blog... the modern person's cry for attention

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Seinast þegar ég vissi var bróðursonur minn ekki enn kominn í heiminn og ekki heyrst neitt af áætluðum komutíma hans. Hann átti þó að líta dagsins ljós í seinustu viku og hver veit nema hann sé kominn þegar þetta er ritað. Ingibjörg systir mín hringdi í mig um niðdimma aðfaranótt mánudags og þá var enn ekkert að frétta af stráksa.

Héðan er það að frétta að eftir mánuð nákvæmlega mun ég standa föstum fótum á danskri jörð. Það er vonandi að vinir mínir þekki mig aftur. Í augnablikinu er mér illt í hægri öxlinni (það er að verða daglegt brauð hér við tölvuskjáinn), er að reyna að setja saman kynningu á Íslandi fyrir rússneska viðskiptamenn og konur sem stefna þangað á næsta ári. Ég reikna með að hitta EthanHawke á eftir (rússneskir karlmenn eru svosem alveg jafn óáreiðanlegir og aðrir karlmenn, svo maður veit aldrei). Hann á afmæli í dag. Úti er snjór og u.þ.b. fimm stiga frost og eftir klukkutíma verður orðið aldimmt.

Já, fór á kvöldverðardæmið í gær. Svona dæmi þar sem þurfti að fara í gegnum allan kurteisishjalspakkann við fólk sem ég mun sennilega aldrei hitta aftur, nóg af góðum mat og rússnesku gestgjafarnir reyndu af öllum mætti að fá fólk til að drekka sig fullt, en það gekk fremur illa. Einu gestirnir sem tóku vel í það voru tveir finnskir karlmenn, annar þeirra hét hinu ágæta íslenska nafni Ari og bjó yfir eldheitu augnaráði sem hann sveipaði mig alla á meðan hann sagði frá ævintýralegu lífi sínu sem international studies coordinator. Ég fór mjög hjá mér og fann hvernig roði læddist fram í kinnar mér og eldur kviknaði í iðrum mér er ég virti fyrir mér breiða kjálka hans, há kinnbein og langa fingur...og hér rann upp fyrir mér hvernig væri fyrir mér komið þegar maðurinn kom því að í frásögn sinni að hann hefði verið 16 ára árið 1982. Þarna sat ég eins og hver önnur Samantha og fann fyrir kynferðislegri aðlöðun gagnvart gamalmenni. Mér brá mjög og hugsaði sem svo að nú væri ég sem sagt orðin svo gömul að mér þættu menn í þessum aldursflokki eiga séns. Svo mundi ég eftir því að tvær vinkonur mínar eiga kærasta á aldur við þennan mann og ein þeirra ætlar meira að segja að giftast sínum. Þar að auki væri einungis um að ræða 14 ára aldursmun og um leið og maður er kominn yfir tvítugt fer aldur að skipta minna máli. Svo leit ég á þennan bláókunnuga mann og áttaði mig á að það væri enginn tilgangur í öllum þessum vangaveltum þar sem ég myndi aldrei eiga neitt við þennan mann saman að sælda, kláraði úr glasinu mínu, kvaddi og dreif mig heim í háttinn.

1 Comments:

  • Gamalmenni eru nú soldið sexí!!!!! það er eitthvað við þennan þroska, þessar fallegu hrukkur, þessa reynslu...

    By Blogger Tinnuli, at 7:07 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home