blog... the modern person's cry for attention

miðvikudagur, júní 29, 2005

OJ hvað ég nenni ekki að brjóta saman og hengja upp fjörutiu og átta kíló af þvotti sem liggja hér á víð og dreif. En hjá því verður víst ekki komist, því ekki hengja spjarirnar sig upp sjálfar. Allir þeir sem hafa upplifað noget lignende rétti upp hönd.

þriðjudagur, júní 28, 2005

Jæja, þá eru bara tveir dagar eftir í vinnunni fram að fríi. Er í þessu á leiðinni á Hróa að setja upp tjaldið, og svo mætum við eldhress til leiks á fimmtudaginn. Maggi!! Hef reyndar aldrei verið eins áhugalítil um þær hljómsveitir sem býðst að hlusta á (já, ég komst aldrei inn í SonicYouth fílinginn og sé það ei gerast héðan af), stefni fyrst og fremst á að slappa af og uppgötva eitthvað nýtt. Og selja nokkra íspinna, auðvitað. Veðurspáin lítur mjög vel út, svo þetta ætti að verða ágætt.

sunnudagur, júní 26, 2005

Danir taka upp hvalveiðar að nýju

Mesta mildi þykir að ekki fór verr, þegar tveir svitablautir og rauðflekkóttir hvalir urðu fyrir endurteknum árásum grameðla á skemmtistaðnum Vega aðfaranótt sunnudags. Hart var sótt að hvölunum úr öllum áttum, og sáu hvalirnir sér ekki annað fært en að leggja á flótta með úfið hár, maskara úti á kinn og tilheyrandi bægslagangi. Hvalirnir sáust seinast á hlaupum í átt að næsta pítsustað, og ekki er vitað annað en að þeir hafi komist óskaddaðir til síns heima. Talið er að grameðlurnar hafi verið af pakistönsku, tyrknesku og indversku bergi brotnar.

föstudagur, júní 24, 2005

Var rétt í þessu að eyðileggja heimilissímann, svo það er ekki hægt að ná í mig í heimanúmerið um óvissa framtíð.

fimmtudagur, júní 23, 2005

Sumarið er tíminn

Sumarið er stórkostlegt, sérstaklega þegar sólin bakar hið flata land við Eystrasalt. Því miður er einn hængur á því fyrir mitt leyti, og það er að hér í landi verða allir kaffibrúnir um leið og sólin lætur glitta í annað augað. Ég má hinsvegar væflast um með grábláa húð, gult heyhár, rautt nef og bauga undir augum - langt fram eftir öllu sumri. Rétt undir lokin er ég farin að líkjast meðborgurum mínum. Mér líkar þetta ei.

þriðjudagur, júní 21, 2005

Í gær meldaði ég mig veika í vinnuna og lét Miguel styðja mig um í samgöngutækjum borgarinnar, þar til við komumst til Kiropraktorklinikken á Österbro. Þar fór myndarmaður um mig höndum og rétti úr skökkum liðum og hnoðaði bólgur og hnúta. Fyrir þetta mátti ég borga offjár, en svei mér þá hvort það var ekki bara þess virði. Í dag fór ég svo til kvensó og aftur til kíró á fimmtudaginn, hver veit nema maður skelli sér í aurahealing á laugardaginn?

sunnudagur, júní 19, 2005

Miguel er að búa til late night dinner, klukkan orðin níu. Það var nú reyndar hinn venjulegi kvöldmatartími á æskuheimili mínu og ég var yfirleitt mjög pirruð á því. Enda borða ég alltaf sjálf um sjö eða átta. En svona eru þessir Spánverjar afslappaðir, hann er hér á stuttbuxum og sandölum að borða nammi, hrista kartöflur á pönnu og segja mierda við litla eldhúsið mitt. Hann er reyndar ekkert svo afslappaður einmitt núna...

Sjálf ligg ég í lamasessi og fer ekki í vinnuna á morgun, liggur við að það þyrfti að panta hjemmehjælp handa mér líka. Það er nefnilega e-ð að bakinu á mér og mér finnst ekkert mjög þægilegt að hreyfa mig of mikið. Fer til læknis á morgun.

sunnudagur, júní 12, 2005

Úff, sykursjokk dauðans. Hef eytt deginum í bröns, nammiát og endalaust blaður með Önnu, Sigrúnu, Brynhildi ofurkrútti og Pawel. Þvi miður eru Sigrún og Erling að fara að flytja aftur til Íslands, og það sem enn verra er, þau taka Brynhildi með sér... Sú litla var alveg að trylla lýðinn á hinu meget hyggelig kaffihúsi Cup Cake, þar sem við stöllurnar gæddum okkur á dýrindis bröns fyrir slikk. Þar er einnig boðið upp á ódýra kokteila, svo aldrei að vita nema maður líti þangað inn aftur. Annars vorum við Pawel að sulla í fernurauðvíni hér um miðjan dag (mér finnst reyndar alltaf að við séum nákvæmlega eins og foreldrar okkar þegar Brynhildur er með, og þetta styrkti þá tilfinningu enn frekar), en ég tók mér tak eftir annað glas og ákvað að vera við meðvitund það sem eftir lifði dags.


Á morgun rennur (kannski) upp örlagastund. Nú hefur komið upp sú staða, að við Tjúkotkafarar fengum ekki alla þá styrki sem við áttum von á, og fjárhagsáætlun ferðarinnar verulega skekkst. Þess vegna getum við ekki öll farið...daradada.... Er reyndar búin að hugsa þetta í gegn, og ef ég fer ekki með, þá er það líka allt í lagi. Vissulega myndi ég missa af mjög flottri starfsreynslu, en þá gæti ég líka haldið áfram í skólanum á aðeins streituminna plani, og þá er líka aldrei að vita nema að ég kíki á Frónið í lok sumars. Ef svo fer, verður unnustinn auðvitað tekinn með. Svo við bíðum spennt...og þið líka auðvitað.

laugardagur, júní 11, 2005

Og heit voru gefin...

Á fimmtudaginn settum við Miguel upp hringana. Það er að segja, hann gaf mér silfurhring með sjö glitrandi steinum og kvaðst vilja elska mig að eilífu. Í dag keypti ég silfurarmband, sem ég ætla að gefa honum í kvöld, og nú erum við trúlofuð.

fimmtudagur, júní 09, 2005

Af og til koma dagar þar sem er næstum hægt að gleyma öllum hinum rigningardögunum. Í dag var svoleiðis dagur, við Miguel höfðum þó ofmetið hið danska sumar um of og ákváðum að skella okkur í sundsprett á Íslands Bryggju. Skemmst er frá því að segja að við tókum u.þ.b. tíu sundtök hver og stukkum svo skrækjandi af kulda upp úr, enda vatnið ekki meira en 15 gráður. Ég íhuga æ meir og meir að flytja til Spánar.

miðvikudagur, júní 08, 2005

Mikið andleysi hrjáir mig þessa dagana, ég er helst upptekin af praktískum hlutum eins og fjármálum. Á morgun þarf ég að senda skuldabréf og borga af tölvunni, og svo verð ég að fara að útvega mér tryggingu á vélina. Svo væri eflaust ekkert vitlaust að hætta að eyða svona miklum pening í drasl, og temja sér sparnað. Ekki það að ég sé mikil eyðslukló, en mér finnst ég ekki hafa farið nógu vel með peningana mína síðan um áramótin. Lífið kallar bara á svo mikil útgjöld, sérstaklega ef maður lifir í kapitalista-efnishyggjuheimi eins og ég. Sama hversu ég vildi óska að ég væri svo andlega sinnuð að mig langaði aldrei í ný föt, skó, geisladiska, snyrtivörur, heimilisdót og góðan mat, þá mun það sjálfsagt seint gerast.

föstudagur, júní 03, 2005

Er ekki viss nema að ég sé að verða kontrólfrík. Ég sem hélt að ég væri svo innilega afslöppuð og kontróllaus, en svo er ekki. Ég er nefnilega farin að taka eftir að ég pirrast ógeðslega ef það fer ekki allt eftir mínum áætlunum og tímaplönum. Kannski maður skelli sér bara aftur í þerapíu til að reyna að laga þetta.

Eníveis, Eilis er komin í heimsókn og í dag heimsóttum við Tönju og Christian og þeirra búlduleita barn. Svo tókum við strætó til Dragör og fórum á ruslaralegan markað og keyptum gamalt drasl og borðuðum fitugar núðlur. Við ætluðum að fara til Dragörbæjar og rölta þar um lítil vinaleg stræti og fá okkur sildemad á huggulegri krá, en svo langt komumst við aldrei. Núna er Miguel að búa til lasönju og Eilis að smyrja á sig brúnkukremi inni á baði, og allt stefnir í ofdrykkju í kvöld. Ja svei.

fimmtudagur, júní 02, 2005

Margt er sér til gamans gert, en því miður virðist stór hópur fólks hreinlega vera að morkna úr leiðindum og tilgangslausu nöldri. Takið sérstaklega eftir innlegginu sem þessi "þarfa" umræða hefst á.

Jæja, svona til að bæta á óþarfa mal og tuð, get ég sagt ykkur það að það er ÖMURLEGT veður í Kaupmannahöfn, það er bóla á hökunni á mér, Eilis er að koma í kvöld frá London og ég er undirlögð af leti. Og mér dettur ekki neitt skemmtilegt í hug. Jú, ný sería af Bráðavaktinni byrjar í kvöld, jei!