Mín átti nokkra góða spretti í gær. Fór á pjásijams með Önnu Heru og Sigrúnu Helgu, sem var að koma út í siðmenninguna síðan dóttir hennar varð til fyrir nokkuð löngu síðan. Erum við stöllur sammála um að vel hafi til tekist og rætt var að gera þetta að föstum liði.
Það er skemmst frá því að segja að við hristum okkur og skókum, engdumst og liðuðumst í besta Beyoncestíl (rólegar á að vera á egótrippi) á mestu pjölludiskótekum bæjarins, til mikillar ánægju fyrir tyrkneska starfsmenn staðanna. Reyndar hittum við einnig tétsenska gaura sem voru að vinna á Krasnapolski - hvað er með þessa Kákasusgaura að leita mig uppi í Kaupmannahöfn? Og alltaf skulu þeir ávarpa mig á rússnesku og ekki vera hið minnsta hissa á því að Íslendingur tali rússnesku.
Kvöldið var gott að mörgu leyti, bestu punktarnir voru þó þegar ég ætlaði að snúa mér á hæl við jeje-lagið hans Usher vinar míns (af því að ég var að læra dansinn úr myndbandinu sko) og hlammaðist flötum beinum á rassalinginn. Til allrar hamingju sáu það ekkert svo margir. Svo fórum við Anna Hera á morgenværtshus. Nú er ég búin að prófa helstu tvö morgenværtshúsin hér í Köbba, og get einungis sagt að svona staðir eru svo innilega óþarfir og mikil vitleysa, að það hálfa væri nóg. Þetta eru staðir af því taginu sem hefði fengið mig til að hugsa að fullorðna fólkið væri snargeðveikt, hefði ég gengið fram hjá slíkum stað sem barn. Þvílíkt rugl. Þar hittum við engan með viti, og minnst gáfulegir voru tveir Afríkanar frá Togo, sem voru bláedrú klukkan hálfsjö á laugardagsmorgni á þessari huggulegu samkomu. Þeir urðu geðveikt fúlir út í mig og Önnu fyrir að vera úti á djamminu án kærastanna, og þar með gefa öðrum í skyn að við værum til í tuskið. Hvaða helv. afskiptasemi og tilætlunarsemi er þetta? Þoli ekki svona rugl.
Já. Ég er víst ekki á lausu lengur. Ég fékk alveg vægt angistarkast yfir þessari breytingu í tilveru minni á föstudaginn og ræddi málið við elsku dúllu Anne mína. Anne er svo góð, og svo mikið krútt og ég verð alltaf svo glöð að sjá hana. En nú er ég s.s. komin með kærasta af spænskum og enskum ættum. Hann heitir Miguel Kenneth og er með græn augu og breiða kjálka og eilífa skeggbrodda.
1 Comments:
Ó Ó! (Lesendur giski á eiganda þessarar upphrópunnar)
By Nafnlaus, at 7:19 e.h.
Skrifa ummæli
<< Home