Ég er hætt á Facebook, fannst vera komin of mikil BigBrother stemning í þetta, sérstaklega með þessar Applications. Hver stendur eiginlega fyrir þeim - "allow this application to access your information" ??????? Nei takk.
Fyrir utan það að ég var komin með nóg af að fá nákvæma skýrslu um hvernig skapi Jói sem ég þekkti fyrir tíu árum var í í gær, og að Solla hefði gengið til liðs við "100.000 manns sem hata Bush". Auðvitað er ég alveg jafn mikið að gefa Google upplýsingar um mig með því að skrifa þetta blogg. En þar sem að það er á íslensku en ekki á arabísku eða ensku, getur auðvitað verið að það veki minni áhuga hjá sæbersnuðrurunum. Og nú getur líka verið að ég fari að skrifa meira á það fyrst að það fara ekki margir klukkutímar á dag í að skoða facebook (ok, smá ýkjur en bölvaður tímaþjófur engu að síður).
Saga úr einkalífi mínu: Ég og Armen eigum tveggja ára afmæli í dag, húrra! Við erum hinsvegar svo óspennandi að við ætlum bara að fara út að borða og svo leigja mynd (og vonandi kaupa bland í poka, jibbí (hvað er að mér)). Engin fallhlífastökk eða jöklasafarí, eða hvað það nú er sem fólk finnur upp á til að gera sér dagamun þessa dagana. Reyndar hefði ég alveg viljað fara í parnudd á Badeanstalten og láta hnoða mín lúnu bein, en kannski við getum komið því við einhvern tímann seinna.
þriðjudagur, nóvember 27, 2007
föstudagur, nóvember 23, 2007
Það eru sjálfsagt allir hættir að lesa hér, en samt:
Ég hef gert uppreisn gegn þeim "reglum" sem giltu alla mína bernsku og æsku varðandi jólaskraut, og hef fyllt íbúðina af rauðum filthjörtum, böngsum með jólasveinahúfur, gylltum stjörnukertastjökum og snjóköllum. Þetta gerði ég fyrir meira en viku, s.s. um miðjan nóvember. Og ég fíla það í botn! Hver var það eiginlega sem ákvað að jólaskraut mætti ekki hengja upp fyrr en í desember, og helst ekki fyrr en á Þorláksmessu? Af hverju? Það var alltaf látið með þessar jólaskrautsreglur eins og heilög boðorð Mósesar, og ef manni datt í hug að hengja upp svo mikið sem eitt engilsgrey, þá var maður genginn í lið með asnalega og vitlausa fólkinu, hvaða vesalings fólk sem það nú var. Mig grunar helst að við hafi verið átt smáborgaralegt fólk sem kýs Sjálfstæðisflokkinn, kannski eitthvað í átt við vissa nágranna. Sem er nótabene bara ágætis fólk, bara með aðeins öðruvísi lífsstíl og innanhússkreytingar.
Ég elska jólaskrautið mitt og tek jólabangsana mína og litlu kertastjakana sem eru í laginu eins og jólatré, lítil snævi þakin hús og jólasveinar, fram með ástúð og tilhlökkun í hjarta, á sama hátt sem ég elska að vera með nýsnyrtar neglur og gljáandi dimmrautt naglalakk. Já eða bleikt, eitt enn sem var harðbannað og fyrirlitið í minni sósíalístísku æsku. Eiginlega allt það sem var talið asnalegt og teprulegt í þá daga, og þar af leiðandi alger skömm að láta sjá sig í, er núna efst á mínum lista, eins og t.d. dömuleg pils, háir hælar og blásið hár. I love it!
En það er nú kannski engin ástæða til að vera að hamast yfir þessu, enda góð spurning hvað ég er enn að þvælast með svona bitrar uppreisnartilfinningar gagnvart því sem í raun hefur engin áhrif á líf mitt í dag. Það kom mér bara svo á óvart hvað ég þurfti að sannfæra sjálfa mig um að það væri í lagi að draga jólaskrautið fram 15.nóvember, en ekki bíða í hálfan mánuð eftir að dagatalið sýndi desember. Mig langaði bara ekkert til þess, og þar sem að maður lifir bara einu sinni, ákvað ég að láta eftir þessari löngun minni.
þriðjudagur, nóvember 13, 2007
laugardagur, nóvember 03, 2007
Í gær spurði Armen mig hvernig maður segir Skål á íslensku. Í fyrsta sinn. Við erum nótabene búin að vera saman í tvö ár í lok þessa mánaðar.