blog... the modern person's cry for attention

mánudagur, október 25, 2004

Hausinn á mér er gersamlega soðinn eftir svefnlausa nótt. Ástæður svefnleysisins eru þó ókunnar, amk var ég ekki að festa mig í spekúlasjónum eða angistarköstum. Var bara eiginlega ekki þreytt, enda búinn að sofa mikið um helgina.
Í gær gisti ég semsagt heima hjá Lízu, við horfðum á sex in the city og borðuðum tilbúið lasagna, hrísgrjón, súkkulaði og drukkum bjór. Mikið er nú gaman að horfa á sex in the city, og endalaust hægt að velta vöngum yfir þeim vandamálum sem hinar óhemju vel klæddu píur eru að slást við. Á meðan við horfðum á fimm þætti í röð fann ég til skiptis fyrir djúpri þrá eftir að vakna í faðmlögum "þess sem ég elska" (þessi ósk mín strandar á augljósri staðreynd - fjarveru slíkrar persónu í mínu lífi)og heldjúpu ergelsi og hneykslun á karlmönnum, sem ekkert skilja né sjá. Mr Big virðist amk vera holdgervingur alls karlmannlegs fattleysis á plánetunni jörð, því þarna gaf að líta kunnuglegar og óþolandi senur úr lífi hverrar gagnkynhneigðar konu. En hann má reyndar eiga það að hann er mjög myndarlegur og ég myndi sjálfsagt fyrirgefa honum ansi margt fyrir útlitið eitt.
Hin þriðja tilfinning hélt mér hinsvegar í járntökum allt áhorfið, og það var ofsafengin löngun í að komast í almennilegar fata og skóbúðir. Þegar ég fer til St.Pétursborgar í næstu viku, verður sko heilsað upp á þær vinkonur mínar Esprit og Zöru, svona á milli þess sem við Lena og Dína þræðum helstu knæpur borgarinnar.

Svo gat ég ekki sofnað og lá vakandi alla nóttina, fór heim um morguninn og hringdi í vinnuna og tilkynnti seinkunn. Er núna í vinnunni og veit ekki hvað snýr upp né niður, rétt nýkomin og vinnudeginum að ljúka. Allamalla.

Jú, og svo lærði ég að spila billiard á laugardaginn, það þykir mér skemmtilegur leikur. Hvað var ég að forðast þetta í öll þessi ár? Svo spyr ég mig hvað verði næst; fótbolti eða keila? Þegar ég hef náð tökum á báðum þessum hundakúnstum tel ég víst að öll helstu sálfræðilegu íþróttavígi mín séu fallin og ekki annað eftir en að fara í framboð til forseta.

1 Comments:

  • Já Steve er algert krútt. ég mun þurfa að kynnast einum slíkum til að sannfæra mig, eftir þær raunir sem ég hef gengið í gegnum með "hið illa kyn".

    By Blogger Jon Kyst, at 1:24 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home