blog... the modern person's cry for attention

miðvikudagur, janúar 31, 2007

Í dag hóf ég störf á Akademisk Rejsebureau. Það virðist ætla að verða jafn erilsamt og ég hafði gert mér í hugarlund. Ég get ekki ímyndað mér hvernig ég á að ná öllum þeim verkefnum sem mér eru ætluð á þeim níu tímum á viku sem samningurinn hljóðar upp á. Það verður að koma í ljós. Á mínum fyrsta vinnudegi tók ég meðal annars þátt í því að velja húsgögn fyrir skrifstofuna og kaupa fartölvu, sem ég setti svo upp alveg sjálf. Það var reyndar ekkert flókið, ég held bara gjarnan af vana að ég kunni ekkert á tölvur. Það er víst svona hugsunarháttur sem aftrar konum á framabrautinni og best að venja sig af honum sem fyrst. Jæja, en þetta virðist ætla að verða afskaplega spennandi vinna og ég er mjög ánægð með að hafa krækt mér í hana. Nú mun ég t.d. læra á Excel, læra að vinna með bókfærslur, búa til kvittanir og reikninga, og fá að tala og skrifa heilan helling af rússnesku. Það er sko það besta.

þriðjudagur, janúar 30, 2007

Nýársheit

Ég strengi þess heit að byrja að elda eftir uppskriftum, í stað þess að malla sama sullið hverja einustu viku. Margt af þessu sulli er ekki einu sinni sérlega gott. Einnig hyggst ég reyna mig við brauðbakstur, þar sem ég er orðin þreytt á því brauði sem fæst hér í búðum. Ég tel að lífsgæði mín muni batna nokkuð ef ég framfylgi þessum ákvörðunum.

mánudagur, janúar 22, 2007

Fyrstu kynni mín af "chili cheese fries". Ég hélt að um væri að ræða franskar með chilidufti á, sem hægt væri að dýfa í ostasósu, eða að franskarnar væru einhvern veginn fylltar með bræddum osti (ekki spyrja hvernig!). Annað kom í ljós, og þrátt fyrir að okkur hafi einungis tekist að torga minna en helmingi skammtsins, ásamt hamborgurum og djúpsteiktum zucchinistöngum, var ekki að spyrja að eftirköstunum. Ungfrú Anna og herra Armen voru farlama það sem eftir var dags og kvölds.


Yosemite þjóðgarðurinn og tveir apar sem voru þar á flakki.


föstudagur, janúar 19, 2007




Jæja, ég ætlaði að setja inn fleiri myndir, en blogger fékk nóg. Þetta kemur í smá skömmtum. Af einhverjum ástæðum eru myndirnar sem Armen tekur á sína vél svo stórar í bitum, að það tekur heillangan tíma að hlaða hverri mynd inn, og það hefur sjálfsagt fengið blogger gamla til að segja stopp.




Ég og David, pabbi Armens. Hann er að grilla hefðbundið armenskt shishkebab. Fyrir þá sem ekki vita er Armen afkomandi armenskra flóttamanna, að mig minnir í fjórðu kynslóð.





Ég í garðinum hjá einhverju rosa flottu safni í San Fransiskó.















Við skötuhjúin hjá Golden Gate brúnni. Sólin var svo rosalega sterk að ég gat varla haldið augunum opnum.

Suss hvað það er kalt. Þó ísstormurinn mikli hafi ekki komið við í San Luis, er hér öngvu að síður andstyggilegur kuldi og sérstaklega innandyra. Þegar þetta er ritað er ég með tvö sjöl vafin um líkama minn, með húfu á höfði og loðsokka á fótlum, og nýbúin að koma handklæði fyrir undir bossanum. Ekki vegna þess að ég pissi svo mikið í mig, heldur vegna þess að stóllinn sem ég sit á er kaldur sem gröfin og ég er hrædd um að það sé óhollt fyrir konur að sitja á köldum stólum. Það segja Rússarnir a.m.k., og hvort sem að er satt eður ei, er það óþægilegt.

Það er svo mikið af mat í þessu landi. Í hvert sinn sem ég kem inn í Albertsons eða aðra meðal matvöruverslun liggur mér við yfirliði vegna hins gríðarlega úrvals. Það er hreinlega allt til. Og hér í húsinu sem Armen býr i með þremur öðrum strákum, virðast niðursuðudósir, pokar og pakkar með matvöru af ýmsu tagi hreinlega vaxa í öllum skápum og skúffum. Sömuleiðis virðast muffins og súkkulaðikökur baka sig sjálfar á nóttunni eða þegar ég sé ekki til, a.m.k. er alltaf eitthvað nýtt bakkelsi frammi í eldhúsi. Allt löðrandi í sykri.

Nú ætla ég að smella inn nokkrum myndum síðan seinast.

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Eftir nokkrar nætur hér í húsi nr.543 á Hill Street í San Luis Obispo, er ég svo sannarlega farin að meta innanhúss hitaveitu að verðleikum. Hér er nefnilega slökkt fyrir hitann, þar sem að ungu námsmennirnir sem hér búa, hafa ekki efni á að borga himinháan hitareikning. Hitastigið í húsinu er því iðulega um 12 C°, og sennilega um tíu gráðum lægra á nóttunni. Ég held að mér hafi aldrei verið jafn kalt að nóttu til, síðan ég svaf í tjaldi um vetur í Rússlandi.

Að kuldavandamálinu frátöldu þykir mér gott að vera hér. Hér býr minn yndislegi kærasti, hér eru fjöll og blár himinn, gróðursælt og sólskin á hverjum degi, handsnyrting kostar um 15 $ og hægt er að borða sig metta í sushi fyrir minna en 30$. Það er eitthvað annað en Kaupmannahöfn. Þar er hvort sem er ekkert skjól og eilífur stormbeljandi.
Ég kom hingað á laugardagskvöldið, eftir að hafa lent seinnipartinn í LA og komið við í Santa Barbara á leiðinni. Ég var vakandi nærri alla leiðina frá Kaupmannahöfn - París - Los Angeles, og ég er ekki frá því að það hafi hjálpað mér að sleppa nærri alveg við flugþreytu. Ég vil gjarnan koma því að að Air France, sem ég flaug með er frábært flugfélag. Í löngum flugferðum fær hver farþegi sinn eigin skjá og hægt að velja hvað maður vill sjá. Svo er nóg pláss í vélinni, allir fá pakka með eyrnatöppum, augngrímu, servíettum og heyrnartólum, maturinn er góður, en það besta er að flugfreyjurnar stilla fram vagni með drykkjarföngum og samlokum. Þannig getur hver og einn fengið sér að drekka það sem hann/hún vill, og engin þörf á að sífellt að atast í flugfreyjunum.

Þegar ég lenti í L.A. tók óralangan tíma að komast í gegnum vegabréfsáritun og tollinn, sérstaklega þar sem verðirnir höfðu aldrei séð íslenskt vegabréf áður, og þeim fannst meira en grunsamlegt hvað ég var með marga rússneska stimpla í vegabréfinu mínu. Ég fékk að svara fjöldanum öllum af spurningum um hvað ég væri hingað að vilja, hvað ég hyggðist taka mér fyrir hendur, hvenær ég ætlaði heim, hvað ég ynni við í Danmörku, hvernig ætti að bera eftirnafnið mitt fram og hvar þetta Ísland væri eiginlega, og þar fram eftir götunum. Á endanum slapp ég þó út og í biðsalnum tóku Armen og Nanna á móti mér. Svo keyrðum við til Santa Barbara og fengum okkur sushi. Þá var ég búin að vera vakandi í nærri 40 klst (fyrir utan stuttan og órólegan blund í vélinni), og við hvern bjórsopa tók gólfið og veggirnir dágóða sveiflu og snúning. Aldrei hef ég upplifað önnur eins áhrif af bjór, það get ég sagt ykkur. Það var svo ekki fyrr en á leið frá Santa Barbara til San Luis að ég sofnaði loksins, og síðan hef ég bara verið á nokkuð góðu róli hvað varðar svefninn. Ekkert verið að lognast út af klukkan sex eins og seinast.

Jæja, en á morgun er förinni heitið til Fresno að sjá hinn unga Justin Timberlake koma fram á tónleikum. Ef að það reynist vera ósatt að hann sé farinn að slá sér upp með Scarlett Johannson, er aldrei að vita nema Nanna vinkona mín geti krækt í hann. Hún er ljóshærð og dönsk, alveg eins og Scarlett, svo hann fer varla að fúlsa við slíkri dömu. Læt ykkur vita hvernig þetta fer allt saman.

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Oj oj rigningarprump. Til allrar hamingju fer ég til Kaliforníu á laugardaginn, og þar skín sólin nærri alltaf. Sá er hinsvegar galli á gjöf Njarðar, að það tekur 17 klukkutíma að komast þangað, og þar af eru 11 1/2 í einni runu í flugvél frá París til L.A. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að lifa þetta af. Á einhver svefnlyf og getur lánað mér eins og eina pillu? Ég er búin að skoða ýmsa möguleika í stöðunni, sem er sú að flugið héðan til Parísar er kl.7, sem þýðir að ég þarf að fara á fætur um 3 og vera komin út á flugvöll kl.5. Það býður upp á nokkra valkosti:

1. Fara ekki að sofa. Þannig ætti ég að geta sofið mest alla flugferðina, en ég er alveg rosalega slöpp að halda mér vakandi á nóttunni. Ef ég legg mig um kvöldið eða um daginn á morgun væri þetta kannski hægt.

2. Sofa í nokkra klukkutíma. Þá er ég bara hrædd um að ég sofi bara til Parísar og verði þannig vakandi meiri hlutann af hryllingsfluginu til LA.

3. Fara að hátta á venjulegum tíma og láta þetta ráðast, en það er mjög svipaður möguleiki og nr.2.

Ég bara meika ekki að sitja glaðvakandi í þessari vél, en það var það sem gerðist seinast þegar ég fór. Þá flaug ég Köben - Keflavík - San Fransiskó, og seinasti hluti ferðarinnar var bara 8 tímar, og það var grútleiðinlegt. Fyrir utan það að ég verð rugluð af því að sitja kyrr svona lengi og fæ auk þess strengi og harðlífi. Og svo fara a.m.k. þrír dagar í að jafna sig af tímamuninum. Nei, svei mér þá. Ég held að það sé best að ég taki mér góðan lúr einhvern tíma á morgun og haldi mér vakandi. Það er eina ráðið. Ef þið lesendur hafið mikla reynslu af löngum flugferðum og hafið einhver góð ráð, endilega komið með þau, sérstaklega ef ykkur finnst ég hafa tekið kolranga ákvörðun í þessu máli.

mánudagur, janúar 08, 2007

Smá uppfærsla á mínum högum. Líf mitt og athafnir virðast að jöfnu hulin nokkurri móðu fyrir fjölskyldu, vinum og kunningjum, og það er svosem ekkert að undra, enda yfirleitt heilmikið í gangi hjá mér. Því ætla ég að uddybe dette nærmere, eins og Danir segja:

Skóli
Nú er ég á fyrsta ári í meistaranámi í rússnesku, og reikna með að ljúka námi eftir eitt og hálft ár, s.s. þrjár eða fjórar annir.

Vinna
30.desember síðastliðinn tók ég mína seinustu vakt í umönnun aldraðra og ætla að aldrei að vinna við það meir. Þar með lauk 7 ára starfsframa í þeim bransa.
Á seinustu haustönn byrjaði ég að kenna rússnesku við DIS (Danmarks Internationale Studieprogram), þar sem ég áður vann sem Teaching Assistant. Þar kynntist ég einmitt kærastanum mínum, sem var í námi þar á seinasta ári. Á þessari önn verð ég áfram að kenna, og byrja líka að vinna fyrir Akademisk Rejsebureau. AR sérhæfir sig í ferðum til Rússlands og Úkraínu. AR er rekið af Jon Kyst og Thomas Köhler, Jon Kyst er einn af kennurunum í skólanum mínum og ég hef verið að vinna heilmikið fyrir og með honum undanfarin ár, sem Teaching Assistant og við uppbyggingu þessarar ferðaskrifstofu.

Annað
Kærastinn minn býr í Ameríku. Á laugardaginn fer ég að heimsækja hann í tvær vikur. Ég hef verið talsvert viðriðin félagslíf í skólanum og ætla að halda því áfram. Ég ætla að koma til Íslands í vor eða sumar. Ég er alveg löööngu hætt að vera grænmetisæta en hinsvegar verð ég alltaf femínisti.

Er þetta ekki bara allt í bili?

sunnudagur, janúar 07, 2007

Steinarnir eru strengir,
strengina vatnið knýr.
Gaman það væri að vita,
hvað í vatnsins huga býr.
Hvaðan skyldi það koma,
og hvert er heitið þess ferð?
Síðan af völdum söngsins
samferða því ég verð...
Tralalala, lalalalalalala, traralalalalalalala.

Steinarnir eru strengir,
strengina vatnið knýr.
Gaman það væri að vita,
hvað í vatnsins huga býr.
Lyngið á líka strengi,
leikurinn blærinn á þá.
Söngvar sorgar og gleði,
sem í sálum kveikja þrá.
Vorljóð draums og vona
veröldin syngur öll,
berast síðan með blænum,
burt yfir hæstu fjöll (burt yfir hæstu fjöll).

Tralalala, traralalalalalala, trararalalalalala, traralalalalalala.

föstudagur, janúar 05, 2007

Ég er alveg standandi hissa á því hvað ég virðist vera lunkin í þýskunni, þrátt fyrir að hafa haldið því fram í mörg ár að ég kunni sko "ekkert" í þessu máli. Nú var ég í Þýskalandi á dögunum og skildi þar flest sem fram fór. Einnig tókst mér að kaupa stígvél (fyrir 30 evrur, notabene!) og velja stoðinnlegg í stað ullarinnleggja ganz aleine, sem og ýmis annað smádót. Nú er ég að lesa Die Russische Sprache der Gegenwarte eftir málfræðinginn Isachenko, s.s. rússnesk málfræði og málvísindi - Á ÞÝSKU! Já, ef hann Þorvarður vissi þetta nú. Hann yrði sko alveg lens. Eg er sjálf sehr lens.

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Hrikalega eru Heath Ledger og Andri Guðmunds líkir. Nú er ég er loksins búin að sjá Brokeback Mountain og það er hálfóhugnalegt hvað þeir líkjast hvorum öðrum.