Það eru sjálfsagt allir hættir að lesa hér, en samt:
Ég hef gert uppreisn gegn þeim "reglum" sem giltu alla mína bernsku og æsku varðandi jólaskraut, og hef fyllt íbúðina af rauðum filthjörtum, böngsum með jólasveinahúfur, gylltum stjörnukertastjökum og snjóköllum. Þetta gerði ég fyrir meira en viku, s.s. um miðjan nóvember. Og ég fíla það í botn! Hver var það eiginlega sem ákvað að jólaskraut mætti ekki hengja upp fyrr en í desember, og helst ekki fyrr en á Þorláksmessu? Af hverju? Það var alltaf látið með þessar jólaskrautsreglur eins og heilög boðorð Mósesar, og ef manni datt í hug að hengja upp svo mikið sem eitt engilsgrey, þá var maður genginn í lið með asnalega og vitlausa fólkinu, hvaða vesalings fólk sem það nú var. Mig grunar helst að við hafi verið átt smáborgaralegt fólk sem kýs Sjálfstæðisflokkinn, kannski eitthvað í átt við vissa nágranna. Sem er nótabene bara ágætis fólk, bara með aðeins öðruvísi lífsstíl og innanhússkreytingar.
Ég elska jólaskrautið mitt og tek jólabangsana mína og litlu kertastjakana sem eru í laginu eins og jólatré, lítil snævi þakin hús og jólasveinar, fram með ástúð og tilhlökkun í hjarta, á sama hátt sem ég elska að vera með nýsnyrtar neglur og gljáandi dimmrautt naglalakk. Já eða bleikt, eitt enn sem var harðbannað og fyrirlitið í minni sósíalístísku æsku. Eiginlega allt það sem var talið asnalegt og teprulegt í þá daga, og þar af leiðandi alger skömm að láta sjá sig í, er núna efst á mínum lista, eins og t.d. dömuleg pils, háir hælar og blásið hár. I love it!
En það er nú kannski engin ástæða til að vera að hamast yfir þessu, enda góð spurning hvað ég er enn að þvælast með svona bitrar uppreisnartilfinningar gagnvart því sem í raun hefur engin áhrif á líf mitt í dag. Það kom mér bara svo á óvart hvað ég þurfti að sannfæra sjálfa mig um að það væri í lagi að draga jólaskrautið fram 15.nóvember, en ekki bíða í hálfan mánuð eftir að dagatalið sýndi desember. Mig langaði bara ekkert til þess, og þar sem að maður lifir bara einu sinni, ákvað ég að láta eftir þessari löngun minni.
3 Comments:
ahahahahah! En fyndið, ég er einmitt búin að vera að rífast við sjálfa mig um hvort ég eigi að byrja að jólast eitthvað..kaupa gjafir og skreyta og svona, en e-ð stóð þar í vegi (já sennilega reglurnar góðu sem settar voru í sósílaista uppeldinu :-) ) En svo áttaði ég mig á því ég er bara komin í bullandi jólastuð...og ætla bara víst að tapa mér gersamlega í því! Áfram við Anna!
By Nafnlaus, at 6:34 e.h.
Já svona getur nú krókurinn beygst í öfuga átt ef þannig má að orði komast, æ því mætti maður ekki skreyta svolítið villt og galið, jólin eru nú bara einu sinni á ári og svo stutt... ég miða samt mitt skraut við aðventuna, en er þó búin að hengja upp tvö útprjónuð jólatré OG kaupa mér súkkulaðidagatal á 98kr í Bónus!
By Tinnuli, at 2:31 f.h.
hæ krúttið mitt, já, er innilega sammála þér, ég er sjálf algjör sökker fyrir jólunum og hef alltaf verið! En semsagt, þurft að fara leynt með. Er yfirleitt farin að hlusta á jólatónlist um miðjan nóvember og yfirleitt með tárin niður á höku því þetta er allt svo yfirgengilega fallegt!!!!
O Jesulein süss segi ég bara....
kram og knús,
bönga.
By Nafnlaus, at 11:13 f.h.
Skrifa ummæli
<< Home