blog... the modern person's cry for attention

föstudagur, apríl 01, 2005

Nú er ég loksins búin að þrífa ísskápinn, sem ég er búin að veigra mér við í mánuð. Þegar allt kom til alls tók þetta ekki meira en tíu mínútur, og að öllu leyti létt verk og löðurmannlegt.

En hvað um það, nú er ég á sokkabuxunum að sötra hvítvín hér uppi í rúmi og Gwen Stefani var að klára að syngja If I Was A Rich Girl. Mér finnst það ágætis afstaða til lífsins sem kemur fram í því lagi. Til gamans má benda á að Gwen er komin vel yfir miðjan fertugsaldur, sem þó er ekki að sjá á konukindinni. Er að fara að borða sushi með Miguel og einhverjum ítölskum vinum hans í kvöld...Miguel er búinn að klippa sig alveg stutt og er viðurstyggilega karlmannlegur og lekker á að líta. Mæli með þessu fyrir alla karlmenn.

Hmmm...undanfarna tvo daga hefur mig dreymt mikið af frægu fólki. Í gær sofnaði ég á sófanum eftir vinnu og dreymdi fyrst draum um J-Lo, þar sem hún var að biðja mig um að koma á tónleikana hennar, og átti miðinn að kosta 4 $ og bjór 1 $. Á eftir dreymdi mig draum þar sem ég var Natalie Portman og var að leika með Sigourney Weaver í geimverumynd. Í nótt dreymdi mig svo að ég og fullt af öðru fólki misstum vegabréfin okkar í Thames-ána, og tvívegis mátti ég kasta mér í gruggugt vatnið til að reyna að hafa upp á vegabréfinu mínu. Á endanum fann ég íslenskt vegabréf, sem þó var ekki mitt, heldur einhverrar annarrar Önnu. Í lok draumsins var ég grátandi inni í verslunarmiðstöð að ráðfæra mig við gamlan skeggjaðann mann, sem krotaði símanúmer vinar síns niður á blaðsnepil handa mér og sagði mér að fara til Albany Street, þar sem íslenska sendiráðið myndi vera til húsa. Ég vaknaði örvingluð og tárvot eftir þessar raunir og grét nokkrum beiskum tárum í koddann minn. Og bið ég svo draumspaka að ráða þetta.

1 Comments:

  • Það er greinilegt að þitt íslenska ídentítet á í vök að verjast! Þú verður að gera eitthvað í þessu, þú ert ekki poppstjarna, heldur Íslendingur!

    By Anonymous Nafnlaus, at 7:42 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home