blog... the modern person's cry for attention

þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Þreytt er ég bæði, þyrst og svöng, eins og geitin sagði í sögunni hennar ömmu. Því miður gefst mér ekki færi á að hlaupa dægrin löng, annars myndi ég svo sannarlega gera það. Þetta kyrrsetu-skrifstofublókarlíf er að fara með mig. Í gær fór ég hreinlega í vont skap af hreyfingarleysi, og varð mjög pirruð út í allt og alla. En svo fór ég að sjá Bridget Jones um kvöldið og gladdist á ný. Elsku andhetjan mín hún Bridget. Knúsímúsknús!!!!

Mér til mikillar gleði og ánægju (eða hitt þó heldur) hef ég komist að því að ég mun eigi eyða öllu jólafríinu í sundlaugum Reykjavíkur/göngutúrum/faðmi fjölskyldu og vina, heldur mun mikill hluti þess fara í að undirbúa og skrifa kúka málvísindaritgerð, sem mér skilst að eigi að vera 10 bls og á að skila 5.janúar. Hvílík grimmd og vægðarleysi. Ég sem hélt að ég ætti ekki að skila henni fyrr en 15.janúar.

En allavegana, sökum þessarar ritgerðartruntu sé ég mig tilneydda að tilkynna fjölskyldu og vinum að:
a) ég mun að öllum líkindum þurfa að eyða frekar miklum tíma í þessa ritsmíð og undirbúning hennar. Hér er um líf og dauða að ræða, you see. Eða a.m.k. Lánasjóð íslenskra námsmanna.
b) þar afleiðandi er ekki ráðlegt að búast við miklum tilþrifum af minni hálfu varðandi eldamennsku á jólunum...eða aðra daga yfirleitt.
c)sennilegast muni ég ekki hafa eins mikinn tíma fyrir hitting eins og ég hafði vonað. Óþolandi en satt. Mun þó gera mitt besta.

Svona er líf námsmanna. Aldrei, aldrei, aldrei frí.

laugardagur, nóvember 27, 2004

Miklar hræringar í málum innflytjenda í Danmörku þessa dagana. Mér finnst alltaf svolítið erfitt að ákveða hvað mér eigi að finnast um þetta, þar sem að ég er sjálf innflytjandi en telst ekki til vandamálainnflytjendanna. Reyndar myndi ég segja að mig mætti telja einn af best integrereruðu innflytjendunum í Danmörku. Svo er alltaf svolítið erfitt að vera bæði politically correct og jafnframt reyna að fatta hvað er satt og hvað eru ýkjur eða hreinar lygar í blöðunum.

Persónulega held ég að Danmörk væri leiðinlegri ef engir væru innflytjendurnir, en að öðru leyti er ég sammála því að velferðarkerfið getur ekki endalaust tekið við nýjum innflytjendum og ausið úr sínum skálum, sérstaklega þar sem að virkilega mikið af þessu innflutta vinnuafli nýtist ekki sem skyldi og þar af leiðandi taka innflytjendurnir kannski meiri pening úr ríkiskassanum en þeir leggja inn. Danir eru líka sjálfir sökudólgar í þessu, þar sem að það er alþekkt vandamál að innflytjendur eiga erfitt með að fá almennilega vinnu, sérstaklega ef að þeir eru með háskólamenntun. T.d. var ég að vinna á elliheimilinu með Sýrlendingi sem var umhverfisfræðingur og landbúnaðarsérfræðingur að mennt, en var þó öngvu að síður að skeina og skipta á bleyjum á gamlingjum.

Já, það er vandlifað.

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Meiri fréttir

Alltaf gaman að lesa um landann. Sérstaklega þótti mér áhugavert að lesa um hvar hinir kornungu bankastjórar hefðu kynnst hvorum öðrum. Hvorum öðrum, segi ég, því eflaust eru þeir allir karlkyns.

mánudagur, nóvember 22, 2004

Fréttir

Þetta er rosalegt!! Hvert er þessi blessaða tækni á leiðinni, spyr ég!!!!! Innan tíðar verður eigi þörf á að fara út úr húsi...eða yfirleitt opna augun og líta á hvort annað.

Fyrsta barnabarn móður minnar fæddist í gær, sveinbarn, 54 cm og 19 merkur!!!! Ekki veit ég enn nafnið á dengsa (ef það er nokkrum ljóst) og ætla að hringja heim annað kvöld, er ekki með nægan pening á mér fyrir korti í augnablikinu. En nú ætla ég að drulla mér heim og hugsa málið varðandi Meistarann og Margarítu.

Pælingar í hádegishléinu

Ég er ekki frá því að ég sé að breytast í karlmann. Að minnsta kosti þykir mér ég hafa tileinkað mér háttalag sem yfirleitt er kennt við karlkynið frekar en "hið mjúka kyn" (hvaða fífl fann upp á þessu?). Rétt í þessu var sem sagt ungur maður að tilkynna mér að hann dæi úr söknuði ef hann sæi mig ekki daglega. Mér varð fremur hverft við, þar sem ég hef þekkt þennan mann í tíu daga og það hefur tekið mig tíu daga að komast að því að ég er ekki skotin í honum, þó að ég hafi kannski verið það rétt í fyrstu. Ég afgreiddi því þessa yfirlýsingu með flissi og starði sem fastast á gólfteppið.

En hvað um það, ekki er við hann að sakast. Ég held að ég þjáist af "nútímakonueinkenninu" (mér finnst það svosem engin þjáning). Ég tel að þetta einkenni sé að verða nokkuð algengt meðal vestrænna kvenna, mig grunar t.d að hún Helga Þórey sé líka með þetta einkenni.

Ég hef nefnilega tekið eftir því að það er eiginlega ekki pláss fyrir neinn annan í lífi mínu nema sjálfa mig og svo vini mína og fjölskyldu. Ég hef svo margt að gera og stússast að ég hef í raun engan tíma til að vera alltaf límd við annan aðila, og er líka svo vön því að vera ein og hafa mína eigin sérkennilegu siði og venjur að ég finn beinlínis fyrir óhamingju þegar ég get ekki sinnt þeim. Til dæmis get ég fullyrt, að þó að ég hafi nú verið snarvitlaus í hann Ívan gamla og sjálfsagt gengið í sjóinn hefði hann beðið um það, þá fannst mér mjög erfitt að geta ekki lesið bækur á kvöldin,og að þurfa að mörgu leyti að aðlaga mig að dagskrá annarar manneskju. Ivan má nú reyndar eiga það að hann hélt fast í sitt og var erfiður, veit ekki hvort mér finnst verra, þegar karlmenn eru erfiðir eða þegar þeir hanga utan í manni.

Auðvitað væri stundum ágætt að eiga krúttulegan kærasta...En á hinn bóginn fæ ég algert angistarkast þegar ég hugsa um hvernig mitt eigið líf myndi hverfa og víkja fyrir "symbios"tilverunni! Mér finnst nefnilega líf mitt mjög skemmtilegt...eina vandamálið er að vinir manns og vinkonur eignast yfirleitt kærasta eða kærustur og þá fer að fækka í hópi leikfélaga. Hins vegar langar mig mjög mikið til þess að eignast barn og vildi þá gjarnan að faðirinn tæki þátt í uppeldi barnsins, enda fátt sem ég ber minni virðingu fyrir en karlmenn sem sinna ekki börnunum sínum. Kannski kemur þetta allt einhvern tímann?

Kannski er vandamálið það að ég er frekar kröfuhörð og verð yfirleitt aldrei alvöru skotin í neinum, kannski pínu í tvo eða þrjá daga og svo er það liðið hjá, að undantekinni kynferðislegri hrifningu sem getur varað mun lengur, jafnvel í mörg ár. Ég þekki t.d. þó nokkra karlmenn sem ég er í endalausum daðursleik við, hvort sem ég er búin að sofa hjá þeim eða ekki. Hinsvegar myndi ég ekkert frekar vilja vera kærastan þeirra, oft er miklu skemmtilegra að keyra svona daður eins langt og það kemst.

Jæja, ég held að það sé best að ég hætti þessu. Mér sýnist á öllu að ég sé karlmaður með brjóst og píku eða þá ný tegund af konunni, femi modernicus.


Alltaf lærir maður eitthvað nýtt hér í Rússlandi. Og hér í Arkhangelsk hefur svo sannarlega ekki skort á nýjar reynslur.

Hlutir sem ég hafði aldrei séð annars staðar en hér:

- Fátækt fólk að borða upp úr ruslagámum (mér var óglatt í nokkra daga í fyrsta sinn sem ég varð vitni að þessu).

- Fólk að standa í röð við vatnshana (hef nú bara aldrei séð slíkt apparat áður) inni í miðri borg að dæla vatni í fötur.

- Hafís. Hef kannski einhvern tíma séð hann áður en man ekki eftir því.

-Dauðar rottur á gangstéttinni.

-Alvöru rússnesk banja (baðhús).

Upplifanir og vitneskja sem ég hefði átt að vera búin að fatta eða prófa fyrir löngu:

- Að það er frábært og í alla staði nauðsynlegt fyrir líkamann að fara reglulega í bönju. Brennheit gufa, birkivendir og ískalt vatn!!!

- Að tvorog er eiginlega það sama og skyr og ég skil ekki hvað ég var að forðast þetta góðgæti svona lengi.

Hmm...það er örugglega eitthvað meira, en ég man ekki eftir því í augnablikinu. Hér er annars bara allt komið í hinn hefðbundna rússneska vetrargír, 12 stiga frost og fólk dúðað í loðkápur, loðhúfur og ullarsjöl og börnin innpökkuð í yfirgengilega krúttulegar loðhúfur og stígvél úr þæfðri ull.

Fór í rosalega fínan göngutúr með Lísu og Ethan á laugardaginn, tókum rútuna út til lítillar eyju sem heitir Jagri og örkuðum þar með fram ströndinni í fimmtán stiga frosti. Svei mér þá ef snjórinn var ekki frosnari en venjulega því það var eins og allt væri stráð demöntum... Golgrænt hafið bærðist hægt undir léttri ísþekju og himinninn var alveg blár. Ég er ekki frá því að hann Guð hafi sent okkur dálitla kveðju þennan laugardagsmorgunn, því á himninum var regnbogi (sem ég held að gerist ekki mjög oft að vetri til) og undir miðjum regnboganum brann sólin eins og gríðarlegur kyndill.
Það var svo kalt að þegar við tókum af okkur vettlingana til að smellla á myndavélartakkana, þá urðu fingurnir samstundir stífir og aumir af kulda. Ethan tók nokkrar góðar myndir þennan dag á stafræna myndavél, svo ég reikna með að setja þær inn á bloggið, en veit ekki alveg hvenær.
Heihó!

föstudagur, nóvember 19, 2004

Vefheimar

Baugur er kominn með sína löngu fingur til Danmerkur. Hið riðandi stórveldi Magasin du Nord er samkvæmt berlingske.dk kominn í eigu Íslendinga. Veit ekki alveg hvort að þetta er gott eða slæmt. Hefur náttúrulega enga þýðingu fyrir mig persónulega...

Á íslenska læknavefnum komst ég að því að ég þjáist af 0feldi. Ojæja. Eftir svona óskemmtilegar fréttir má alltaf hressa sig með því að lesa nýjustu fréttir þeirra Baggalútarmanna, sem má teljast einn skemmtilegasti og ferskasti fréttaflutningur á Íslandi. Þeim til hróss má fullyrða að þeir séu íslenskri tungu mikil stoð og stytta á þessum seinustu og verstu.

Finnska villidýrið sagði í gær að hann ætlaði að líta við á skrifstofunni fyrir hádegi, en nú er klukkan fimm mínútur gengin í tólf og eigi bólar á honum. Það er ágætt, veit hvort sem er ekki hvað hann þykist eiga órætt við mig.

Annars vil ég benda lesendum á að láta jólablað Vikunnar eigi fram hjá sér fara.

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Seinast þegar ég vissi var bróðursonur minn ekki enn kominn í heiminn og ekki heyrst neitt af áætluðum komutíma hans. Hann átti þó að líta dagsins ljós í seinustu viku og hver veit nema hann sé kominn þegar þetta er ritað. Ingibjörg systir mín hringdi í mig um niðdimma aðfaranótt mánudags og þá var enn ekkert að frétta af stráksa.

Héðan er það að frétta að eftir mánuð nákvæmlega mun ég standa föstum fótum á danskri jörð. Það er vonandi að vinir mínir þekki mig aftur. Í augnablikinu er mér illt í hægri öxlinni (það er að verða daglegt brauð hér við tölvuskjáinn), er að reyna að setja saman kynningu á Íslandi fyrir rússneska viðskiptamenn og konur sem stefna þangað á næsta ári. Ég reikna með að hitta EthanHawke á eftir (rússneskir karlmenn eru svosem alveg jafn óáreiðanlegir og aðrir karlmenn, svo maður veit aldrei). Hann á afmæli í dag. Úti er snjór og u.þ.b. fimm stiga frost og eftir klukkutíma verður orðið aldimmt.

Já, fór á kvöldverðardæmið í gær. Svona dæmi þar sem þurfti að fara í gegnum allan kurteisishjalspakkann við fólk sem ég mun sennilega aldrei hitta aftur, nóg af góðum mat og rússnesku gestgjafarnir reyndu af öllum mætti að fá fólk til að drekka sig fullt, en það gekk fremur illa. Einu gestirnir sem tóku vel í það voru tveir finnskir karlmenn, annar þeirra hét hinu ágæta íslenska nafni Ari og bjó yfir eldheitu augnaráði sem hann sveipaði mig alla á meðan hann sagði frá ævintýralegu lífi sínu sem international studies coordinator. Ég fór mjög hjá mér og fann hvernig roði læddist fram í kinnar mér og eldur kviknaði í iðrum mér er ég virti fyrir mér breiða kjálka hans, há kinnbein og langa fingur...og hér rann upp fyrir mér hvernig væri fyrir mér komið þegar maðurinn kom því að í frásögn sinni að hann hefði verið 16 ára árið 1982. Þarna sat ég eins og hver önnur Samantha og fann fyrir kynferðislegri aðlöðun gagnvart gamalmenni. Mér brá mjög og hugsaði sem svo að nú væri ég sem sagt orðin svo gömul að mér þættu menn í þessum aldursflokki eiga séns. Svo mundi ég eftir því að tvær vinkonur mínar eiga kærasta á aldur við þennan mann og ein þeirra ætlar meira að segja að giftast sínum. Þar að auki væri einungis um að ræða 14 ára aldursmun og um leið og maður er kominn yfir tvítugt fer aldur að skipta minna máli. Svo leit ég á þennan bláókunnuga mann og áttaði mig á að það væri enginn tilgangur í öllum þessum vangaveltum þar sem ég myndi aldrei eiga neitt við þennan mann saman að sælda, kláraði úr glasinu mínu, kvaddi og dreif mig heim í háttinn.

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Æsingur og fjölmiðlafár

Sæl aftur kæra tölva. Nu er ég ekki búin að vera hér á skrifstofunni í fimm daga og nærri komin út úr taktinum.

Opnun sýningarinnar Maja Islandia fór fram þann 12.nóvember klukkan þrjú í Gostiny Dvor safninu hér í Arkhangelsk. Viðstödd var helsta menningar og borgarstjórnarelíta bæjarins sem og fjölmiðlafólk. Hlutverk mitt var að túlka, bæði opnunarræðu Páls Guðjónssonar ljósmyndara og svo að túlka viðtöl. Það er varla hægt að segja annað en að opnunin hafi tekist mjög vel, Páll og Ingibjörg voru algerar stjörnur og Rússarnir alveg að tapa sér yfir þessu fjölhæfa fólki og svo auðvitað fegurð landsins okkar. Mér gekk bara vel að túlka, var auðvitað pínu stressuð og gerði fleiri málvillur en ég geri annars en þetta gekk bara allt ágætlega og svo var tekið þarna örstutt sjónvarpsviðtal við mig þar sem ég fór skyndilega mjög hjá mér og átti erfitt með að koma upp orði, en hóstaði að lokum upp úr mér að Ísland væri einstakt land þar sem mætti sjá miklar andstæður í náttúru sem og í þjóðfélagi eða eitthvað álíka. Svo var ég bara á endalausum hlaupum að túlka viðtöl og mingla, þegar opnuninni loksins lauk voru aðstandendur sýningarinnar orðnar dauðþreyttar og létthífaðar af kampavínsdrykkju. ég fór því snemma í rúmið það kveldið.

Eiginlega er búið að gerast svo margt þessa helgi að ég meika hreinlega ekki að segja frá því öllu, er búin að kynnast fullt af nýju fólki, þ.á.m. danskri stelpu sem var hér í þrjá daga og er frábær, einum sætum ljósmyndara sem er eins og rússneska útgáfan af Ethan Hawke, búin að drekka óhugnalega mikinn bjór, djamma, fara í gönguferð úti í skógi og ....nú er einhvern veginn svo margt að gerast að ég veit ekki hvar á að byrja!!! Jæja, Festival of Northern Languages opnar í dag, ég þarf reyndar ekki a ðfara þangað í dag en fer á opnunarkvöldverðinn í kvöld.

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Fjölmiðlafár

Ég er að leka niður af þreytu!!
Páll ljósmyndari og Ingibjörg konan hans lentu í gær og við erum búin að vera að setja sýninguna upp í allan dag. Þ.e.a.s., þau og starfsmenn safnsins hafa séð mest um það en ég hef aðallega gegnt starfi túlks og ...tja, grúppíu. Þau eru, eins og við er að búast, mikið ágætis fólk og myndasýningin fegurri en mig hefði nokkurn tímann grunað. Myndirnar af okkar ástkæra landi elds og ísa hafa kveikt mikinn söknuð í brjósti mér og aukið mjög á þær vangaveltur um þjóðerniskennd og þrá eftir gamla landinu, sem ég hef verið að veltast með undanfarið hálft ár - og styrkt mig enn fremur í þeirri trú að ekkert sé tilviljunum háð, þetta er allt ákveðið fyrirfram af æðra máttarvaldi. Mér sýnist þetta einmitt vera einn af órannsakanlegum leiðum Guðs og örlaganna...

En svo slegið sé á léttari strengi, hér eru leikar semsagt teknir að æsast mjög, haldinn var fjölmiðlafundur í dag og von á fleiri sjónvarpsstöðum á morgun.
Búið að skrá okkur Ingibjörgu í lagningu kl.10 í fyrramálið svo allt verði pent og prúðmannlegt, og ég fór einmitt í handsnyrtingu í gær af þessu tilefni. Það er ekki laust við nettan stressfiðring af minni hálfu... en það er víst óhjákvæmanlegt! Annað væri víst ekki eðlilegt. Keep your fingers crossed my darlings... Ingibjörg og Páll komu færandi hendi með íslenska tónlist og tvo búálfa og Grýlu, sem við kölluðum First Lady of Iceland, og það má segja að sú víðförla kerla hafi verið stjarna dagsins.

P.S. þess má geta að í gær fékk ég í hendurnar 100 eintök af mínu fyrsta nafnspjaldi með þeirri frökku áletrun "Translator", svo nú get ég dreift því á báða bóga eins og sönn bisnesmenka.


miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Rússkí dzjéntelmén!

Lenti í mjög skemmtilegu í gær. Dina hafði sigað á mig gömlum skólabróður sínum, sem er læknanemi hér í bæ. Hún var reyndar búin að segja mér mjög fyndnar sögur af hreinlætisæði og smámunasemi hans, svo ég vissi ekki alveg við hverju var að búast...en allavega, fór að hitta dengsa og hann reyndist vera fríður ungur maður og séntilmennskan uppmáluð.
Við fórum fyrst á kaffihús og hann stjanaði við mig á alla lund. Mér fannst pínu erfitt að átta mig á hvernig hann leit á þetta stefnumót, hvort þetta væri "date" eða bara socialising, því hann var alltaf að snerta mig svona lauflétt þegar því varð við komið og sat einhvern veginn svo nálægt mér alltaf. En sumir karlmenn eru bara svona, alltaf að klappa manni og smádaðra við mann, .þó að þeir meini kannski ekkert með því. Mér fannst þetta eiginlega bara ágætt, alltaf gaman að svona löguðu og leyfði honum að leiða mig um allt, klæða mig í kápuna og þar fram eftir götunum.

Svo fórum við í keilu með vinum hans og ég ýmist malaði alla eða jarðaði sjálfa mig. Þetta var í fyrsta sinn sem ég spila keilu í lífi mínu svo mér þótti bara vel takast til. Vinir hans voru mjög skemmtilegir og svo fórum við á næturklúbb og dönsuðum þar við housetónlist sem mest við máttum. Ég er alveg að komast inn í þennan rússneska electronics fíling, þó ég myndi sjálfsagt aldrei fara á slíka staði heima. Heim kom ég þó ekki fyrr en hálffimm (!) og er nú í vinnunni að drekka appelsínusafa.

Eitt var reyndar mjög dularfullt við þetta kvöld (sem reyndist ekki vera deit) og það var að Olga og Sergei, vinir Sasha, sem mér sýndust vera afar hamingjusamt og ástfangið par, alltaf að kyssast og knúsast, reyndust svo ekki vera par! Eftir að Olga fór heim hallaði ég mér að Sergei og sagði að þau væru rosalega fallegt par, og að það væri alltaf ánægjulegt að sjá ástfangið fólk. Hann rak upp rokna hlátur og sagðist til allrar hamingju vera einhleypur og að hann myndi brjálast á Olgu innan viku, ef þau væru par. Ég var alveg lens.
Svo er reyndar eitt, sem mér finnst mjög erfitt að venjast og það er þetta með að strákar borgi allt fyrir mann - ég tala nú ekki um ef um er að ræða bláfátæka háskólanema! Að einu leyti er ég hreinlega ekki vön þessu, að öðru leyti finnst mér engin ástæða til að annað fólk sé alltaf að borga fyrir mig þegar ég á minn eigin pening (frá Lánasjóði, híhí). Á hinn bóginn finnst mér það í lagi svona af og til, og allt í lagi svona á fyrsta stefnumóti (þó að þetta hafi ekki verið alvöru deit).
En að öllu leyti var þetta velheppnað kvöld og það sem ég þurfti til að koma mér í gírinn fyrir STP.Ru...

mánudagur, nóvember 01, 2004

Fjórða færslan í dag! Nú fyrst er hægt að fara að tala um leiðindi, ha krakkar?

Nei djók. Sannleikurinn er sá að ég er sennilega að missa vitið af því að sitja í þögninni á þessari skrifstofu. Ekki einu sinni helvítið hann Mikkel getur drullast til að láta vita hvenær má hitta á hann, á föstudag eða mánudag. Svo er Windows Media Player með ógeðslega óþolandi stæla og lætur engan veginn að stjórn. Bæði telur hann að sound card sé missing og svo sé ekkert audio device, að minnsta kosti sé það not working properly. Og ég get með engu móti fengið öll lögin sem krúttið hún litlasystir mín sendi mér, til að spilast. Ef einhver hefur vit á svona löguðu bið ég þann einstakling í nafni manngæsku og náungakærleiks að senda mér leiðbeiningar. Því ekki skildi hann Díma nokkuð í þessu, ónei.

Ákvað að breyta útliti bloggsins. Finnst þetta bleika lúkk helst til of glennulegt, og hvort sem er önnur hver manneskja komin með það. Ég hef því valið mínímalískt dökkblátt template, í stíl við skammdegisdrungann sem hangir yfir okkur hér á norðurslóðum frá klukkan fimm á daginn til klukkan hálfníu á morgnana. Geri ráð fyrir að það fari versnandi.

Dauðyfli norðurhjara

Hvað er að? Af hverju er enginn online á msninu? Og af hverju svarar enginn meilunum mínum? Ég spyr: hafa íslenskir fjölmiðlar virkilega engan áhuga á því að Páll Guðjónsson, framkvæmdastjóri Rauðhóls ehf. og fyrrverandi bæjarstjóri Mosfellsbæjar sé á leiðinni lengst norður í rass til að sýna helfrosnum Rússum myndir af okkar fagra landi? Dæmigert að ég sé ein í vinnunni, með núll að gera nema að reyna að ræða þetta tónlistarvandamál við Dima (sem ég sé einhvern veginn ekki fyrir mér að hann geti leyst frekar enn við) og umheimurinn virðist algerlega hafa gleymt Nordic Council of Ministers Information Office in Arkhangelsk.

Og hvað á ég að fá mér að borða? Hvert á ég að fara? Á ég að fara í a) ógeðslega mötuneytið þar sem fólk stendur í röð eins og lömb á leið til slátrunar og bíður eftir að fá vafasamar grautar og súpuslettur á kámuga diska b) á U Tjosji þar sem fituinnihald annars ágætra pönnukaka er eflaust á við eina BicMac máltíð eða c) á Holstein bar þar sem er ágætis þriggja rétta máltíð (með himinháu kaloríu og fituinnihaldi eins og allt hér) á góðu verði (ágætis hádegistilboð) og mögulega hægt að horfast í augu við sæta strákinn á hækjunum. Hmm. Sé ekki betur en spurningu minni sé svarað.

Drullið ykkur online.

Úti snjóar og snjóar og ég fór í gönguskóna mína í fyrsta sinn í dag, svona í tilefni snjókomunnar.
Elena er í St.Pétursborg á "Director´s Monday" fundunum og ég er ein hér á skrifstofunni...

Um helgina skrifaði ég semsagt þessa blessuðu ritgerð, að mestu leyti á laugardeginum og lauk svo við hana í hendingskasti á sunnudeginum. Á laugardagskvöldinu ákvað ég svo að taka áskorun einhleypingalífsins og athuga hvort það væri mögulegt að fara ein út á galeiðuna. Að vísu voru plön mín ekki meiri en svo en að fá mér að borða einhvers staðar og eina bjórkollu, og sjá hvað gerðist. Keypti ég mér því rússneska Newsweek til að hafa eitthvað að glugga í á meðan ölið skyldi sopið, og svona líka til að líta ekki út eins og desperado/vændiskona. Enda er alltaf hálf áhættusamt að vera ein kona á bar, ekki bara hér í Rússlandi heldur alls staðar.

Það er skemmst frá því að segja að þetta tókst ekki alveg eins og ég hafði áætlað. Ég byrjaði á því að kaupa blaðið og velti því svo fyrir mér hvert skyldi haldið. Nálægustu staðirnir voru þrír, kaffihúsin Polina og U tjosji og svo Holstein bar. Á Polinu er ekki hægt að fá sómasamlegan mat og heldur ekki bjór. Á U tjosji er hægt að fá bjór og nokkurn veginn sómasamlegan mat. Á báðum þessum stöðum er eðlilegt að sitja einn og glugga í blað (þó auðvitað teljist mun eðlilega að vera í hrókasamræðum við vini eða vinkonur eða að haldast í hendur við kærastann á meðan hann fóðrar mann á ís og kökum). Holstein bar býður upp á góðan en frekar dýran mat og auðvitað upp á bjór. Hinsvegar vissi ég ekki alveg hvort ég þyrði að fara þangað ein að kvöldi til. Hef bara komið þangað í hádegishléinu og að degi til virðist þetta nú vera fremur sómasamlegt allt saman, en það er aldrei að vita hvað gerist eftir að myrkrið skellur á. Ég tók því þá (alröngu) ákvörðun að renna út á Traktir og reyna fyrir mér þar.
Traktir er ágætis veitingabúlla, þó með fremur ókurteisum þjónustustúlkum (var barin þar í höfuðið með diski) en ....það sem dæmdi plan mitt til dauða voru langborðin og bekkirnir sem þar eru. Því var ég reyndar búin að gleyma og mætti galvösk og spurði hvort ég mætti setjast einhvers staðar, enda sýndist mér vera nóg af auðum borðum. Fyrst hunsaði allur hópurinn mig í dágóða stund, svo tók eitthvert stúlkugreyið eftir mér, en það var eins og augun ætluðu út úr höfðinu á henni þegar ég sagðist vera ein. Hún hugsaði sig um og leiddi mig svo framhjá þéttsetnum borðum á neðri hæðinni og vísaði mér til sætis...í starfsmannaherberginu!! Ég hélt ég yrði ekki eldri. Vitaskuld strunsaði ég út og tók næsta strætó beint aftur á Polinu og pantaði mér þar óhollt drasl og köku og kakó, en engan bjór. Stúlkan sem afgreiddi mig horfði á mig með skilningsríku vorkunnarbrosi. Kannski er hún líka á lausu.
Kvöldinu var þó ekki lokið og ég ákvað að fara í bíó, og ók sem leið lá í bíóið sem er ekki langt frá híbýlum mínum. Þar góndu fjórir unglingar, tveir af hvoru kyni, ýmist í sleik eða einhverju álíka káfi, á mig eins og viðundur. Ég sendi þeim hvasst augnaráð og ég er ekki frá því að þau hafi hert takið á höndum og og rasskinnum hvers annars við það. Enn voru fjörutíu mínútur í sýninguna og ég ákvað að halda bara áfram á minni hálu braut og settist inn á Kristina barinn á efri hæðinni. Það reyndist vera ágætis bar með þremur billjard borðum. Ég veit þá hvert á að fara næst. Þar pantaði ég mér bjór og hélt áfram að lesa Newsweek. Starfsfólkið góndi auðvitað á mig eins og naut á nývirki, en til allrar hamingju virtust hinir gestirnir, sem flestir voru karlkyns, ekki taka mikið eftir þessari einmana flökkukind. Svo var loksins komið að því að sýningin hæfist og sjaldan hef ég séð annað eins þvaður. Um var að ræða Anaconda2. Ég fór auðvitað aðallega til að sjá skrímslið, átti svo sem ekki von á neinu menningarlegu stórvirki en þarna tók nú steininn úr.

Jæja, hvað um það. Svona fór nú laugardagskvöld mitt í eigin félagsskap. Ég held að næst prófi ég þetta í Kaupmannahöfn. Þar telst víst aðeins eðlilegra (en samt frekar óeðlilegt) að maður sé á lausu. Spurningin var kannski heldur ekki svo mikið um lausagengi eður ei, heldur algeran skort á félagsskap. En hvað átti ég að gera? Líza var ekki í bænum, Constantína á einhverju Októberfest dæmi sem var bara fyrir meðlimi der Dritte Reich og Anna og Daníel sjálfsagt að kærustuparast eitthvað. Ekki nennti ég að morkna heima með Newsweek. Þá er alveg eins hægt að morkna á Polinu eða Kristinu, með Newsweek að sjálfsögðu.