Nú er ég aftur farin að slást við SU-yfirvöld, það kemur í ljós hversu árangursríkur sá slagur verður, þar sem stjórn þessa apparats virðist samansett af illmennum og bjánum. Ég er svona að gæla við að fara með málið í blöðin ef ég fæ aftur neitun og var í dag að ímynda mér yfirskriftirnar og það sem ég myndi segja við blaðamennina. Ég er eiginlega alveg viss um að fá neitun, því reglunum fyrir útlendinga var breytt í vor (án þess að segja neinum frá því) og hér í Danmörku virðast stjórnvöld helst hafa það að markmiði að bola sem flestum útlendingum út með hvaða ráðum sem er. Á þessu ári er búið að senda fleiri tugir albanskra fjölskyldna aftur til Pristina og Kosovo, þrátt fyrir að þessar fjölskyldur séu flestallar svo veikar af póst-stríðstrámum, þunglyndi, hugar og líkamsmeinum af ýmsu tagi, að nærri engin þeirra er í ástandi til að sjá um sig sjálf. Þetta fólk var búið að hanga í flóttamannabúðum í mörg ár án þess að vita hvað snéri upp né niður á framtíð þeirra, og í millitíðinni orðið fárveikt á líkama og sál, og nú er búið að senda það heim, peningalaust og allslaust.
Í haust átti að senda fimmtán ára dreng aftur til Sri Lanka, þar sem eini ættingi hans var eldri bróðir hans, sem var stunginn af með Tamílska Tígrishernum. Stúlkubarn af rússnesku og dönsku bergi brotin var svipt ríkisfangi og má því ekki ganga í skóla. Innflytjendakonur í ofbeldisfullum hjónaböndum verða að þrauka í SJÖ ár áður en þær geta vogað sér að skilja við manninn, án þess að þeim verði hent aftur til síns heima, þar sem þær geta átt von á útskúfun, ærusviptingu ef ekki bara lífláti. Svona mætti lengi telja, og í hverri viku koma ný mál fram í dagsljósið, um óréttlæti gagnvart innflytjendum og innfæddum. Auðvitað snýst mitt mál ekki um líf og dauða, en það er samt óréttlátt og blóðugt ef ég þræla hér í mörg ár og borga skatt í ríkiskassan og get svo ekki fengið þessar skitnu 4500 dkrónur á mánuði til að geta verið í námi.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home