blog... the modern person's cry for attention

þriðjudagur, maí 08, 2007

Eins og hún mamma mín veit, sennilega betur en allir aðrir, þá er mér ansi hætt við að sökkva mér í áhyggjur af hinu og þessu, og velta mér upp úr því þar til ég er gráti nær af örvæntingu yfir einhverju sem er ekki búið að gerast og alls óvíst að gerist. Á slíkum stundum hef ég einmitt oft hringt í múttu og spurt hversu miklar líkurnar séu á hinum yfirvofandi heimsendi og hvað skuli til bragðs taka, ef svo fari. Sérstaklega hefur Lánasjóður Íslenskra Námsmanna farið mikinn í mínum áhyggjuheimi, og ófáar næturnar sem ég hef bylt mér og engst af hugarkvölum yfir því sem ég hef talið að bákn þetta ætli nú að vega að mér með. Nýlega fóru þankar varðandi einingar þessarar annar, námslán næstu annar og yfirdrátt í banka, að láta á sér kræla í hugarskoti mínu. Fyrst fór ég smá paník og var ekki lengi að úthugsa neyðaráætlun. Svo fór ég að hugsa um hvað það væri eiginlega asnalegt að ég væri að eyða tíma og orku í að spá í þessu, þegar ég vissi í raun alls ekkert um hvað framtíðin bæri í skauti sér. Það rann upp fyrir mér að þó að það, sem ég óttaðist mest og var að hrella mig á, yrði að veruleika, þá myndi ég komast fram úr því einhvern veginn. Því ýmsu misjöfnu hef ég nú lent í á lífsleiðinni, en hér er ég enn. Í heilu lagi og nokkurn veginn heil á geði. Og ég er bara nokkuð ánægð með að hafa unnið bug á þessum áhyggjupúka, a.m.k. í þetta sinn. Maður ræður víst litlu um sín örlög, það er nokkuð víst, og því sjálfsagt best að vera ekki að pína sig að óþörfu. Það held ég nú.

2 Comments:

  • Manstu þegar þú hélst þú myndir fá ebóla-veiruna? Það gerðist ekki.

    By Blogger Unknown, at 2:11 e.h.  

  • Haha, nei ég man nú ekki eftir því! En það hljómar sennilega, enda vart til sá sjúkdómur eða pest sem ég hef ekki verið sannfærð um að ég myndi fá og deyja af.

    Anna.

    By Anonymous Nafnlaus, at 12:59 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home