blog... the modern person's cry for attention

laugardagur, ágúst 20, 2005

Heilabilun.is

Ásta vinkona hennar Tinnu var að flytja inn á ganginn minn. Það eru ágætis fréttir, enda ágætt að hafa heimafólk hér nálægt. Nema hvað að ég hélt í heila viku að Ásta væri allt önnur manneskja, s.s. Erla sem bjó við hliðina á mér í Álfatúninu og lék við litlu systur mína. Hvaðan mér kom í hug að Erla væri flutt hingað til Kaupmannahafnar og farin að lesa jarðeðlisfræði má Guð einn vita, en mér fannst ég endilega hafa heyrt eitthvað um þetta frá Hallgerði. Ég rakst á Erlu/Ástu fyrir viku síðan hér fyrir utan, og var þá nokkuð hissa á hvað stúlkan hafði mannast og breyst, og bauð henni allrar náðarsamlegast að hafa samband ef að hana vantaði aðstoð! Ásta var alveg hissa á þessum kuldalegu viðtökum, og hið ópersónulega viðmót hélt svo áfram alla vikuna, því alltaf fannst mér hún vera þessi Erla.
Í gær var ég svo að fara að grilla með Alexander og Nönnu, og rakst þá á "Erlu", og bauð henni að koma og vera með úti í garði. Svo fór eg út og útskýrði fyrir krökkunum að gamli nágranninn minn væri að koma, svona væri heimurinn lítill, við hefðum alist upp í sömu götu og nú værum við orðnar nágrannar aftur. Þessu er ég meðal annars búin að básúna í gud og hvermand undanfarna viku.
Svo kom "Erla" út, og það var ekki fyrr en daman kynnti sig að upp rann fyrir mér ljós. Ég hélt ég yrði ekki eldri. Eftir stutta íhugun um hvort ég ætti að svipta hulunni af þessum ruglingi, ákvað ég að það væri best að útskýra málið. Ásta móðgaðist til allrar hamingju ekki, hún hefði þó svo sannarlega átt fullan rétt á því. Hitt er annað mál að ég er farin að hafa miklar áhyggjur af heilastarfsemi minni.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home