá daga rúma og allt gengið feiki vel.

Lestarferðin tók 26 tíma, ferðafélagar mínir voru vinaleg armensk fjölskylda sem fóðraði mig af mikillli gestrisni og góðmennsku. Eftir að þau yfirgáfu lestina kynntist ég einum fullum manni sem var á leið í jarðarför æskuvinar síns og svo tveimur unglingsstelpum sem voru á leiðinni í heimsókn á heimaslóðir. Allir voru boðnir og búnir að aðstoða mig sem mest þeir máttu, og fengu stelpurnar bræður sína til að bera farangurinn minn í leigubíl þegar á lestarstöðina í Arkangelsk kom. Svo var mér ekið sem leið lá í Centr-Inn kollegíið sem einnig er hótel. ég verð að segja að á dauða mínum átti ég von en ekki þeim herlegheitum sem þar biðu mín.
Fyrstur manna varð fyrir mér ljóshærður Norðmaður á mínum aldri, sem hjálpaði mér að drösla töskunum upp á aðra hæð. Þar var mér var útdeilt stórt og rúmgott herbergi með sjónvarpi (!!!), borði, skáp, tveimur stólum og tveimur rúmum. Klósetti og baði deili ég með norskri konu sem heitir Anne Marie, og við erum meira að segja með heimasíma og ísskáp. Ég er ekki alveg búin að finna út úr hvaða númer ég er með, mig grunar að það eigi að hringja í móttökuna og biðja þar um nr 209, sjálfsagt kunna einhverjir þarna ensku en annars heitir það dvestidevjat á rússkí. :)
Farsíminn minn er þó...+7 8 911 588 88 33 ef einhvern langar að senda mér sms....

Næsta dag fór ég að hitta Krylov þennan og var hann glaður að sjá mig og fús til að skrifa beiðni um að ég fengi að búa á kolegíinu fyrir sömu leigu og aðrir námsmenn. Einnig spurði hann hvort ég gæti aðstoðað með íslenskukennslu í háskólanum, sem ég var til í (sé reyndar ekki hvenær ég ætti að hafa tíma til þess, en hei). Restin af deginum fór svo í reddingar og innkaup á nauðsynlegustu hlutum.
Um kvöldið var svo hringt í heimasímann og...þetta finnst mér hálfspúkí...maður að nafni Ilja kynnti sig og kvaðst hafa fengið númerið mitt í gegnum Krylov, og vildi gjarnan sýna mér borgina, þar sem hann kynni dönsku (hann talaði mjög bjagaða dönsku og ég skildi varla nokkuð af því sem hann sagði), ensku, norsku og japönsku, og hjálpa mér með það sem þyrfti. Svo var hann allt í einu kominn í heimsókn, hávaxinn og dökkleitur með gleraugu. Eiginlega varð mér strax hálfórótt í návist hans, hann talaði hátt og af miklum hroka um allt og alla, sagðist vera anarkisti og pönkari. Mér fannst nærri eins og þarna væri kominn annar Kíríll (fáviti sem ég kynntist í Moskvu), sama "ég veit allt og allir aðrir eru vitlausir og þú líka litla útlenska stelpa" attitjúdið. Samt sem áður fór ég með honum í labbitúr með þeim einum tilgangi að hann sýndi mér skemmsta og einfaldasta veginn fyrir mig að labba í vinnuna. Maðurinn dró mig í gegnum dimma húsagarða og stræti í meira en fjörutíu mínútur og var svo alveg standandi hissa á heimsku minni að finnast þetta of flókin leið. Svo löbbuðum við tilbaka og mér fannst hann alltaf vera að reyna að sýna fram á að ég væri naív (sem ég vissulega oft er), gjörókunnug rússneskum aðstæðum (ekki satt!), ófær um að sjá um mig sjálf og vitlaus á alla vegu og að hann einn gæti aðstoðað mig og ég veit ekki hvað og hvað.

Svo kom ég loksins heim og fór í háttinn, gat svo ekki sofið alla nóttina fyrir ýmsum vangaveltum, t.d. um hinar gríðarlegu skuldir sem maður steypir sér í með því að taka námslán. Eins og það þyði nokkuð að vera að velta sér upp úr því!
Mætti svo í vinnuna eftir 1 1/2 klst svefn. Alltaf gott að vera hress á fyrsta vinnudegi. Yfirmaðurinn minn, hún Elena Khoroshkina, reyndist vera góðleg kona á fimmtugsaldri og fór vel á milli okkar. Hún fer til St.Petursborgar á morgun og verð ég því ein alla næstu viku. Mér líkaði vel í vinnunni, fyrsta daginn var ég mest að fást við press-release og þýðingar (held að það sé mest það sem ég eigi að gera). Svo gerðist það skrýtna : Allt í einu var Ilja kominn inn á skrifstofu, rennblautur úr rigningunni og virtist ekki hafa neitt markmið með þessari heimsókn, nema það að bjóða mér í bönjuna (baðhúsið) - glætan að ég fari í bönju með ókunnugum manni!! Hann fór samt fljótlega aftur og ég skil ekki hverslags hegðun það er að dúkka upp á vinnustað hjá manneskju sem maður þekkir ekki neitt. Hann ætlar að hringja í dag og ég hef ákveðið að svara ekki símanum. Til allrar hamingju lét ég hann ekki fá farsímann minn! Ég skil heldur ekki hvað Krylov er að spá að deila símanúmerinu mínu og heimilisfangi út til hægri og vinstri og hvað þá til manns sem er bersýnilega snargeðveikur. Elena sagðist munu hafa samband við Krylov og spyrja hann út í málið, hún kannaðist við Ilja og hafði ekki góðar sögur af honum að segja.

Annars hefur allt gengið vonum framar vel, mér líst vel á Arkhangelsk, bærinn liggur alveg niður að sjó og minnir mig að nokkru leyti á Reykjavík. Ferskur gustur af sæ, mikið af lágreistum timburhúsum (sem eru öll skökk og skæld vegna þess hve jarðvegurinn er gljúpur) og fólk almennt vinalegra en gengur og gerist í St.Pétursborg. Er búin að grípa sjálfa mig nokkrum sinnum í því að vera dónalegri en afgreiðslufólk í búðum (yfirleitt þarf nærri að bíta það til að fá afgreiðslu). Ég hef a tilfinningunni að mér eigi eftir að líka vel hérna, verst hvað ég hef lítinn frítíma vegna vinnu og fjarnámsins, það síðarnefnda mun taka meiri tíma en ég hafði gert ráð fyrir. Er sem stendur að eiga við Glæp og Refsingu, það er nú meira hvað sú bók er seinlesin. Kemst varla nokkuð áfram og á að skila ritgerð þann 20.sept.
Jæja, þarf því fljótlega að lufsast heim og halda lestrinum áfram...Dazvidanja.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home