blog... the modern person's cry for attention

fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Ég er að fara á sameldhúsfund eftir smá. Veit reyndar ekki hvort hann byrjar núna eða eftir hálftíma, kanna það rétt strax. Ég hef aldrei farið á svona fund, ekki frekar en mamma á lóðahreinsun Álfatúns(þar til í sumar), og eina ástæðan fyrir því að ég ætla að mæta er að það hefur komið fram uppástunga um að banna harðfisk í sameiginlega frystinum!!!! Mér er skapi næst að taka allan harðfiskinn sem ég á inni í ísskáp (og það er sko talsvert magn) og mæta með hann og naga á meðan fundarhöldum stendur. Þetta sannar bara hvað Danir eru ógeðslegir rasistar og sjálfumglaðir hrokagikkir, sem geta á engan hátt lifað með siðum og venjum annarra þjóða, nema þær séu hafðar einhvers staðar inni á þartilgerðri kebabbúllu og ekki fyrir neinum. Asnar.

Sæll Blogger. Langt síðan ég hef kíkt á þig, og enn lengra síðan ég hef párað nokkuð hér. Enda hef ég nýverið gerst meðlimur netverksins www.facebook.com og læt þar öllum illum látum. Í dag kíkti ég inn í nýopnaða búð, svokallaða "luxury second-hand". Ég var vart fyrr komin þar inn fyrir dyr fyrr en ég var búin að máta og kaupa svartan Marc Jacobs frakka á SKIDE OG INGENTING. Haldiði að það sé.

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Í dag hélt gömul kona að ég væri 17 ára. Hún var nótabene hvorki kölkuð né klikkuð. Önnur gömul kona sagði mér sirka tuttugu sinnum (á þeim klukkutíma sem ég var hjá henni) að ég gæti nú aldeilis ekki ímyndað mér hversu langur tími 35 ár væru. Á mður að hlæja eða gráta?

Ísland á morgun, hæhæ, hér kem ég!

sunnudagur, ágúst 20, 2006

Snakk og lakkrís er hrikalega gott saman, og popp og lakkrís er líka ágætt. Allt á einhvern hálfpervertískan hátt. Í gær fór ég í Nettó og ætlaði að kaupa fullt af grænmeti og ávöxtum og hollustu, en kom út með poka af snakki (með lágu fituinnihaldi), tvo poka af nammi (sykurlausu), eina plötu af súkkulaði (60%kakó), eina bjórdós og hálfan líter af sykurlausu gosi. Svo stoppaði ég í Kebablandi og keypti durumrúllu, hjólaði sem leið lá heim til mín og eyddi kvöldinu við það að troða í mig, blaðra við fólk á netinu og horfa með öðru auganu á American Idol. Og þótti það bara nokkuð gott.

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Mér finnst ég vera alger lúði að hafa fyrst uppgötvað nýlega (eftir að hafa séð Walk The Line) hvað Johnny Cash er/var ólýsanlegur. Hef reyndar mín menntaskólatráma sem rök fyrir því að hafa hafnað manngreyinu og neitað að hlusta á hann, en nú er ég búin í menntaskóla og hægt að hlusta á það sem manni finnst skemmtilegt (vitnað í Pawel sem vitnaði í vin sinn) og er í andlegum faðmlögum við Johnny kalllinn. Nú þarf ég að fara út í búð að kaupa lifur, hjörtu og helst einnig nýru í kvöldmatinn handa mér, Nönnu og Alexander. Við ólumst víst öll upp á þessu. Og leigja myndina, úff. Ætli ég pissi ekki í mig á meðan ófögnuðinum stendur og eftir á líka?

miðvikudagur, ágúst 16, 2006

Í gær talaði ég lengi við mömmu og kvartaði mikið undan hvað Danir væru kaldlynt og smásálarlegt fólk. Og það er satt. Það er farið að renna upp fyrir mér að ég get ekki búið hér alla ævi nema ég gifti mig hér og eignist börn. Þessi þjóð er hreinlega að drepast úr innri kulda og afskiptaleysi, sem gæti verið ein af orsökum þess að þúsundir hérlendra gamalmenna húka innilokuð í kytrum sínum og sjá ekki nokkurn mann, nema heimaþjónustuna. En hvað um það, það breytist víst ekki á næstunni.

Annað kvöld ætla ég að horfa á hryllingsmynd. Með Nönnu og Alexander, ein mín liðs fer ég ekki að leggja út í svona lagað. Ég fæ alltaf kitlandi tilfinningu í magann og sambland af spennu og löngun þegar ég skoða hryllingsmyndir í vídeoleigunni, og veit að mér verður ekki svefns auðið ef ég horfi á svona mynd. Ímyndarveik og myrkfælin er ég með eindæmum, og er búin að ákveða að ef ég tek mig saman í andlitinu og geri mér ljóst að draugarnir eru bara til í myndinni, þá getur kannski verið að ég hætti að vera svona hrikalega myrkfælin á kvöldin.

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Guð hvað mér leiðist. Þetta er alveg rosalegt. Úti ekkert nema helvítis rigningarsuddi, sem varð þess valdandi áðan að tveir Arabar spurðu alveg rosalega "hressir" hvar brjóstahaldarinn minn væri. Fávitar.

mánudagur, ágúst 14, 2006

Það gerist ekki neitt. Ekkert. Dagar mínir hverfa í ginnungagap ellinnar með tilheyrandi masi og tilgangslausu blaðri um ýmis sjúkdóma, mein og leiðindi, sem mér gæti ekki verið meira sama um. Fyrir utan þá óbreytanlegu staðreynd að fólkinu sem malar þetta í mín eyru gæti ekki verið meira sama um við hvern þau eru að tala, bara að viðkomandi skilji dönsku og sé í ástandi til að segja "Ja, det forstår jeg godt", ¨Jamen altså", og önnur viðeigandi svör við þeirra tuði.

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Armen hringdi í mig klukkan sjö í morgun, við skiptum svo yfir á msn og töluðum saman í tvo og hálfan klukkutíma. Svo skreið ég aftur undir sængina og fékk mér dulítinn lúr meðan GodMorgen Danmark suðaði á skjánum. Þegar ég vaknaði aðeins seinna seitlaði regnið hljóðlátlega fyrir utan og mig hafði dreymt að lítil og mjúk kisa lægi malandi við hliðina á mér...

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Úti eru ský. Langt síðan að ég hef séð svoleiðis. Þegar ég kíkti á mbl.is, sá ég að í Reykjavík er 11 stiga hiti. Það er hætt við að ég fái frunsu þegar ég kem heim, ef það verður svona kalt þar. Annars er mig eiginlega farið að langa í smá kulda....aaaa trúi varla að ég sé að segja þetta! Málið er að þegar haustið fer að nálgast fer ég alltaf að sjá fyrir mér peysur og trefla úr mjúkri og hlýrri ull, og hreinlega nýtt wardrobe fyrir haustið, og hvað það sé nú gott að dúða sig vel og skella sér út í kuldann. Raunin er sú, að mér tekst aldrei að koma mér upp almennilegu fatasafni og veturinn hér er andstyggilega rakur og smýgur í gegnum merg og bein, og þessar rómantísku hugmyndir mínar því óttaleg þvæla.

mánudagur, ágúst 07, 2006

Þegar ég hjólaði heim úr vinnunni áðan, alla leiðina frá Hvidovre, fannst mér allir sem á vegi mínum urðu hafa meira en óhreint mjöl í pokahorninu, eða þá á leiðinni að ná sér í það. Svart rúgbrauð með dökkleitan mann við stýrið var fullur af vesalings kynlífsþrælum frá fátækum löndum. Unglingstrákar á ráfi ætluðu að berja mig og misþyrma mér á alla vegu. Maður á hækjum við biðskýli var útilegumaður með illt í huga (þegar ég hjólaði framhjá honum sá ég að þetta var myndarmaður um þrítugt) og þannig fram eftir götunum. Á góðri íslensku kallast þetta að sjá skrattann í hverju horni.

fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Þá er Krúttmundur farinn aftur til síns heima og ég orðin grasekkja. Í gær tókst mér svo að afreka það eftir samsæti heima hjá Önnu og Pawel, þar sem hin stórskemmtilegu Dagný og Filip voru með, að hringja í grey manninn undir dulitlum áhrifum. Því miður svaraði mamma hans í símann en hana hefur vonandi ekki hryllt of mikið við mér, hún kallaði mig a.m.k. honey svo alvont getur þetta varla hafa verið. En það er nú meira hvað þessi tímamunur gerir hlutina flókna í fjarlægðarsamböndum. Bara hægt að heyra í fólki á stórfurðulegum tímum dags eða nætur og það þarf að planera þetta allt út í ystu æsar.

Jæja, en ég skil nú ekkert hvað var að mér í morgun, því svo drukkin var ég ekki í gær að alger lömun væri sjálfgefin sem afleiðing. Engu að síður drattaðist ég ekki fram úr fyrr en hálfeitt, og hafði samband við Önnu Heru, sem var að hella kaffi í bolla handa mér og hélt að ég væri enn heima hjá þeim. Og hver er þá ruglaðri, ég eða hún?

Mig grunar að Ísraelsmenn hafi bara verið að bíða eftir almennilegri átyllu til að geta sprengt alla araba norður og niður. Þegar þeir verða búnir að drepa alla í Líbanon eða hneppa þá í ánauð, ráðast þeir áfram inn í Sýrland eða hvað sem verður fyrir þeim næst. Slík er mín forspá, en vonandi rætist hún ekki.

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Hverslags andleysi er þetta? Mér dettur hreinlega ekkert í hug þessa dagana. Við sjáumst a.m.k. einhvers staðar milli 23.ágúst og 29.ágúst.