blog... the modern person's cry for attention

þriðjudagur, desember 26, 2006

Jól dauðans

Jólin 2006 munu héreftir kallast Jól dauðans í mínum huga, fyrir utan aðfangadagskvöld sem var frábært og yndislegt. Tusind tak, Ditte, Ingelise, Sejer, Lasse, Agnes og Erling. Án ykkar hefði ég mátt húka heima og gráta í koddann minn.

Það sem ég hef semsagt skemmt mér við hér þessi jól, fyrir utan að kvíða þeim heilmikið eins og flestir einbúar og aumingjar eins og ég hljóta að gera, er að passa snaróða gamlingja, reyndar á ágætis kaupi. Það var nú nóg í sjálfu sér, án þess að sé verið að bæta ofan á það nöturlegri einveru í kollegíkytru minni, þegar allir aðrir eru með fjölskyldu og vinum eða í einhverjum andskotans julefrokostum úti í bæ. Ég reyndi mikið að herða upp hugann og minna mig á að þetta hefði nú verið mitt eigið val og margir byggju við enn verri kjör og ættu enga fjölskyldu og enga vini, hvergi í heiminum.
Samt sem áður vorkenndi ég mér ógurleg ósköp og var um það bil að sökkva í gríðarlegt þunglyndi á jóladag eftir að hafa skæpað við mömmu seinnipartinn. Þá hringir síminn og spurt er hvort ég geti tekið kvöldvakt á elliheimili á Nörrebro. Ég gat jafnvel gert það og að kúldrast heima ein, svo ég dreif mig. Það var reyndar fínt fyrir utan það að einn starfsmaðurinn var alltaf að strjúka mér um bakið og axlirnar, eins og hann ætti eitthvað með það. Svo hjóla ég heim dauðþreytt um miðnætti. Til Amager. Þegar heim kemur kemst ég að því að ég er ekki með húslyklana mína. Ég ætlaði varla að trúa þessu þar sem að ég hef ekki týnt lyklunum mínum síðan ég var smástelpa, sem er nokkuð ótrúlegt miðað við þann flæking sem hefur verið á mér síðan og miðað við hvað ég hef oft verið alveg rosalega full og verið um það bil að týna sjálfri mér á leiðinni heim. En það var alveg sama hvað ég snéri töskunni minni út og inn og rótaði í öllum hólfum og vösum, lyklarnir voru ekki þar. Ég flýtti mér strax að hringja í Alexander, sem er eina manneskjan með aukalykil og hjólaði aftur út á Nörrebro til hans og hamaðist þar á dyrabjöllunni, því ekki svaraði hann í símann. Enginn virtist vera heima og í algerri angist og táraflóði hjolaði ég aftur á elliheimilið og snéri þar öllu við, en án árangurs. Eftir mikinn grát og gnístran tanna og vangaveltur um hvort ég ætti að eyða nóttinni á hóteli eða í athvarfi fyrir heimilisleysingja (notabene, nærri allir sem ég þekki eru heima hjá foreldrum sínum yfir jólin) hugkvæmdist mér að hringja í Ditte og hún hafði upp á Önnu vinkonu sinni, sem býr líka á Nörrebro, og fékk ég að gista þar. Ég þekki Önnu ágætlega og ég þurfti svo sannarlega á því að halda að fá að vera hjá einhverjum kunnuglegum og vinalegum, því þetta var svo sannarlega ömurlegt og rúsínan í pylsuendanum ofan á öll leiðindin að vera í vinnunni og ein þess á milli yfir jólin. Í morgun tókst mér svo loksins að ná í Alexander, eftir að hafa hringt margsinnis í hann og svo í lásasmið og sætt mig við að þetta myndi sennilega kosta mig um 2000 danskar krónur, þar sem að líklega hefði þurft að skipta um lás og þar með búa til þrjá nýja lykla. Alexander var svo með aukalykil, og eftir hressingarkaffi dreif ég mig heim, öllu léttari í skapi. Nema hvað, við aðalinnganginn hangir miði frá Lasse nokkrum, sem segist hafa fundið lykla í skránni að ruslaskúrnum í gærkveldi. Hver haldiði svo að eigi þessa lykla og hafi gleymt þeim þar í gær? Jú, hún Anna litla. Mikið gríðarleg ósköp létti mér. Eftir allt saman kom ekki til neinna útgjalda, og í dag ætla ég að hvíla mig, því ég er uppgefin eftir þessar hremmingar. Ég er með Politiken hér hjá mér í rúminu, andasteik og sósu í ísskápnum og Lord of the Rings er í sjónvarpinu í kvöld. Á fimmtudaginn á ég afmæli og þá ætla ég að dekra við mig sem mest ég má. Því ég á það skilið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home