Alltaf lærir maður eitthvað nýtt hér í Rússlandi. Og hér í Arkhangelsk hefur svo sannarlega ekki skort á nýjar reynslur.
Hlutir sem ég hafði aldrei séð annars staðar en hér:
- Fátækt fólk að borða upp úr ruslagámum (mér var óglatt í nokkra daga í fyrsta sinn sem ég varð vitni að þessu).
- Fólk að standa í röð við vatnshana (hef nú bara aldrei séð slíkt apparat áður) inni í miðri borg að dæla vatni í fötur.
- Hafís. Hef kannski einhvern tíma séð hann áður en man ekki eftir því.
-Dauðar rottur á gangstéttinni.
-Alvöru rússnesk banja (baðhús).
Upplifanir og vitneskja sem ég hefði átt að vera búin að fatta eða prófa fyrir löngu:
- Að það er frábært og í alla staði nauðsynlegt fyrir líkamann að fara reglulega í bönju. Brennheit gufa, birkivendir og ískalt vatn!!!
- Að tvorog er eiginlega það sama og skyr og ég skil ekki hvað ég var að forðast þetta góðgæti svona lengi.
Hmm...það er örugglega eitthvað meira, en ég man ekki eftir því í augnablikinu. Hér er annars bara allt komið í hinn hefðbundna rússneska vetrargír, 12 stiga frost og fólk dúðað í loðkápur, loðhúfur og ullarsjöl og börnin innpökkuð í yfirgengilega krúttulegar loðhúfur og stígvél úr þæfðri ull.
Fór í rosalega fínan göngutúr með Lísu og Ethan á laugardaginn, tókum rútuna út til lítillar eyju sem heitir Jagri og örkuðum þar með fram ströndinni í fimmtán stiga frosti. Svei mér þá ef snjórinn var ekki frosnari en venjulega því það var eins og allt væri stráð demöntum... Golgrænt hafið bærðist hægt undir léttri ísþekju og himinninn var alveg blár. Ég er ekki frá því að hann Guð hafi sent okkur dálitla kveðju þennan laugardagsmorgunn, því á himninum var regnbogi (sem ég held að gerist ekki mjög oft að vetri til) og undir miðjum regnboganum brann sólin eins og gríðarlegur kyndill.
Það var svo kalt að þegar við tókum af okkur vettlingana til að smellla á myndavélartakkana, þá urðu fingurnir samstundir stífir og aumir af kulda. Ethan tók nokkrar góðar myndir þennan dag á stafræna myndavél, svo ég reikna með að setja þær inn á bloggið, en veit ekki alveg hvenær.
Heihó!
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home