Eftir nokkrar nætur hér í húsi nr.543 á Hill Street í San Luis Obispo, er ég svo sannarlega farin að meta innanhúss hitaveitu að verðleikum. Hér er nefnilega slökkt fyrir hitann, þar sem að ungu námsmennirnir sem hér búa, hafa ekki efni á að borga himinháan hitareikning. Hitastigið í húsinu er því iðulega um 12 C°, og sennilega um tíu gráðum lægra á nóttunni. Ég held að mér hafi aldrei verið jafn kalt að nóttu til, síðan ég svaf í tjaldi um vetur í Rússlandi.
Að kuldavandamálinu frátöldu þykir mér gott að vera hér. Hér býr minn yndislegi kærasti, hér eru fjöll og blár himinn, gróðursælt og sólskin á hverjum degi, handsnyrting kostar um 15 $ og hægt er að borða sig metta í sushi fyrir minna en 30$. Það er eitthvað annað en Kaupmannahöfn. Þar er hvort sem er ekkert skjól og eilífur stormbeljandi.
Ég kom hingað á laugardagskvöldið, eftir að hafa lent seinnipartinn í LA og komið við í Santa Barbara á leiðinni. Ég var vakandi nærri alla leiðina frá Kaupmannahöfn - París - Los Angeles, og ég er ekki frá því að það hafi hjálpað mér að sleppa nærri alveg við flugþreytu. Ég vil gjarnan koma því að að Air France, sem ég flaug með er frábært flugfélag. Í löngum flugferðum fær hver farþegi sinn eigin skjá og hægt að velja hvað maður vill sjá. Svo er nóg pláss í vélinni, allir fá pakka með eyrnatöppum, augngrímu, servíettum og heyrnartólum, maturinn er góður, en það besta er að flugfreyjurnar stilla fram vagni með drykkjarföngum og samlokum. Þannig getur hver og einn fengið sér að drekka það sem hann/hún vill, og engin þörf á að sífellt að atast í flugfreyjunum.
Þegar ég lenti í L.A. tók óralangan tíma að komast í gegnum vegabréfsáritun og tollinn, sérstaklega þar sem verðirnir höfðu aldrei séð íslenskt vegabréf áður, og þeim fannst meira en grunsamlegt hvað ég var með marga rússneska stimpla í vegabréfinu mínu. Ég fékk að svara fjöldanum öllum af spurningum um hvað ég væri hingað að vilja, hvað ég hyggðist taka mér fyrir hendur, hvenær ég ætlaði heim, hvað ég ynni við í Danmörku, hvernig ætti að bera eftirnafnið mitt fram og hvar þetta Ísland væri eiginlega, og þar fram eftir götunum. Á endanum slapp ég þó út og í biðsalnum tóku Armen og Nanna á móti mér. Svo keyrðum við til Santa Barbara og fengum okkur sushi. Þá var ég búin að vera vakandi í nærri 40 klst (fyrir utan stuttan og órólegan blund í vélinni), og við hvern bjórsopa tók gólfið og veggirnir dágóða sveiflu og snúning. Aldrei hef ég upplifað önnur eins áhrif af bjór, það get ég sagt ykkur. Það var svo ekki fyrr en á leið frá Santa Barbara til San Luis að ég sofnaði loksins, og síðan hef ég bara verið á nokkuð góðu róli hvað varðar svefninn. Ekkert verið að lognast út af klukkan sex eins og seinast.
Jæja, en á morgun er förinni heitið til Fresno að sjá hinn unga Justin Timberlake koma fram á tónleikum. Ef að það reynist vera ósatt að hann sé farinn að slá sér upp með Scarlett Johannson, er aldrei að vita nema Nanna vinkona mín geti krækt í hann. Hún er ljóshærð og dönsk, alveg eins og Scarlett, svo hann fer varla að fúlsa við slíkri dömu. Læt ykkur vita hvernig þetta fer allt saman.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home