blog... the modern person's cry for attention

miðvikudagur, desember 08, 2004

Næstsíðasti dagurinn í vinnunni! Undarleg tilfinning það...svo er bara að reyna að græja einhverja kúl vinnu í Danmörku eftir áramót, ætli ég endi ekki samt í uppvaskinu eða ellibelgjabransanum fyrst um sinn. Mér er svo sem sama, bara ef ég enda í einhverju almennilegu þar sem hæfileikar mínir eru metnir (til fjár) og ég get verið á háhæluðum skóm með varalit að reyta af mér gullkornin, helst á öllum fimm tungumálum í senn.

Það eina sem er eftir hér í Arkhangelsk er að halda íslensk litlujól á laugardaginn í Gostiny Dvor. Ég er búin að vera að undirbúa mig fyrir kynninguna sem ég á að halda og við þá vinnu hef ég rifjað upp kynni mín af íslenskri þjóðsagnahefð og furðufyrirbærum. Ég hef svo komist að þeirri niðurstöðu að við Íslendingar séum með grimmlyndari þjóðum. Hverjum dettur svosem í hug að finna upp á allskyns skrímslum, eins og Grýlu og jólakettinum (sem er fyrirbæri
i sérklassa) til að hræða fólk til hlýðni og iðjusemi? Og yfirleitt var þetta vesalings fólk sem verið var að hræða, langt undir lögaldri, og ekki má gleyma þeim sið að tjóðra smábörn við rúmstokkana og þau skilin eftir daglangt meðan heimilisfólk var við vinnu úti á túni. Það hefur svo leitt af sér lífsvarandi áfall, sem aftur leiddi til grimmdarlegrar og harðneskjulegrar framkomu við börn, í Alice Miller fílingnum: "Enginn hjálpaði mér þegar ég var lítil/l, svo ég sé enga ástæðu til að vera að hjálpa þér."
Hinsvegar má rökfæra þennan hluta menningar okkar með því að í gamla daga urðu hreinlega allir að hjálpast að og hvergi mátti á bregða, ef að átti að komast lífs af.
Ég hef sjálf oft verið kölluð beinskeitt, harðbrjósta eða jafnvel grimmlynd af frændum vorum Skandinövum, það er kannski þetta "ekki skal gráta Björn bónda, heldur safna liði og hefna" viðhorf og önnur álíka kaldranaleg, sem fylgja harðgerri þjóð vorri og mér þar með talinni.

Eitt sem ég hef líka tekið eftir, og velt fyrir mér, og það er blogggleði Íslendinga. Nú er svo komið að það skiptir varla nokkru máli hvaða orð er slegið inn á leitarvélarnar, alltaf kemur upp a.m.k. ein íslensk bloggsíða. Mér sýnist á öllu að annar hver Íslendingur bloggi, ef ekki allir.

Fyrst dró ég þá ályktun að við værum athyglissjúkasta og sjálfumglaðasta þjóð í heimi. Hvað geta þegnar þjóðar, sem telur 290.000, og hírist á gaddfreðnum móbita lengst norður í ballarhafi, haft svona mikið að segja hvorum öðrum? Svo spurði ég sjálfa mig af hverju ég væri að þessu. Jú, ég er yfirleitt ekki á Íslandi, og með því að skrifa blogg slepp ég við að skrifa endalaus meil og þurfa alltaf að vera að segja frá því hvað sé í fréttum. Þar að auki finnst mér gott að geta haldið íslenskunni almennilega við og svo hef ég einfaldlega mikla ánægju af því að segja frá og skrá sögu mína. Bloggið mitt er í rauninni nokkurs konar farandsannáll. Því má velta fyrir sér, hvort bloggið sé fyrir Íslendingum það sem þjóðsögur og farandssögur voru í gamla daga, nú köllum við jú okkur bókaþjóð og sagnaþjóð. Íslendingar hafa alltaf verið vitlausir í að segja sögur og fara með þulur eða syngja, svo kannski er þetta bara nútímaútgáfan af því. Og pínu sjálfumgleði.

Að öllu gamni slepptu vil ég skora á íslenska félagsfræðinga að hefja ítarlega rannsókn á bloggvirkni Íslendinga, og svo þyrfti helst að skrifa nokkrar bækur um þjóðfélagslegar ástæður og afleiðingar þessarar kjaftagleði landans.

1 Comments:

  • Jú, bloggið hefur verið rannsakað í bókmenntafræðilegum tilgangi, sem sérstakt bókmenntaform. Á Íslandi eru gefnar út fleiri bækur per kapíta en í mörgum öðrum löndum, og því getum við réttilega kallast bókaþjóð.. eða í það minnsta bloggaþjóð.. og í sambandi við jólaköttinn.. er þar ekki sjálfur Behemot fram kominn?

    By Blogger Tinnuli, at 12:09 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home