blog... the modern person's cry for attention

mánudagur, október 11, 2004

Það virðist sem eigi verði kveikt á miðstöðvarkerfi þessarar byggingar í ár. Frost er úti, fuglinn minn, og mér er alveg jafn kalt og þér.
Já, veturinn er kominn hingað til Arkhangelsk og fyrsti snjórinn féll á fimmtudag eða föstudag. Ég hef því fest kaup á hvítri (mjúkri og dejlig) derhúfu, eða kasketi eða pottlok...ekki alveg viss hvernig eigi að skilgreina þessa húfu. En hún er í alla staði fögur og ég líkist æ meir "a local person". Spurning um að fara bráðum að skipta um eftirnafn, Kruglova, Petrossova...nei djók. Kemur ekki til greina.

Spjallaði við Ivan (exinn) á msn um daginn. Hann var sem endranær nýstaðinn upp úr rúminu eftir veikindi. Haha, maður spyr sig hvar ég hefði endað hefðum við verið áfram saman. Kannski sem einkahjúkrunarkona. En hann var að öðru leyti hress, baktalaði aðra íbúa hússins og svona, allt við það gamla. Spurði reyndar ekki hvort hann væri kominn með nýja, geri það næst.
Ég er sko ekki kominn með nýjann. Er farin að efast um að hér sé nokkuð karlkyns sem ekki er haldið áfengis/spila/ofbeldissýki eða með vafasama atvinnu/menningarbakgrunn. Sumir virðast haldnir öllum einkennum. Og til að undirstrika enn fremur stöðu mína sem einhleyp ung kona á framabraut, fór ég algerlega spontant í bíó í gær, með blauta og kalda fætur og innkaup í poka. Ostinum og mjólkinni varð þó ekki meint af bíóferðinni þar sem hitastig í salnum var rétt við frostmark. Þetta fór hinsvegar ekki vel í tær mínar, sem voru helfrosnar lengi vel á eftir.

Myndin sem ég skellti mér svona fyrirvaralaust á var The Village eftir hann Shyamalan. Hann má nú alveg fara að koma með smá nýbreytni. Alltaf sömu leikararnir, fólk úti í skógi í hvítum skyrtum með vasaljós og skrímsli sem eru sýnd í eitt augnablik ...ok, reyndar ágætis formúla en einhvern veginn fannst mér að ég hefði séð þessa mynd áður. Joaquin Phoenix var auðvitað augnayndi mikið, en mér fannst leikur almennt ekkert magnaður og handritið hálf..svona á tjá og tundri pínu. Endirinn samt sniðugur, kom mjög á óvart en ég er að sjálfsögðu ekkert að ljóstra honum upp hér.

1 Comments:

  • Ógurlega hljójmar þetta endemis skemmtilegt og hlýlegt líf þarna austur í Rússlandi. Jáhérna. Hvað ég myndi vilja koma í heimsókn! Hér er allt við það sama, hengdi upp gardínur í gærkvöldi og er að fara í tíma í myglu.

    By Blogger Tinnuli, at 5:05 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home