Viðburðaríkir dagar undanfarið. Í dag fór ég í eróbikk í fyrsta sinn síðan ég var 13 ára og illa þjökuð af skorti á sjálfstrausti, líkamsstyrk og svo sjálfsagt undir einhverjum áhrifum heilaskaðans fræga. Í þá daga fannst mér þetta vonlaust og óskiljanlegt, en í dag gekk þetta bara vel og ég var eiginlega hálfhissa á hvað þetta var létt. Er enn að spá hvort þetta hafi kannski verið sérstaklega léttur tími. Svo hjólaði ég heim og náði mér í frokostpizza á leiðinni, enda orðið nokkuð siðan ég hef fengið mér svoleiðis. Eftir að hafa mokað henni upp í mig á methraða, sofnaði ég útfrá þætti um þríbura og fjórbura á National Geographic, og vaknaði tveim tímum síðar með deigklump í maganum, vont bragð í munni og illt í höfði. Held ég haldi mig bara við kjarnafæðið héðan af.
Á föstudaginn fór ég svo á karnevalið með Ditte, Annemette og Uffe. Það var með sama brag og venjulega, dansað og drukkið fram á nótt þar til okkur hafði tekist að vingast við nokkra Afríkana (sama dagskrá og í fyrra), og tekist að losa okkur við þá á ný. Þá fórum við á Moose. Já, ég sá greinilega af hverju ég var hætt að sækja þennan stað. Langflestir gestirnir voru um tvítugt og flestallir með greddublik í augum að skima eftir hentugri bráð. Þeir sem ekki voru um tvítugt voru með sama blik í augum. Ég nennti ekki einu sinni að klára bjórinn minn og hjólaði heim, en Annemette og Uffe urðu eftir. Mér fannst ég bæði vera of gömul og og of mikið á föstu til að vera þarna.
Jæja, svo er ég búin að fatta að ég er nærri búin að lesa allt sem ég þarf að lesa (næstum því) fyrir þetta eina próf í júní. Spurning um að lesa það þá bara aftur, eða hvað segið þið? Ég gæti líka byrjað að lesa rússnesku málfræðina og setningafræðina, eða sögu, eins og ég hafði hugsað mér að gera í sumar. Ég veit ekki hvernig maður fer að því að hafa svona lítið að gera.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home