blog... the modern person's cry for attention

mánudagur, nóvember 01, 2004

Úti snjóar og snjóar og ég fór í gönguskóna mína í fyrsta sinn í dag, svona í tilefni snjókomunnar.
Elena er í St.Pétursborg á "Director´s Monday" fundunum og ég er ein hér á skrifstofunni...

Um helgina skrifaði ég semsagt þessa blessuðu ritgerð, að mestu leyti á laugardeginum og lauk svo við hana í hendingskasti á sunnudeginum. Á laugardagskvöldinu ákvað ég svo að taka áskorun einhleypingalífsins og athuga hvort það væri mögulegt að fara ein út á galeiðuna. Að vísu voru plön mín ekki meiri en svo en að fá mér að borða einhvers staðar og eina bjórkollu, og sjá hvað gerðist. Keypti ég mér því rússneska Newsweek til að hafa eitthvað að glugga í á meðan ölið skyldi sopið, og svona líka til að líta ekki út eins og desperado/vændiskona. Enda er alltaf hálf áhættusamt að vera ein kona á bar, ekki bara hér í Rússlandi heldur alls staðar.

Það er skemmst frá því að segja að þetta tókst ekki alveg eins og ég hafði áætlað. Ég byrjaði á því að kaupa blaðið og velti því svo fyrir mér hvert skyldi haldið. Nálægustu staðirnir voru þrír, kaffihúsin Polina og U tjosji og svo Holstein bar. Á Polinu er ekki hægt að fá sómasamlegan mat og heldur ekki bjór. Á U tjosji er hægt að fá bjór og nokkurn veginn sómasamlegan mat. Á báðum þessum stöðum er eðlilegt að sitja einn og glugga í blað (þó auðvitað teljist mun eðlilega að vera í hrókasamræðum við vini eða vinkonur eða að haldast í hendur við kærastann á meðan hann fóðrar mann á ís og kökum). Holstein bar býður upp á góðan en frekar dýran mat og auðvitað upp á bjór. Hinsvegar vissi ég ekki alveg hvort ég þyrði að fara þangað ein að kvöldi til. Hef bara komið þangað í hádegishléinu og að degi til virðist þetta nú vera fremur sómasamlegt allt saman, en það er aldrei að vita hvað gerist eftir að myrkrið skellur á. Ég tók því þá (alröngu) ákvörðun að renna út á Traktir og reyna fyrir mér þar.
Traktir er ágætis veitingabúlla, þó með fremur ókurteisum þjónustustúlkum (var barin þar í höfuðið með diski) en ....það sem dæmdi plan mitt til dauða voru langborðin og bekkirnir sem þar eru. Því var ég reyndar búin að gleyma og mætti galvösk og spurði hvort ég mætti setjast einhvers staðar, enda sýndist mér vera nóg af auðum borðum. Fyrst hunsaði allur hópurinn mig í dágóða stund, svo tók eitthvert stúlkugreyið eftir mér, en það var eins og augun ætluðu út úr höfðinu á henni þegar ég sagðist vera ein. Hún hugsaði sig um og leiddi mig svo framhjá þéttsetnum borðum á neðri hæðinni og vísaði mér til sætis...í starfsmannaherberginu!! Ég hélt ég yrði ekki eldri. Vitaskuld strunsaði ég út og tók næsta strætó beint aftur á Polinu og pantaði mér þar óhollt drasl og köku og kakó, en engan bjór. Stúlkan sem afgreiddi mig horfði á mig með skilningsríku vorkunnarbrosi. Kannski er hún líka á lausu.
Kvöldinu var þó ekki lokið og ég ákvað að fara í bíó, og ók sem leið lá í bíóið sem er ekki langt frá híbýlum mínum. Þar góndu fjórir unglingar, tveir af hvoru kyni, ýmist í sleik eða einhverju álíka káfi, á mig eins og viðundur. Ég sendi þeim hvasst augnaráð og ég er ekki frá því að þau hafi hert takið á höndum og og rasskinnum hvers annars við það. Enn voru fjörutíu mínútur í sýninguna og ég ákvað að halda bara áfram á minni hálu braut og settist inn á Kristina barinn á efri hæðinni. Það reyndist vera ágætis bar með þremur billjard borðum. Ég veit þá hvert á að fara næst. Þar pantaði ég mér bjór og hélt áfram að lesa Newsweek. Starfsfólkið góndi auðvitað á mig eins og naut á nývirki, en til allrar hamingju virtust hinir gestirnir, sem flestir voru karlkyns, ekki taka mikið eftir þessari einmana flökkukind. Svo var loksins komið að því að sýningin hæfist og sjaldan hef ég séð annað eins þvaður. Um var að ræða Anaconda2. Ég fór auðvitað aðallega til að sjá skrímslið, átti svo sem ekki von á neinu menningarlegu stórvirki en þarna tók nú steininn úr.

Jæja, hvað um það. Svona fór nú laugardagskvöld mitt í eigin félagsskap. Ég held að næst prófi ég þetta í Kaupmannahöfn. Þar telst víst aðeins eðlilegra (en samt frekar óeðlilegt) að maður sé á lausu. Spurningin var kannski heldur ekki svo mikið um lausagengi eður ei, heldur algeran skort á félagsskap. En hvað átti ég að gera? Líza var ekki í bænum, Constantína á einhverju Októberfest dæmi sem var bara fyrir meðlimi der Dritte Reich og Anna og Daníel sjálfsagt að kærustuparast eitthvað. Ekki nennti ég að morkna heima með Newsweek. Þá er alveg eins hægt að morkna á Polinu eða Kristinu, með Newsweek að sjálfsögðu.

1 Comments:

  • Vá þetta var ekkert smá viðburðaríkt kveld, ég held að þú þyrftir að fá verðlaun fyrir þetta !!!! Kv Sóley

    By Anonymous Nafnlaus, at 9:49 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home