blog... the modern person's cry for attention

þriðjudagur, maí 29, 2007


Ó hlæhlæ. Kannski hef ég sett þessa mynd hér inn áður. En hún er bara svo frábær. Myndin er tekin á Hróarskeldu á seinasta ári. Við Anna vorum vel í því um miðjan dag og stungum okkur inn í tjald til að bragða á bokkunni og ná í meira heitt hvítvín. Við tókum þessa mynd og kíktum svo strax á hana, og Anna segir: "Guð, og hér er ég með einhvern hatt!" Hatt! Hvaða hatt, fyrir augnabliki var hún ekki með neinn hatt og hvaðan ætti hatturinn að koma? Það rétta er auðvitað að þarna er flugnanetið að þvælast, en mér finnst bara svo stórkostlegt að það sé hægt að gleyma þvi á minna en tíu sekúndum að maður sé ekki með neinn hatt. Svo er bokkan í miðjunni og púkasvipurinn á mér, sem gægist þarna með eitt auga, bara einum of fyndið.

mánudagur, maí 28, 2007

Frammistaða dagsins

Einkunn dagsins: 11 fyrir 35 blaðsíðna ritgerð um rússnesku sagnirnar chatitsa og juzat, sem eru fengnar að láni úr ensku, nánar tiltekið frá sögnunum to chat og to use. Ritgerðin fjallar um mismunandi notkun chatitsa og juzat, og mismunandi merkingar þeirra eftir forskeyti og viðskeyti (præfiks og suffiks). Og nú langar mig alveg rosalega í hamborgara.

Viðburðaríkir dagar undanfarið. Í dag fór ég í eróbikk í fyrsta sinn síðan ég var 13 ára og illa þjökuð af skorti á sjálfstrausti, líkamsstyrk og svo sjálfsagt undir einhverjum áhrifum heilaskaðans fræga. Í þá daga fannst mér þetta vonlaust og óskiljanlegt, en í dag gekk þetta bara vel og ég var eiginlega hálfhissa á hvað þetta var létt. Er enn að spá hvort þetta hafi kannski verið sérstaklega léttur tími. Svo hjólaði ég heim og náði mér í frokostpizza á leiðinni, enda orðið nokkuð siðan ég hef fengið mér svoleiðis. Eftir að hafa mokað henni upp í mig á methraða, sofnaði ég útfrá þætti um þríbura og fjórbura á National Geographic, og vaknaði tveim tímum síðar með deigklump í maganum, vont bragð í munni og illt í höfði. Held ég haldi mig bara við kjarnafæðið héðan af.

Á föstudaginn fór ég svo á karnevalið með Ditte, Annemette og Uffe. Það var með sama brag og venjulega, dansað og drukkið fram á nótt þar til okkur hafði tekist að vingast við nokkra Afríkana (sama dagskrá og í fyrra), og tekist að losa okkur við þá á ný. Þá fórum við á Moose. Já, ég sá greinilega af hverju ég var hætt að sækja þennan stað. Langflestir gestirnir voru um tvítugt og flestallir með greddublik í augum að skima eftir hentugri bráð. Þeir sem ekki voru um tvítugt voru með sama blik í augum. Ég nennti ekki einu sinni að klára bjórinn minn og hjólaði heim, en Annemette og Uffe urðu eftir. Mér fannst ég bæði vera of gömul og og of mikið á föstu til að vera þarna.

Jæja, svo er ég búin að fatta að ég er nærri búin að lesa allt sem ég þarf að lesa (næstum því) fyrir þetta eina próf í júní. Spurning um að lesa það þá bara aftur, eða hvað segið þið? Ég gæti líka byrjað að lesa rússnesku málfræðina og setningafræðina, eða sögu, eins og ég hafði hugsað mér að gera í sumar. Ég veit ekki hvernig maður fer að því að hafa svona lítið að gera.

miðvikudagur, maí 23, 2007

Er íslenska þjóðin einsleit?

Áðan var ég að skoða heimasíðu Ungfrú Íslands, veit svosem ekki af hverju. Keppendurnir líta nákvæmlega út eins og keppendur seinustu ára, og nöfnin virðast líka vera þau sömu. Mér hefur reyndar oft fundist Íslendingar vera upp til hópa sviplíkir, og það er til sérstakt íslenskt útlit, þó að það sé fjarri lagi að allir Íslendingar beri þetta útlit. Hvað finnst ykkur? Finnst ykkur þjóð vor vera einsleit að sjá?

Hæ hó ég hlakka til

...að fara á karneval í Fælledparken á föstudaginn. Vissulega ekkert í samanburði við það skrall sem Hallgerður systir mín fór á í Rio de Janeiro, en skemmtilegt er það engu að síður.

sunnudagur, maí 20, 2007

Konur á okkar aldri

Yfirskrift þessarar færslu vísar til orða sem við Single 2000 píur létum okkur títt um munn fara í hinni svonefndu Bonsuferð. Mikið var talað um ýmis einkenni aldurs okkar, hvaða takmörk aldurinn setti okkur í klæðaburði, hegðun, háttatíma og þar fram eftir götunum. Þetta var nú í mestu í gríni enda engin af okkur eldri en 28, að því að ég best veit. En í dag tók ég eftir nokkru á sjálfri mér, sem mér líst hreinlega ekkert á, og sýnist á öllu að dæma að það sé hinn margumræddi aldur, sem hér hefur látið til skarar skríða.


Ég var semsagt í stuttu sólbaði í dag. Þar sem ég sat og virti fyrir mér hvíta leggi mína (fokk jú, Dove Summer Glow), tók ég eftir því að á þessum fölu leggjum var allt í einu komið fullt af litlum rauðum og fjólubláum háræðum eins og kóngulóarvefjum í hornum. Um leið tók ég eftir að í gegnum gráhvíta húðina lýstu bláæðar á móti mér, eins og lík undir frosinni tjörn! Ég hringdi strax í mömmu og hún sagði að við mikla líkamsrækt, sér í lagi lyftingar og aðrar styrktaraukandi æfingar (sem ég er búin að vera að snappa í undanfarið), yrðu bláæðarnar yfirleitt sýnilegri, sem þætti afar aðlaðandi á karlmönnum. Háræðarnar væru hins vegar óumflýjanleg aldursmerki. Ég benti henni á að nokk væru aldursmerki óhjákvæmileg, en hinsvegar væri ég ekki karlmaður, heldur kona og kærði mig ekki um að bera karlmannleg útlitseinkenni, hversu aðlaðandi sem þau kynnu að vera. Hún bað mig þá í guðanna bænum um að hætta ekki að hreyfa mig, sem mér myndi nú aldrei koma til hugar.
Mig grunar reyndar að þessi æðaberleiki sé að einhverju leyti í ættinni, segi ekki meira um það. En mér finnst þetta nú ekki skemmtilegt. Það er nú ekki mikið fútt í því að vera í góðu formi og kjörþyngd og hvad ved jeg, ef maður er allur í bláæðum og háræðum eins og hvert annað landakort? Ja ég segi bara svona.

föstudagur, maí 18, 2007

Hjálpi mér nú allir heilagir sem óheilagir. Almáttugur hvað það er leiðinlegt að læra fyrir próf. Ég er nýbyrjuð á því og strax komin með viðbjóð á því.

Aðrir hlutir sem ég er komin með leið á:

1. Vorveður sem lætur eins og það sé haustveður. ARG!
2. Brúnkukrem sem virka ekki. Nú er ég búin að nota Dove's Summer Glow nærri daglega í tvær vikur. Fótleggir mínir eru orðnir létt gulbleikir (voru áður grábláir), og einhver smá gyllt slikja á framhandleggjunum (sem ég held að engir aðrir nema ég sjái), en restin af mér, andlitið þar með talið, er nákvæmlega jafn grábláhvítt og áður. Þetta er í seinasta sinn sem ég prófa þetta helvítis drasl.
3. Að vera alltaf alveg hrikalega hvít. Nátengt liði nr.2. Mér fyndist þetta ekki jafn pirrandi ef að ég byggi á Íslandi, þar sem allir eru hvítir og veðrið hvort sem er alltaf vont. En Danir virðast hafa tíu sinnum meira litarefni í húðinni en við, og maður verður eitthvað svo sjúklegur að sjá svona náfölur um hásumar.
4. Að eyða tíma mínum í hangs á netinu og fyrir framan sjónvarpið (held ég hafi minnst á þetta áður).

O, mig langar mest að gefa skít í allt, panta mér pizzu og flippa geðveikt út.

miðvikudagur, maí 16, 2007

Það er alltaf dulítil kisa, gulbröndótt og bústin, að sniglast fyrir utan húsið sem ég bý í. Þegar maður kemur út á morgnana situr hún gjarnan á bílastæðinu og kemur hleypur hún mjálmandi á móti manni (ég er nokkuð viss um að hún hafi ekkert sérstakt dálæti á mér, ég held að hún sé bara mannagæla) og vill láta klappa sér og klóra. Fyrir einmana kvensur eins og mig, sem engar kisur eiga til að knúsa, og bara kærasta í úgglöndum, er þetta dásamlegur lúxus sem ég tek ævinlega fagnandi hendi. Í morgun lá hún og hringaði sig í sólargeislanum við aðalinnganginn. Mig langar stundum til að bjóða henni inn og gefa henni túnfisk eða þorskshrogn, en það er sjálfsagt ekkert sniðugt. Það myndi bara valda misskilningi.

sunnudagur, maí 13, 2007

Hjólalykillinn fundinn.

laugardagur, maí 12, 2007

Vaknaði í morgun með leiðindatilfinningu í maganum og langaði mest til að liggja undir sæng allan daginn. Svona eru nú misjafnir dagarnir mínir. Ég reif mig þó á lappir með það í huga að fara í ræktina, en þegar ég ætlaði að leggja af stað kom í ljós að hjólalykillinn minn fannst hvergi. Ég hef svosem alltaf vitað síðan ég fyrst fékk þennan lykil í hendur, að hann myndi týnast á endanum. Nú er því ekki um annað að ræða en að útvega klippitöng og klippa á lásinn, þannig að ef einhver sem býr hér í Köben les þetta og býr yfir slíku tæki, þá er síminn minn 40 52 63 77. Ég komst því ekki í ræktina og fór í staðinn að taka til við ljúfan undirleik Shakiru og er ekki frá því að ég sé í betra skapi núna.

fimmtudagur, maí 10, 2007

Veðrið er ömurlegt og mig dreymdi illa í nótt. Hinsvegar kætti þetta mitt litla auma hjarta.

miðvikudagur, maí 09, 2007

Ég er að missa mig í ræktinni, en ó, það er svo gaman.

þriðjudagur, maí 08, 2007

Eins og hún mamma mín veit, sennilega betur en allir aðrir, þá er mér ansi hætt við að sökkva mér í áhyggjur af hinu og þessu, og velta mér upp úr því þar til ég er gráti nær af örvæntingu yfir einhverju sem er ekki búið að gerast og alls óvíst að gerist. Á slíkum stundum hef ég einmitt oft hringt í múttu og spurt hversu miklar líkurnar séu á hinum yfirvofandi heimsendi og hvað skuli til bragðs taka, ef svo fari. Sérstaklega hefur Lánasjóður Íslenskra Námsmanna farið mikinn í mínum áhyggjuheimi, og ófáar næturnar sem ég hef bylt mér og engst af hugarkvölum yfir því sem ég hef talið að bákn þetta ætli nú að vega að mér með. Nýlega fóru þankar varðandi einingar þessarar annar, námslán næstu annar og yfirdrátt í banka, að láta á sér kræla í hugarskoti mínu. Fyrst fór ég smá paník og var ekki lengi að úthugsa neyðaráætlun. Svo fór ég að hugsa um hvað það væri eiginlega asnalegt að ég væri að eyða tíma og orku í að spá í þessu, þegar ég vissi í raun alls ekkert um hvað framtíðin bæri í skauti sér. Það rann upp fyrir mér að þó að það, sem ég óttaðist mest og var að hrella mig á, yrði að veruleika, þá myndi ég komast fram úr því einhvern veginn. Því ýmsu misjöfnu hef ég nú lent í á lífsleiðinni, en hér er ég enn. Í heilu lagi og nokkurn veginn heil á geði. Og ég er bara nokkuð ánægð með að hafa unnið bug á þessum áhyggjupúka, a.m.k. í þetta sinn. Maður ræður víst litlu um sín örlög, það er nokkuð víst, og því sjálfsagt best að vera ekki að pína sig að óþörfu. Það held ég nú.

sunnudagur, maí 06, 2007

Var að koma heim frá Álaborg og sit nú við skjáinn og bíð þess að unnustinn birtist onlæn, eins og sagt er. Hvað var ég að gera í Álaborg, spyrjið þið kannski, en ég átti erindi þangað ásamt Önnu Heru og vinkonum hennar að hlusta á hana Beyoncé Knowles, ofurdívu og fegurstu konu í heimi. Við tókum lestina til Álaborgar og var það í fyrsta sinn sem ég hef komið þangað, síðan ég fór í frí til Danmerkur með mömmu og Óskari sumarið 1988 eða 1989, og við heimsóttum Kollu vinkonu mömmu þar. Helstu minningar mínar frá þeirri ferð er að hafa leikið við maura sem skriðu um á malbikinu, borið einhvern fimm ára gamlan Emil um á hestbaki og svo að hafa skvett kakói á vegginn hjá Kollu.

Í þetta sinn var hins vegar annað uppi á teningnum, enda ég orðin nærri tuttugu árum eldri síðan seinast. Álaborg reyndist vera fallegur bær með gömlum húsum og fleiri kirkjum en gengur og gerist í dönskum smábæjum. Mér fannst bærinn almennt vera meira spennandi og betur skipulagður en flestir danskir bæjir af svipaðri stærð, sem eru yfirleitt frekar keimlíkir. Mér kom líka á óvart hvað náttúran á Jótlandi var falleg, og naut góðs af útsýninu bæði á útleið og heimleið. Á föstudeginum kíktum við á Svallvallagötu, öðru nafni Jomfru Ane Gade, sem er helsta djammgatan í Álaborg. Þetta var nú aðeins öðruvísi en Köben, get ég sagt ykkur. Strákarnir (sem virtust vera í yfirgnæfandi meirihluta og þar með glápt og hújað og hæað hvar sem við fórum) voru allir annað hvort tsjokkógaurar með aflitað gelhár og gulbrúnir á litinn, eða skuggalegar týpur með hálf austurevrópsku yfirbragði. Ég hafði orð á því að það væri nú eins gott að maður var ekki að fara á veiðar þarna, því í fyrsta lagi var úrvalið ekki neitt til að hrópa húrra fyrir, og í öðru lagi virtist þetta vera svo lítill staður að líklega myndi maður rekast á bráðina daginn eftir í Nettó. Þessu til staðfestingar tókum við eftir að ungur maður í rauðri peysu, sem var dauðadrukkinn inni á einum barnum sem við komum við á, mætti fremur niðurlútur í morgunmatinn á hótelinu daginn eftir, en við vorum vissar um að hann væri heimamaður.
Jæja, hvað um það, aðalástæða þessa ferðalags var nú hún Bonsa okkar og laugardagurinn fór að mestu í ráf um miðbæjinn í leit að glingri til að fullkomna lúkkið um kvöldið. Ég hafði keypt mér svarthvítan kjól fyrr í vikunni og var í honum og rauðum háhæluðum skóm við með liðað hár og rauðar varir eins og sönn filmstjarna. Svo skáluðum við í freyðivíni og drifum okkur af stað. Eftir að hafa biðið góða stund í röð komumst við inn, og á meðan mannfjöldinn beið eftir að frúin stigi á stokk, vildi svo skemmtilega til að TV2 News kom auga á okkur (og okkar stjernepotentiale, vil ég meina), og tók viðtal við okkur. Ég veit ekki hvort að það kom svo í sjónvarpinu en ég vona það og bíð nú eftir að stjórnendur sjónvarpsstöðva fari að hringja og bjóða mér einhverja skemmtilega vinnu. Það myndi eiga svo vel við mig að vera í sjónvarpi, það get ég sagt ykkur!
Svo kom loksins að því sem við höfðum beðið eftir í meira en hálft ár. Stúlkan með gullröddina og hnetulitaða álfakroppinn birtist á sviðinu íklædd silfurlituðum kjól og í fylgd hljómsveitar sem einungis var skipuð konum. Girlpower segi ég nú bara, svona á þetta að vera! Í tvo og hálfan tíma tryllti hún svo lýðinn og undirritaða með ólýsanlegri sýningu. Oft hefur maður t.d. hugsað "nei, þetta fólk er ekkert svona fallegt í alvörunni, það er bara búið að fótósjoppa það", en það virtist enginn endir vera á því velskapaða, fríða og kynþokkafulla fólki sem söng þarna og dansaði eins og heimsendir væri í nánd. Beyoncé sjálf var eins og draumur, og ég tek undir orð Ingibjargar systur, hún er svo falleg að mann langar bara til að giftast henni. Og þvílíkur performer, þvílíkt úthald, þvílíkir hæfileikar! Það besta var að hún gaf sig alla í þetta, það skapaðist nánd milli hennar og áhorfenda sem maður á ekkert endilega von á þegar Hollywoodstjarna á í hlut. Margfalt húrra fyrir henni segi ég nú bara. Ef ég var aðdáandi áður en ég fór á þessa tónleika, þá er ég núna auðmjúkur þræll.

þriðjudagur, maí 01, 2007

Síðan að ég eignaðist fartölvu og fékk nettengingu hér í koti mínu, hefur gríðarlegur partur minns frítíma (og tíma sem átti að verja í vinnu eða nám) farið í að halda sambandi við vini og fjölskyldu á öldum ljósvakans. Það líður vart dagur án þess að ég eyði ekki amk einum eða tveimur klukkustundum í að tala við fólk á netinu. Oft er það til að ræða nauðsynlega hluti eða fyrirliggjandi plön, og ég get engan veginn komist af án þess að tala við kærastann í a.m.k. tuttugu mínútur á dag. Þar að auki koma til regluleg samtöl við mömmu, Ingibjörgu og svo af og til við pabba og Steffi. Þessi samtöl eru nauðsynleg og af hinu góða. Svo tala ég oft við vini mína á msn. Það er í sjálfu sér heldur ekki slæmt, frekar gott. Það skrýtna er að samskipti mín við suma af þessum vinum fara nærri einungis fram á msn, þó að þeir búi hér í Kaupmannahöfn eða jafnvel á Amager. Af og til tala ég m.a.s. við Joe og Thomas á msn, og þeir búa á sömu hæð í sama húsi og ég.
Til hvers mun þetta leiða, ég bara spyr? Í kvöld leiddist mér til dæmis. Ég hefði getað farið fram í eldhús og athugað hvort að þar væri selskap að fá. Þá hefði ég þurft að þvo tannkremið af hökunni á mér og setja linsurnar í augun. Ég hefði getað hringt í einhvern af vinum mínum, og spurt hvort hann/hún vildi hittast. Það er alltof mikið vesen, og hér í landi er ekki siður að vera að þvælast út eftir að maður er kominn heim til sín og kominn í ró. Hvað þá á einhvern óforvarandis þvæling. Því greip ég á það ráð, eftir að hafa lesið grein um samanburð á ritstíl og veraldarsýn Tékhovs og Dovlatovs, að kveikja á sjónvarpinu og skrá mig inn á msn. Og blaðra um stund við mann og annan. Þannig leið seinni hluti kveldsins og nú er að koma háttatími. Mikið er hægt að koma tíma sínum í lóg á stórkostlega einfaldan hátt, algerlega án þess að það leiði til nokkurs af neinni þýðingu. Ég stefni á að gerast betri manneskja sem fyrst.