blog... the modern person's cry for attention

sunnudagur, maí 20, 2007

Konur á okkar aldri

Yfirskrift þessarar færslu vísar til orða sem við Single 2000 píur létum okkur títt um munn fara í hinni svonefndu Bonsuferð. Mikið var talað um ýmis einkenni aldurs okkar, hvaða takmörk aldurinn setti okkur í klæðaburði, hegðun, háttatíma og þar fram eftir götunum. Þetta var nú í mestu í gríni enda engin af okkur eldri en 28, að því að ég best veit. En í dag tók ég eftir nokkru á sjálfri mér, sem mér líst hreinlega ekkert á, og sýnist á öllu að dæma að það sé hinn margumræddi aldur, sem hér hefur látið til skarar skríða.


Ég var semsagt í stuttu sólbaði í dag. Þar sem ég sat og virti fyrir mér hvíta leggi mína (fokk jú, Dove Summer Glow), tók ég eftir því að á þessum fölu leggjum var allt í einu komið fullt af litlum rauðum og fjólubláum háræðum eins og kóngulóarvefjum í hornum. Um leið tók ég eftir að í gegnum gráhvíta húðina lýstu bláæðar á móti mér, eins og lík undir frosinni tjörn! Ég hringdi strax í mömmu og hún sagði að við mikla líkamsrækt, sér í lagi lyftingar og aðrar styrktaraukandi æfingar (sem ég er búin að vera að snappa í undanfarið), yrðu bláæðarnar yfirleitt sýnilegri, sem þætti afar aðlaðandi á karlmönnum. Háræðarnar væru hins vegar óumflýjanleg aldursmerki. Ég benti henni á að nokk væru aldursmerki óhjákvæmileg, en hinsvegar væri ég ekki karlmaður, heldur kona og kærði mig ekki um að bera karlmannleg útlitseinkenni, hversu aðlaðandi sem þau kynnu að vera. Hún bað mig þá í guðanna bænum um að hætta ekki að hreyfa mig, sem mér myndi nú aldrei koma til hugar.
Mig grunar reyndar að þessi æðaberleiki sé að einhverju leyti í ættinni, segi ekki meira um það. En mér finnst þetta nú ekki skemmtilegt. Það er nú ekki mikið fútt í því að vera í góðu formi og kjörþyngd og hvad ved jeg, ef maður er allur í bláæðum og háræðum eins og hvert annað landakort? Ja ég segi bara svona.