blog... the modern person's cry for attention

fimmtudagur, maí 20, 2004

Í gær átti ég stefnumót við Brad Pitt. Hann var nefnilega í sjónvarpinu mínu, með sítt hár og ýmist ber að ofan eða í skyrtu, í myndinni Legends of the Fall. Þvílík fegurð. Ég veit að ég er sirka 10 árum á eftir, en ómægod!!!Ég engdist og skalf. Og við ætlum að hittast aftur í kvöld. Eða á eftir réttara sagt, ég og Alexander ætlum nefnilega að fara að sjá Troju seinnipartinn í dag. Orlando Bloom er líka með í þeirri mynd, og ég geri ráð fyrir því að þeir verði berlæraðir og með bera upphandleggi mestan partinn af myndinni. Svo glætan að ég láti þetta framhjá mér fara!

Annars gerist fátt hér í Kaupmannahöfn, svona lókal séð. skólinn er búinn, var í seinasta tímanum mínum í gær, og kennarinn virtist vera jafn feginn og við. Reyndar höfðum við gert ráð fyrir tveimur tímum í viðbót, en gamli skarfurinn hafði greinilega strokað það úr minni sínu og lét sem ekkert væri. Og önnin bara að verða búin! Eða hún er búin. Þetta er ótrúlegt. Ég man þegar ég var lítil að tíminn leið óhugnalega hægt, bara rétt silaðist áfram. Og í dag þýtur hann hjá, maður rétt nær að telja hrukkurnar og strekkja á brjóstahaldaranum. Jæja, segi ekki að ástandið sé orðið svo alvarlegt enn. En það styttist í það.

Svíþjóðarförin fór vel og sómasamlega fram af minni hálfu, annað má segja um sumar vinkonur mínar. Mér rétt tókst að koma mér í rútuna á föstudeginum, í miðbæ Kaupmannahafnar var gríðarleg mannþröng og allar götur lokaðar, vegna brúðkaupsins. Sú athöfn var mér mjög neðarlega í huga ef svo má segja, og ég var eiginlega mjög fúl yfir að geta ekki fengið mér falafel pítu á falafel house á strikinu, og mátti sætta mig við viðbjóðslegan McD hamborgara á Hovedbanegården. Slíkan ófögnuð borða ég aldrei framar, a.m.k. ekki ódrukkin. Nú er ég reyndar með bók um McD í láni frá Nödju og mun sennilega aldrei lata slíkt inn fyrir mínar varir eftir þann lestur. En fyrst að klára Fátæklingana eftir Dostojevskí. hann er nú alveg ótrúlegur. Hver hefði trúað því að það sem einhver Rússi var að pára árið sautján hundruð og súrkál myndi hrífa fólk um allan heim löngu seinna.
Jæja, Svíþjóð...svo kom ég til Gautaborgar um kveldið og rataði heim til Nödju, ótrúlegt en satt. Vingsaðist þó góða stund fyrir utan húsið hennar og þorði ekki að reyna að komast inn af því að ég hélt að það væri elliheimili.
Mariann og Silje voru nýkomnar frá Noregi,og þær voru, viti menn, bara líka single! Mariann að vísu ennþá gift arabanum, en þau eru hætt saman, og Silje loksins hætt með Oystein eftir að hafa verið með honum í þúsund ár. Svo fórum við snemm að sofa eins og góðar stúlkur og í bæinn að rölta og kíkja í búðir daginn eftir. Um kvöldið fórum við svo á Nefertiti, besta dansstað Gautaborgar, og Silje tókst að kyssa þar fjóra unga menn. Til allrar hamingju slapp ég við allt slíkt, það var þarna einn sætur en þegar ég loksins var hætt að þykjast vera merkileg með mig og ætlaði að fara að heilsa upp á hann, var hann auðvitað búinn að gefast upp og farinn að tala við einhverja svarthærða glyðru. Oseisei. Reyndar er svo mikið af fallegu fólki í Svíþjóð, bæði karlkyns og kvenkyns, að maður veit ekki hvert skal horfa. Allir svo lekkerir eitthvað. En við skemmtum okkur konunglega, alla helgina, og á mánudeginum var ég orðin kvefuð af öllu útstáelsinu. Hið kristilega líferni hefur því tekið við í bili.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home