blog... the modern person's cry for attention

mánudagur, nóvember 22, 2004

Pælingar í hádegishléinu

Ég er ekki frá því að ég sé að breytast í karlmann. Að minnsta kosti þykir mér ég hafa tileinkað mér háttalag sem yfirleitt er kennt við karlkynið frekar en "hið mjúka kyn" (hvaða fífl fann upp á þessu?). Rétt í þessu var sem sagt ungur maður að tilkynna mér að hann dæi úr söknuði ef hann sæi mig ekki daglega. Mér varð fremur hverft við, þar sem ég hef þekkt þennan mann í tíu daga og það hefur tekið mig tíu daga að komast að því að ég er ekki skotin í honum, þó að ég hafi kannski verið það rétt í fyrstu. Ég afgreiddi því þessa yfirlýsingu með flissi og starði sem fastast á gólfteppið.

En hvað um það, ekki er við hann að sakast. Ég held að ég þjáist af "nútímakonueinkenninu" (mér finnst það svosem engin þjáning). Ég tel að þetta einkenni sé að verða nokkuð algengt meðal vestrænna kvenna, mig grunar t.d að hún Helga Þórey sé líka með þetta einkenni.

Ég hef nefnilega tekið eftir því að það er eiginlega ekki pláss fyrir neinn annan í lífi mínu nema sjálfa mig og svo vini mína og fjölskyldu. Ég hef svo margt að gera og stússast að ég hef í raun engan tíma til að vera alltaf límd við annan aðila, og er líka svo vön því að vera ein og hafa mína eigin sérkennilegu siði og venjur að ég finn beinlínis fyrir óhamingju þegar ég get ekki sinnt þeim. Til dæmis get ég fullyrt, að þó að ég hafi nú verið snarvitlaus í hann Ívan gamla og sjálfsagt gengið í sjóinn hefði hann beðið um það, þá fannst mér mjög erfitt að geta ekki lesið bækur á kvöldin,og að þurfa að mörgu leyti að aðlaga mig að dagskrá annarar manneskju. Ivan má nú reyndar eiga það að hann hélt fast í sitt og var erfiður, veit ekki hvort mér finnst verra, þegar karlmenn eru erfiðir eða þegar þeir hanga utan í manni.

Auðvitað væri stundum ágætt að eiga krúttulegan kærasta...En á hinn bóginn fæ ég algert angistarkast þegar ég hugsa um hvernig mitt eigið líf myndi hverfa og víkja fyrir "symbios"tilverunni! Mér finnst nefnilega líf mitt mjög skemmtilegt...eina vandamálið er að vinir manns og vinkonur eignast yfirleitt kærasta eða kærustur og þá fer að fækka í hópi leikfélaga. Hins vegar langar mig mjög mikið til þess að eignast barn og vildi þá gjarnan að faðirinn tæki þátt í uppeldi barnsins, enda fátt sem ég ber minni virðingu fyrir en karlmenn sem sinna ekki börnunum sínum. Kannski kemur þetta allt einhvern tímann?

Kannski er vandamálið það að ég er frekar kröfuhörð og verð yfirleitt aldrei alvöru skotin í neinum, kannski pínu í tvo eða þrjá daga og svo er það liðið hjá, að undantekinni kynferðislegri hrifningu sem getur varað mun lengur, jafnvel í mörg ár. Ég þekki t.d. þó nokkra karlmenn sem ég er í endalausum daðursleik við, hvort sem ég er búin að sofa hjá þeim eða ekki. Hinsvegar myndi ég ekkert frekar vilja vera kærastan þeirra, oft er miklu skemmtilegra að keyra svona daður eins langt og það kemst.

Jæja, ég held að það sé best að ég hætti þessu. Mér sýnist á öllu að ég sé karlmaður með brjóst og píku eða þá ný tegund af konunni, femi modernicus.


3 Comments:

  • Af hverju ætti það eitt að langa ekki í kærasta, að vera merki þess að þú sért að ,,breytast í karlmann". Mér finnst það nú alveg fáránleg samlíking, eins og karlmenn langi eitthvað frekar að vera á lausu en konur. Njóttu þess að vera frí og frjáls, og ég get fullvissað þig um það að þegar SÍST skyldi mætir sá rétti á svæðið, hvíslarinn í leikritinu, nágranninn sem þú hefur aldrei séð, gamall kærasti vinkonu þinnar eða einhver sem þig mun ALDREI gruna að verði ,,sá rétti" (ef hann er til, það fer mikið eftir efnum og aðstæðum). Það er ekkert óeðlilegt eða sérstaklega módernískt við það að langa ekki í kærasta. Þú ert bara sjálfstæð kona sem ekki vilt skuldbindingu og það er merki um sjálfstraust þitt og einurð að þú hefur áttað þig á því.

    By Blogger Tinnuli, at 5:21 e.h.  

  • Ég meinti þetta nú kannski ekki alveg svona bókstaflega, held ég sé kannski líka lituð af umhverfinu. Hérna í Rússkí er nefnilega alltaf rosalega mikið talað um að "konur sé svona og karlar hinsegin" og þá skuldbindingafóbía karla og ástsýki kvenna gjarnan nefnd...og konur á lausu eins og ég þykja hálfgerð fyrirbæri og kannski þess vegna sem ég er að pæla svona mikið í þessu. þú hefur eflaust rétt fyrir þér hvað "hinn eina sanna" varðar, ég vona bara að það verði ekki einhver gamall nágranni!!

    By Anonymous Nafnlaus, at 7:07 e.h.  

  • alveg finnst mér "femi modernicus" vera snilld!

    Annars held ég að þetta sé að breytast hjá báðum kynjum, held að það að konur setji sjálfa sig í fyrsta sæti hafi óhjákvæmilega áhrif á sambönd út um allt þannig að kynjahlutverk innan sambanda séu að breytast. S.s. það er enn von, það er hægt að vera femi modernicus og samt eiga kærasta, vera með sjálfa sig í fyrsta sæti en njóta þess sem sambönd bjóða upp á. Hins vegar er ég enginn sérstakur talsmaður sambanda, um að gera að njóta lífsins og það verður maður alltaf að læra einn (held ég).

    By Blogger Thóra, at 2:11 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home