blog... the modern person's cry for attention

miðvikudagur, desember 22, 2004

´Ó þú ástkæra fósturjörð!!

Þá er ég komin heim, því miður í allt of stutta viðkomu og sit við ritgerðarundirbúninginn. Tók daginn snemma og keyrði mömmu í vinnuna og fór svo í Vesturbæjarlaugina og synti þar nokkra góða spretti undir svörtum vetrarhimni. Í kringum mig svömluðu röflandi gamlir kallar, sem eflaust eru mjög montnir af því hvað þeir eru duglegir að fara í laugarnar, þó að þeir geri ekkert annað þar en að troða marvaðann og kallast á milli brauta.
Lenti svo í ógó vandræðalegu þegar kom að því að keyra heim, gat ekki sett bílinn hennar Böngu í bakkgír og þurfti að fá einhvern kall til að hjálpa mér. Ég meina, hvernig átti ég að vita að það væri einhver leðurpungur á gírstönginni sem þyrfti að draga upp eins og hverja aðra forhúð?

Svo hitti ég litla frænda minn í gær. Sá var nú myndarlegur, yggldur á brún og svipþungur eins og Gvendur Jaki, gáfnasvipur á honum (eins og öllu okkar fólki, ójá). Þess má geta að drengurinn er eins mánaða, 58 sm og 6 kg.

Í kvöld er ég að fara í mat til Tinnu, og ætla að færa henni a little something sem ég keypti fyrir spottprís af honum bróður mínum. Hann kom nefnilega frá Ekvador með fullar töskur af ponsjóum, eyrnalokkum, hálsfestum og treflum og ég veit ekki hvað og hvað, allt æðislega flott og ég búin að kaupa helling af honum. Stelpur, ég mæli með að þið kíkjið á þennan varning - þetta er miklu flottara og ódýrara en það sem er úti í búð.

Verð að koma julefrokostskandalnum að. Auðvitað, auðvitað, auðvitað þurftum við Anne að fara í sleik. Það er svosem ekkert nýtt, enda okkar uppáhaldsiðja þegar komin er guðaveig í skál. Einhvern vill maður nú alltaf kyssa, og ég sé ekki betur en að það sé þá langbest að kyssa bara góða vinkonu, sem er falleg, gáfuð og skemmtileg og kyssir vel, frekar en að vera að taka endalausa sénsa með endalausum fávitum. Eina málið var að við hófum þetta langþráða kossaflens okkar (ekki komist í að kyssast í fjóra mánuði) fyrir framan alla kennarana, og meðan á þessu stóð hélt ég í höndina á Alexander, sem var í tilefni dagsins dragklæddur með Pókahontas hárkollu. Seinna heyrðum við að þetta föngulega þríeyki hefði valdið miklum heilabrotum hjá kennaratuskunum, og ekki skrýtið, þar sem við erum öll fremur alvarlegir og duglegir námsmenn, svona dagsdaglega. En við ákváðum (eftir miklar stunur og andköf yfir Makkahamborgurunum daginn eftir) að þeir yrðu bara að lifa með þessu áfalli enda varla í fyrsta sinn sem þeir verða vitni að slíku.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home