blog... the modern person's cry for attention

sunnudagur, desember 11, 2005

Og ljóskusteik ársins er...

Og ekki komst ég til Rostock í þetta skiptið heldur. Þrátt fyrir ítarlegar áætlanir og útreikninga milli landa, tókst mér að klúðra ferðinni áður en hún svo mikið sem hófst.

Mér var sem sagt boðið í 28 ára afmælið hennar Steffi í Rostock, og ég var búin að bjóða Armen að koma með. Mín bókaði miðana, við pökkuðum svefnpokum, ginbokku, tannburstum og ég gekk meira segja svo langt að útbúa gulrótasnakk og pakka naglaþjölinni fyrir ferðina. Samkvæmt áætlun hittumst við á Hovedbanegården og náðum í miðana og röltum svo út að stoppistöðinni og settumst þar á bekk, þrem korterum áður en rútan átti að leggja af stað. Fyrir framan okkur stóð stærðarinnar græn rúta með gylltum stöfum, en þar sem að ég hef nú ekið með Safflebussen marg, margoft, var ég ekki mikið að spá í langferðabílnum þeim, þar sem að ég VEIT að Safflebussarnir eru hvítir með rauðum stöðum. Von bráðar birtist einn slíkur.
Eftir að hafa spurst fyrir komumst við að því að þetta væri rútan til Osló, og að rútan til Berlínar væri væntanleg innan nokkurra mínútna. Í þessum töluðum orðum rann græna rútan úr hlaði og sáum við hana ekki meir. Við biðum örlítið lengur, og allt í einu er fólk farið að tala um að græna rútan hafi verið á leiðinni til Berlínar, og þá er óhætt að segja að skelfing mikil hafi gripið um sig meðal vor! Við tvö ásamt Dana og þýskum homma sem höfðu ætlað með andskotans grænu rútunni, en horft á hana aka af stað með sama sauðarsvipnum og við, rukum niður á miðasöluna og rákum þar upp mikil ramakvein og sorgarsöng. Feiti maðurinn í miðasölunni gat nú lítið hjálpað okkur, þegar hann loksins hafði upp á bílstjóra grænu rútunnar var hún komin lengst norður og niður og of seint að snúa við. Ekki gat hann heldur endurgreitt okkur miðana, þó hann feginn vildi, og máttum við snúa heim 200 krónum fátækari (svona rétt fyrir jólin, æði) og lömuð af undrun.

Við ókum því sem leið lá heim á Amager og hringdum í Steffi til að aflýsa komu okkar, og svo var ekki um annað að ræða en að byrja kvöldið snemma og fá sér gin og tónik. Svo fórum við enskan pöbb og hittum þar einhvern net-vin hans Armens, hálfrottulegan Englending sem hafði aldeilis góðar sögur að segja af kvenhylli sinni í Skandinavíu. Mér fannst nú það eina aðlaðandi við þennan mann vera enski hreimurinn, get ekki séð hvað hópar af ljóshærðum valkyrjum hefði annars getað fallið fyrir. Svo kom mín fagra vinkona Lise og við fórum svo þrjú saman á Studenterhusið, en enska rottan fór heim til danskrar konu og dansk/enskra barna. Á Studenterhúsinu var gleði og glaumur og ensk ska-hljómsveit að spila jólalög og annað skemmtilegt í ska-útsetningu, og ekki um annað að ræða en að stíga dans af fullum krafti. Gaman gei. Svona hélt nóttin áfram með dansi og freyðandi veigum, þar til fátt var eftir en að fá sér sudda á Makkanum og svo halda heim á við. Laugardagurinn fór svo í almenna leti og iðjuleysi og nú er ég að fara í vinnuna á eftir. Jibbíkóla.

2 Comments:

  • elsku stelpan:( mikið yrði ég brjáluð ef svona rútusvindl yrði lagt inn á reynslubankann minn!!!
    annars er það af mér að frétta að ég er komin í annað sinn í haust með svokallaða djammsýki. ég er eirðarlaus í vinnunni því ég hugsa svo mikið um hvað ég vildi vera að djamma!!!!

    By Blogger Halla, at 4:17 e.h.  

  • Oh þetta eru dæmigerð rútuörlög. Skil ekki af hverju ekki ert hægt að MERKJA bíla almennilega svo þetta hendi ekki stúdenta og aumingja. Hvaðan kemur annars þetta jibbýkóla sem allir eru með á takteinum um þessar mundir??

    By Blogger Tinnuli, at 6:35 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home