blog... the modern person's cry for attention

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Ó borg mín borg

Um helgina er ég búin að vera að vinna i Hvidovre, úthverfi u.þ.b. 8 kílómetra frá heimili mínu. Ekki er það frásagnarvert í sjálfu sér, nema það að á ferðum mínum þangað og tilbaka hef ég uppgötvað alveg nýja Kaupmannahöfn. Hvidovre er svosem ekki það spennandi, en voða krúttulegt með litlum húsum og fallegri tjörn, þar sem endur, svanir, dúfur, máfar og tveir hegrar hafast að. Ofan af tjörninni kemur svo miður skemmtilegt háhýsahverfi þar sem er álíka notalegt og í grotnum pappakassa.

Á leið heim í dag ákvað ég svo að fara ekki beina leið heim, heldur beygði inn í Vigerslev, næsta hverfi við Hvidovre, og hjólaði þar í gegn þar til að ég var allt í einu komin beint inn á aðalgötuna í Valby. Ég var alveg hlessa, hef satt að segja aldrei haft á hreinu hvar þessi blessaði Valby væri nákvæmlega, og mikið lifandis ósköp leist mér vel á mig þarna. Ég get vel séð mig fyrir mér í þessari paradís í framtíðinni, þetta var svo vinalegt og fallegt allt saman. Áfram hélt ég framhjá gróðursælum görðum og kyrrlátum múrsteinshúsum, litlum skemmtilegum búðum og líflegum gangstéttarkaffihúsum, og var svo bara ...alveg allt í einu komin inn á Vesterbrogade, þ.e.a.s. efsta hlutann af Vesterbrogade, en þangað hef ég held ég bara aldrei komið. Þar tók sama dýrðin við og ég hjólaði opinmynnt áfram og hægði aðeins á mér til að njóta ferðarinnar. Kaupmannahöfn er sannarlega ótrúlega falleg borg, sérstaklega ef maður kemst út úr miðbænum og inn í hverfi sem maður á kannski annars aldrei erindi í - að miðbænum alveg ólöstuðum. Hér er ég búin að búa í þrjú ár og er ekki nærri því búin að fá leið á því sem fyrir augu ber, þvert á móti heillar það mig meir og meir.

1 Comments:

  • Já Valby er æði!!! Hjólaði einmitt þangað í einum af mínum hjólatúrum, svona eiginlega óvart. Mjög huggulegt.

    By Anonymous Nafnlaus, at 2:00 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home