blog... the modern person's cry for attention

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Er búin að hugsa aðeins um þessi tímabil...Útideildartímabilinu deili ég með Sif og þó nokkrum öðrum. Þetta tímabil tel ég þó vera samofið "Café Au Lait" tímabilinu, sem varði aðeins lengur, eða frá 1995 til 1999. Ég held að starfsfólkinu á því góða kaffihúsi hljóti stundum að hafa liðið eins og það væri að vinna á leikskóla.

Svo var ég náttúrulega á föstu meira en helminginn af mennto, en finnst það samt eiginlega ekki vera tímabil, af því að ég var svo lengi að ná mér eftir þetta samband, var mjög bitur og reið í mörg ár. Hmmm...en ég hef alltaf verið óttaleg dillu-manneskja, t.d. má nefna Pílu Pínu æðið sem stóð á seinasta árið í menntó. Einn daginn fann ég nefnilega gömlu Pílu Pínu plötuna mína inni í skáp, setti hana á og felldi geðshræringartár yfir glataðri bernsku minni. Næstu fjölmarga mánuði var ei um annað rætt en hana Pílu Pínu, og "Saknaðarkvæði Gínu Mömmu" sungið við hvert tækifæri með tilheyrandi táraflóði (jafnvel edrú um hábjartan dag á Matgarði).

Svo var boxtímabilið. Fyrir þá sem hafa gleymt því, var ég nefnilega í boxi í svona hálft ár þegar ég var tvítug, og það tók yfir allar mínar hugsanir. Mér finnst þetta hálfvandræðalegt tímabil og ætla því ekki að skrifa meir um það.

Alkatímabilið. Jú, undirbúningurinn að þessu tímabili hófst snemma, sjálfsagt um 15-16 ára aldurinn, og tímabilið stóð sem hæst á árunum 2000 - 2003. Á þessu tímabili komst ég nálægast því að verða alki sem ég hef komist (og vonandi kemst ég ekki nær því, frekar ólíklegt reyndar), og flest og óskemmtilegustu mistök ævi minnar áttu sér stað á þessu tímabili. Þetta tímabil endaði til allrar hamingju vel, þegar því lauk og þerapíutímabilið hófst.

Svo var "hata Ísland"tímabilið. Flestir sem hafa búið í útlöndum ættu að kannast við vissan viðbjóð á klakanum, sem vaknar sérstaklega þegar maður kemur heim í lengri tíma. Í svona tvö ár hataði ég Ísland og fannst allt íslenskt óþolandi, sérstaklega aðrir Íslendingar utan landsteinanna. Svo gróft er það nú ekki lengur, en mig er enn ekki farið að langa að flytja heim.

Svo eru svo mörg önnur mínítímabil sem kennast við stað, eins og t.d. Moskva, Arkhangelsk, Listaháskólinn...

...og allskyns áráttur, eins og hakkísakk tímabilið, grænmetisætutímabilið, megrunartímabilið þegar ég bjó með Tönju, eða frelsaða tímabilið, þegar ég var nýbúin að kynnast Guði og reyndi að lauma því inn í allar samræður, eins og öllu frelsuðu fólki ber skylda til.

Veit ekki alveg hvaða tímabil er í gangi núna. Af og til langar mig helst til að hætta öllu veseni og rugli, gifta mig, eignast þrjú börn og kött og flytja í lítið hús úti i sveit og tala aldrei við neinn nema manninn og börnin. Kannski er þetta ..."hringl í eggjastokkum"tímabilið? Er samt ekki að fíla þetta nafn. Uppástungur eru vel þegnar.

1 Comments:

  • Áhugaverð færzla.. kannski ég geri slíkt hið sama..

    By Anonymous Nafnlaus, at 5:17 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home